Píratar eru líklega undarlegasti stjórnmálaflokkur landsins. Svo undarlegir að formaður viðmiðs allra stjórnmálaflokka landsins, Bjarni Benediktsson í Sjálfstæðisflokknum, hefur efast um að þau séu alvöruflokkur og sagði þá hafa „skriðið inn á þing“ tímabundið. Samt hafa þau verið á þingi í 8 ár og hafa mælst stöðugt með 9 til 14 prósenta fylgi síðustu fjögur ár.
Hegðun Pírata hefur kallað yfir þá óvild stjórnmálamanna sem kunna á fagið og það sem því fylgir. Fyrir því eru nokkrar ástæður, beinar og afleiddar. Þrátt fyrir þetta og kannski vegna þess hafa aðrir stjórnmálamenn oft reynt að gera lítið úr Pírötum eða beinlínis refsa þeim. Óþol annarra stjórnmálamanna gagnvart Pírötum ristir dýpra en svo að það snúist um mismunandi stefnur í stjórnmálum. Píratar eru þeim óskiljanlegir, óæskilegir og jafnvel ógeðfelldir.
Fyrsti íslenski alþingismaðurinn til þess að vera úrskurðaður brotlegur við siðareglur þingmanna var Pírati, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þegar hún vildi rannsaka háar endurgreiðslur á aksturskostnaði þingmanna, nánar tiltekið til eins þingmanns, Ásmundar Friðrikssonar í Sjálfstæðisflokknum, sem hún taldi vekja „rökstuddan grun um fjárdrátt“. Brot hennar var að tjá sig þannig um það sem flestir teldu að lágmarki vera siðferðisbrot þingmanns sem fékk 23,5 milljónir króna í akstursgreiðslur frá ríkinu á fjórum árum, langt umfram það sem reglur kváðu á um, og endurgreiddi reyndar 180 þúsund krónur, þar sem upp komst að þær voru vegna ferða í einkaerindum við gerð sjónvarpsefnis.
Enga Pírata hér
Nú síðast í þessari viku kröfðust tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins þess að þingmaður Pírata, Jón Þór Ólafsson, segði af sér sem formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. Ástæðan aftur að Jón Þór tjáði sig um að á fundi nefndarinnar hefðu komið fram vísbendingar í vitnisburði lögreglustjórans og ráðherrans á fundi nefndarinnar um að atferli ráðherra Sjálfstæðisflokksins, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem flestir myndu telja siðferðislega vafasamt, verðskuldaði nánari athygli. Áslaug, sem dómsmálaráðherra í umboði þjóðarinnar, hringdi tvisvar í lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu á aðfangadag, rétt fyrir jólamatinn, til að ræða aðkomu lögreglunnar að formanni flokksins hennar. Eftir að hagsmunir umboðsmanns þjóðarinnar og flokksmanns flokksins rákust á var niðurstaða samflokksmanna að þingmaður Pírata segði af sér formennsku í þingnefnd til að endurheimta traust.
Annar Sjálfstæðismannanna, Brynjar Níelsson, hafði reyndar sett sig upp á móti því að Jón Þór fengi að vera formaður forsætisnefndar áður en hann varð það í fyrra, þrátt fyrir samkomulag flokkanna á Alþingi um að Píratar hefðu formennsku í nefndinni. „Hugmyndir þeirra eru með þeim hætti að þau eru ekki réttu aðilarnir til að leiða þetta starf,“ sagði hann um Pírata.
„Gjörsamlega óþolandi“
Píratar hafa ítrekað unnið gegn fjárhagslegum einkahagsmunum þingmanna. Þetta birtist meðal annars í því þegar Jón Þór Ólafsson og fleiri settu sig upp á móti launahækkunum þingmanna upp á 45% á kjördag fyrir rúmum fjórum árum. Bjarni Benediktsson, þá forsætisráðherra, var andsnúinn umræðu um málið á Alþingi og sagði „alveg gjörsamlega óþolandi“ að þurfa að ræða þetta, því Alþingi ætti ekkert að hafa með ákvörðunina að gera, sem tekin var af kjaranefnd sem skipuð var af Alþingi og honum sjálfum. Þetta var ekki í síðasta skiptið sem Píratar voru metnir óþolandi og óalandi af þingmönnum.
Árin 2017 og 2018 fjallaði Stundin um endurgreiðslur til þingmanna. Skrifstofa Alþingis neitaði að veita Stundinni upplýsingar um hversu háar akstursgreiðslurnar væru til einstaka þingmanna. Stundin kærði til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, sem hafnaði því að skylda Alþingi til að veita upplýsingar um þessi útgjöld almennings til þingmanna, sem setja sér sjálfir reglurnar. Stundin fékk hins vegar sambærilegar upplýsingar um sænska þingmenn. Þetta breyttist þegar Björn Leví Gunnarsson lagði fram fyrirspurnir á Alþingi um aksturskostnaðinn. Þá kom meðal annars á daginn að einstaka þingmenn voru að fá hátt í fimm milljónir króna á ári í endurgreiðslur af akstri, sem kom í ljós að kostaði raunverulega mun minna. Ökuglaðasti þingmaðurinn, Ásmundur Friðriksson úr Sjálfstæðisflokki, átti eftir að fá nóg af Birni Leví, eins og fleiri þingmenn sem kvörtuðu undan honum í fjölmiðlum.
Að spyrja spurninga
Fyrirspurnir Björns Levís hafa verið teknar til opinberrar umræðu sem eitt helsta vandamálið við Pírata. Björn Leví hafði lagt fram fleiri fyrirspurnir en um akstursgreiðslurnar sem þingmenn oftóku. Hann hefur meðal annars spurt um kaup ráðuneyta og stofnana á fjölmiðlaáskriftum, sem leiddu til dæmis í ljós að ríkið greiðir Morgunblaðinu, undir ritstjórn fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins, 26 sinnum meira fyrir áskriftir en Stundinni. Björn Leví hefur lagt fram fjöldann allan af fyrispurnum um hvert ríkið setur peningana sína og hvernig það starfar.
Fyrirspurnir Björns Levís eru í samræmi við grunnstefnu Pírata þar sem segir: „Píratar telja gagnsæi eiga mikilvægan þátt í að almenningur sé upplýstur og þar af leiðandi hæfur til lýðræðislegrar ákvörðunartöku“ og „upplýsingar eiga að vera aðgengilegar almenningi“.
Í viðtali við Kjarnann útskýrði hann: „Þetta er líka nýtt sem ákveðið stjórntæki. Að halda upplýsingum frá fólki.“ Þá sagði hann að gegnsæi væri hluti af lausn á vantrausti á stjórnmálunum. „Ein af lausnunum við því er að sýna að við höfum ekkert að fela.“
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var svo ósáttur við fyrirspurnafjölda Björns Levís, vegna kostnaðar, að hann ákvað að leggja fram níu fyrirspurnir á ráðuneyti til að spyrja út í kostnaðinn við fyrirspurnir, og þá sérstaklega fyrirspurnir Pírata. Í ljós kom að Brynjar sjálfur hafði fram að þessu aðeins lagt fram eina fyrirspurn á þingferlinum og eitt frumvarp, sem snerist um að refsa foreldrum fyrir tálmun á umgengni.
„Alls fóru 3 vinnustundir í að taka þetta svar saman,“ sagði í svari utanríkisráðuneytisins um fyrirspurn Brynjars um fyrirspurnir. Ráðuneytinu höfðu borist fjórar fyrirspurnir frá Pírötum, sem voru 21% fyrirspurna þingmanna. Píratar áttu um helming fyrirspurna til umhverfisráðuneytisins og menntamálaráðuneytisins, 44% til dómsmálaráðuneytisins og þriðjung til heilbrigðisráðuneytisins og forsætisráðuneytisins. Fjármála- og efnahagsráðuneytið fékk 17 fyrirspurnir frá Pírötum, en 13 þeirra „kröfðust aðeins einfaldrar upplýsingaöflunar“. 22% fyrirspurna voru frá Pírötum. Hjá atvinnuvegaráðuneytinu höfðu flestar fyrirspurnir borist frá Vinstri grænum.
Önnur viðmið giltu gagnvart Birni Leví en gagnvart Ásmundi Friðrikssyni, sem samflokksmenn Brynjars sögðu duglegan að heimsækja fólk í kjördæminu sínu þegar hann kostaði á þriðja tug milljóna til aksturs, eða rétt að segja kostaði töluvert minna til en fékk „endurgreitt“ samkvæmt kílómetrafjölda.
Rangur klæðaburður
Í desember 2018 fór Ásmundur Friðriksson í útvarpsviðtal að tala um skóleysi Björns Levís, auk þess sem hann tók upp umræður um gallabuxur á þingfundi. Hálftímaumræður voru á Alþingi í júní í fyrra um jakkaleysi Björns Levís. Tilgangur klæðaburðarreglna á Alþingi er að merkja þingmenn út frá valdastöðu þeirra í samfélaginu og auka trúverðugleika. Jakkafötin eru tákn. En táknin geta snúist upp í andhverfu sína með reynslunni. Þannig var ákveðið árið 2009, eftir efnahags- og traustshrun, að afnema skyldu þingmanna til að ganga með bindi.
Viðskiptaritstjóri Morgunblaðsins var svo reiður yfir því fyrr á þessu ári að Björn Leví væri bindislaus í stóli forseta Alþingis, að hann vildi að honum yrði meinað að sinna hlutverkinu: „Á einfaldlega ekki að hleypa manninum í stólinn,“ sagði hann á Facebook. Þetta var að hans mati „lágkúra“, „vanvirðing við þingræðið og helstu stofnun landsins“, en Björn Leví var í jakka, hvítri skyrtu og gallabuxum.
En þarna síðasta sumar, í júní, þótti þingmanni Miðflokksins, Þorsteini Sæmundssyni, „ömurlegt“ að Björn Leví væri jakkalaus. Eftir að Ásmundur Friðriksson hvíslaði í eyra Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis og eins helsta foringja vinstri manna á Íslandi, sagði Steingrímur „af miklum þunga og mikilli alvöru“: „Nú telur forseti komið út fyrir mörkin“. Ástæðan var að Björn Leví var ekki klæddur í jakka. Orsök þess var að það var heitt inni því gluggar voru lokaðir. Það var brunalykt yfir miðbænum. Á sama tíma og klæðaburður Björns Levís var til umræðu á Alþingi var að brenna hús við Bræðraborgarstíg 3. Þar létust þrír, fólk sem kom til Íslands til að vinna og bjó við hættulegar og heilsuspillandi aðstæður 650 metrum frá Alþingi.
Kannski er hluti af þessu öllu ástæðan fyrir því hvernig Björn Leví svaraði spurningu til sjálfs sín í vikunni um hvers vegna hann vildi bjóða sig fram til Alþingis í prófkjöri Pírata sem lýkur núna um helgina: „Það ætti enginn að vilja komast inn á Alþingi eins og það er í dag. Þar er ofbeldisumhverfi. Fólk sem stígur þangað inn þarf óhjákvæmilega að glíma við ofbeldi á einn eða annan hátt í þeirri vinnu. Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því hversu gegnumgangandi þetta ástand var áður en ég fór inn á þing. Spurningin fyrir mig væri því frekar, af hverju viltu fara aftur inn á Alþingi? Ég hef mjög mikla reynslu af því að vinna í ofbeldisumhverfi og hef mjög mikinn áhuga á að upplýsa um hvernig það virkar og vinna að því að úthýsa því.“
Hvar er valdþorstinn?
Píratar fara hins vegar engum silkihönskum um aðra þingmenn. Það sem Píratar hafa helst gagnrýnt snýst hins vegar um að stjórnmálamenn taki eigur almennings sem þeir eigi ekki heimtingu á: Peninga eða völd.
Eitt af því sem gerir Pírata illskiljanlega fyrir mörgum þingmönnum er þegar þeir hætta á þingi, til dæmis til að fara að malbika eða vinna sem stöðumælaverðir. Árið 2015 hætti Jón Þór Ólafsson á þingi og gerðist stöðumælavörður. Í fríum hefur hann unnið við að malbika. Jón Þór hefur nú ákveðið að hætta aftur á Alþingi við kosningarnar í september. Samtals er helmingurinn af sex þingmönnum Pírata búinn að ákveða að hætta og ætla að sinna umbótaverkefnum innan flokksins utan þings. Helgi Hrafn Gunnarsson, sem hætti 2016 og kom síðan aftur inn á þing, vill auka áhersluna á hinn almenna flokksmann. „Ég sé fyrir mér að geta tekið meiri þátt í starfi flokksins og þá með þingreynsluna á bakinu,“ sagði hann þegar hann kynnti ákvörðunina um að hætta.
Almenna reglan er að stjórnmálamenn hætta ekki á Alþingi til þess að vera á gólfinu í flokksstarfinu. Hefðbundinn atvinnustjórnmálamaður stefnir á ráðherrastólinn eftir Alþingi, en ef allt um þrýtur er von á því að flokkurinn leysi þá út með góðri stöðu. Til dæmis sendiherrastöðu, eins og Miðflokksmaðurinn Gunnar Bragi Sveinsson taldi sig eiga heimtingu á frá Sjálfstæðismönnum, fyrir að hafa gert Geir H. Haarde, fyrrverandi formann þeirra, að sendiherra Íslands í Washington.
Kannski hefur þetta eitthvað með bakgrunn þeirra að gera og atvinnumöguleika. Þekkt er að Gunnar Bragi rak sjoppu á Sauðárkróki áður en hann komst á þing fyrir Framsóknarflokkinn og varð fljótlega utanríkisráðherra. Algengara er að Píratar komi úr nýsköpunargeiranum. Helgi Hrafn er forritari, Björn Leví vann fyrir CCP og Meniga, svo dæmi sé nefnt. Smári McCarthy, sem hættir í haust, hefur sömuleiðis unnið við forritun og hefur beitt þekkingu sinni til að berjast gegn einræði og spillingu á alþjóðavísu.
Vegna þessa starfa var reynt að gera Smára og Pírata tortryggilega fyrir kosningarnar 2016, til dæmis í áróðursmyndbandi á Facebook og umfjöllun í Viðskiptablaðinu þar sem birt var mynd af Smára með byssu í Afganistan, þar sem hann var við sjálfboðastörf við að byggja upp fjarskiptanet fyrir stríðshrjáða landsmenn.
Ábyrgð í umboði almennings
Þótt Píratar séu gjarnan stimplaðir og jaðarsettir fyrir að valda óþægindum á Alþingi er hugmyndafræði þeirra vel undirbyggð fræðum. Sem dæmi má taka umboðskenningar. Þegar einhver fer með vald, eins og ríkisvald, í umboði almennings, skapast hætta á hagsmunaárekstri. Viðkomandi getur til dæmis notað ríkisvaldið til að bæta eigin hag á kostnað annarra. Við þekkjum auðvitað mörg og misvel falin dæmi um þetta: Lífeyrisgreiðslur og launahækkanir til stjórnmálamanna, aukin fjárframlög til stjórnmálaflokka og leynilegar endurgreiðslur vegna aksturs sem ná langt umfram raunútgjöld. Þegar gegnsæi skortir verður til freistnivandi þar sem fólk getur misnotað aðstöðu sína án afleiðinga.
En umboðskenningin nær langt út fyrir stjórnmálin sem slík. Sem dæmi um umboðsvanda er þegar forstöðumenn vistheimila beita börn ofbeldi, börn sem voru þar vistuð sér til hagsbóta í umboði okkar hinna.
Tvíhyggjan um hægri og vinstri
Stefna Pírata lýtur því að miklu leyti að meðförum valds, frekar en að velja almennt að ríkisumsvif séu aukin eða minnkuð, eða skattar almennt lækkaðir eða hækkaðir. Þótt einstaka ákvarðanir geti falið í sér afstöðu sem má flokka undir hægri- eða vinstristefnu, þýðir það ekki endilega að allir flokkar þurfi að vera annaðhvort hægri eða vinstri. Enda ætti öllum að vera ljóst að það er misjafnt eftir tíma, ytri aðstæðum og forsögunni, hvort það eigi að minnka ríkisumsvif eða lækka skatta.
Auk þess er gagnsemi beitingar ríkisvaldsins afstæð við gæði og stór hluti gæðanna snýr að því að leggja þeim reglur og aðhald sem fara með valdið í okkar umboði. Misnotkun á ríkisvaldinu í eigin þágu er ekki háð stjórnmálastefnu, nema að því leyti að hana skortir skýr viðmið um meðferð valdsins, byggð á þekkingu á hvötum og hagsmunaárekstrum.
Margir aðrir stjórnmálamenn skilja hins vegar ekki hvernig það getur verið stefna að gera út á aukið lýðræði, valddreifingu, gagnsæi og þess háttar. Það viðhorf var dregið saman í Staksteinum, nafnlausum dálki í Morgunblaðinu, sem ritstýrt er af fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins og fjármagnað af helstu handhöfum íslensku fiskveiðiauðlindarinnar:
„Píratar eru óvenjulegur stjórnmálaflokkur að því leyti að þrátt fyrir framboð í nokkrum kosningum og setu á þingi og í sveitarstjórnum árum saman er stefnan afar óljós og allt að því ósýnileg með öllu.“
Stefnuleysi Pírata
Eitt sem skilur Pírata frá hinum er að flokkurinn er beinlínis byggður á því sem talið er grafa undan mörgum öðrum flokkum. Samstaða og samtakamáttur er aðall margra flokka og birtist í hástemmdum ræðum og fögnuði yfir eigin umframágæti en endar þó oft í foringja-, flokks- og klíkuræði. Píratar hafa hins vegar í grunnstefnu sinni að efast um eigin ákvarðanir og að standa ekki með hver öðrum nema á efnislegum forsendum:
„Píratar móti stefnu sína í ljósi gagna og þekkingar sem er aflað óháð því hvort tillaga virðist í fyrstu æskileg eða ekki. Afstaða Pírata til hugmynda er óháð því hverjir talsmenn hennar eru ... Fyrri ákvarðanir Pírata þurfa alltaf að geta sætt endurskoðun“.
Píratar eru hins vegar augljóslega ekki fyrir alla og ekki tilraun til að vera neins konar heildarlausn á stjórnmálum, eins og þekkist meðal stærstu flokkanna. Fólk hefur gjarnan sérstaka hagsmuni eða áherslu sem fellur að öðrum flokkum. Ef fólk upplifir að það verði fyrir stéttbundnu óréttlæti í samfélaginu eða vill styðja meira við þá verst stöddu liggur beinast við að kjósa Samfylkinguna, Sósíalistaflokkinn eða Vinstri græna, eftir atvikum og ætluðum trúverðugleika.
Þau sem trúa því hins vegar að skattheimta sé að lama getu samfélagsins til verðmæta- og velferðarsköpunar, eða fá há laun og vilja meira útborgað, geta síðan kosið Sjálfstæðisflokkinn eða Viðreisn.
Þau sem vilja hag landsbyggðarinnar ofar en hefur verið hafa getað kosið Framsóknarflokkinn, sem ástundar miðjupólitík, sögulega séð með áherslu á einstök stór inngrip, eins og leiðréttingu húsnæðismála eða álverksmiðju og Kárahnjúkavirkjun fyrir austan, byggðamál og aðlögunarhæfa stefnu til hægri og vinstri eftir því sem hentar.
Fólk sem telur samfélagið plagað af pólitískri rétthugsun, hefðarofi, framsali valds til alþjóðastofnana og skorti á afgerandi inngripum stjórnmálaleiðtoga geta síðan valið Miðflokkinn.
Ef markmiðið er að hefðbundið stjórnmálavald fái aðhald að innan má sjá á viðbrögðunum að Píratar eru mikilvægasti flokkurinn á Íslandi síðustu ár.
--
Uppfært: Í fyrri útgáfu kom ranglega fram að Jón Þór Ólafsson væri formaður forsætisnefndar Alþingis, en um er að ræða stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Athugasemdir