Íbúar á höfuðborgarsvæðinu og víða á Reykjanesi búa nú við útsýni á eldgos, sem varað getur til lengri eða skemmri tíma. Í kvöld og nótt hefur bjarminn af gosinu sést vel þaðan sem útsýni gætir í átt að gossvæðinu, til dæmis frá Ægissíðu í Vesturbæ Reykjavíkur, Öskjuhlíð, Seltjarnarnesi og svo Hafnarfirði sem liggur næst gosstöðvunum.
Í gær jókst virkni í aukagíg sem liggur við hlið aðalgígsins í Geldingadal. Ekki er ljóst hvort heildargosflæði hafi aukist. Sýnileiki gossins ætti þó að hafa aukist við að gígbarmarnir hækka og skýjahulu hefur létt.
Jarðfræðingar hafa í vaxandi mæli velt upp möguleikanum á því að gosið gæti varað lengi. Páll Einarsson sagði í samtali við Rúv í gær að kvikuflæði eins og það sem berst sem hraunstraumur upp í Geldingadal geti haldið gospípu opinni í áratugi.
„Þetta gæti orðið langt gos,“ sagði Freysteinn Sigmundsson jarðfræðingur í fréttum Rúv í kvöld. Þorvaldur Þórðarson jarðfræðingur sagði í samtali við mbl.is að gosið í Geldingadal hefði líkindi með eldgosi á Havaí sem varði í 32 ár. Hann taldi gosið hafa færst í aukana í gær.
Hér fyrir neðan má sjá beina útsendingu af gossvæðinu í vefmyndavél Rúv.
Athugasemdir