Tímabundið verður óheimilt að fljúga yfir ákveðið svæði á Reykjanesi hefjist eldgos á svæðinu, að sögn upplýsingafulltrúa Isavia. Líklegt er að það gildi einungis í um hálftíma eftir upphaf goss, en eftir það er það í höndum flugfélaganna að taka ákvörðun.
Óróapúls hefur mælst suður af Keili í dag að því er Veðurstofan hefur tilkynnt, en eldgos er ekki hafið. Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að hefjist gosið muni svæði þar sem óheimilt verður að fljúga mögulega ná yfir Keflavíkurflugvöll eða Reykjavíkurflugvöll, en það eigi eftir að koma í ljós.
„Það er myndaður ákveðinn hringur í kringum eldstöðina í afmarkaðan tíma,“ segir Guðjón. „Það yrði líklega ekki mikið lengra en hálftími, eða sá tími sem tekur Veðurstofuna að gefa út öskuspá. Þegar hún er komin út er það ákvörðun flugfélaganna hvað þau gera, hvort þau fljúgi yfir svæið eða ekki. Það er atburðarásin sem fer í gang og svo erum við að tryggja okkar innviði og verja okkar rekstur. Það er okkar verkefni.“
Aðspurður segir Guðjón að fylgst verði með áhrifum goss í framhaldinu. „Ef þetta er hraungos getur sú staða komið upp að hraunið valdi samgöngutruflunum ef vegir fara í sundur eða eitthvað slíkt,“ segir hann.
Athugasemdir