Lögmaður Uhunome Osayomore, manns sem neitað var um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna þess að stjórnvöld telja að hann sé öruggur í heimalandi sínu þrátt fyrir sögu hans um mansal og ofbeldi, gagnrýnir ummæli dómsmálaráðherra í viðtali við RÚV í kjölfar þess að henni voru afhentar 45.000 undirskriftir gegn brottvísun Uhunome.
Magnús Norðdahl, lögmaður hins 21 árs Uhunome, segir dómsmálaráðherra gefa það til kynna í viðtali við RÚV fyrr í dag að bagalegt sé að umræða í hælismálum skuli alltaf snúast um einstök mál en ekki kerfið í heild. „ Orð dómsmálaráðherra verði ekki skilin öðruvísi en svo að hún átti sig ekki á eðli og inntaki mannréttindabaráttu,“ sagði Magnús í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér rétt í þessu.
„Eina sem þarf er vilji“
Mannréttindabarátta fer að sögn Magnúsar iðulega þannig fram að ljósi sé varpað á einstök mál þar sem ekki hefur verið gætt að mannréttindum þeirra sem í hlut eiga. Með þeim hætti telur hann að oftar en ekki verði breytingar á regluverki sem leiðir til umbóta fyrir ekki bara einstaklinginn heldur stóran hóp fólks í sömu stöðu sem sæti sömu skerðingum á mannréttindum sínum. „Nærtækt dæmi í sögulegu samhengi er mál Brown v. Board of Education sem fór fyrir Hæstarétt Bandaríkjanna sem var stórt skref í þá átt að banna aðskilnað svarta og hvítra í skólakerfinu þar í landi,“ sagði Magnús.
Eiga að hlúa vel að fórnarlömbum mansals
Íslensk stjórnvöld eiga að mati Magnúsar að hlúa vel að fórnarlömbum mansals en þegar þau hafa brugðist skyldum sýnum sé rétt að geta veitt þeim aðald. „Þegar stjórnvöld bregðast skyldum sínum er gott að geta veitt þeim aðhald en það hafa 45.000 aðilar gert með því að rita undir undirskriftasöfnun fyrir Uhunoma Osayomore. Jákvæð niðurstaða í hans máli myndi leiða til breytinga fyrir stóran hóp mansalsfórnarlamba, bæði þeirra sem eru stödd hér á landi í dag og eins þeirra sem hingað munu leita í framtíðinni,“ sagði hann.
Þá vekur furðu Magnúsar að dómsmálaráðherra vísi til þess að mál Uhunoma sé ekki í hennar höndum. „Þetta er því miður kunnulegt stef að ráðherra skuli ekki þekkja eða vilja beita valdheimildum sínum. Þó dómsmálaráðherra hafi ekki boðvald yfir nefndarmönnum í kærunefnd útlendingamála getur ráðherrann allt að einu gefið út almenn leiðbeinandi tilmæli til stjórnsýslunnar hvernig fara skuli með mál mansalsfórnarlamba. Að sama skapi getur ráðherra ráðist í breytingar á reglugerð með það markmiði að tryggja betur réttindi Uhunoma Osayomore og annarra sem eru sömu stöðu og hann. Eina sem þarf er vilji.“
Áslaug vill umræðu um kerfið í heild
Áslaug Arna sagði í samtali við RÚV að verið væri að leita leiða til að gera kerfið betra, en það væri ekki í höndum ráðherra að ákveða með einstök mál. „Það hefur verið þannig þó að ráðherra taki aldrei ákvörðun um einstök mál, enda er þetta eins og önnur mál í ferli og fer til sjálfstæðrar kærunefndar útlendingamála.“
Hún sagði að útlendingalögin hefðu verið samin í mikilli sátt allra stjórnmálaflokka.
„Við erum að gera mjög vel hér á landi. Við erum að taka á móti fleirum heldur en lönd í kringum okkur, ef við miðum okkur við Norðurlöndin til dæmis. Við erum alltaf að leita úrbóta og ég lagði til að mynda [fram] skýrslu um umbætur á stöðu barna á flótta. En athyglin virðist ofast beinast að einstökum málum, í staðinn fyrir hvað við getum gert betur í kerfinu í heild sinni. En það er vissulega umræða sem við erum alltaf að reyna að taka, bæði að hraða málsmeðferð og gera betur fyrir fólk á flótta.“
„Við notum sömu mælikvarða og önnur lönd“
Aðspurð hvort Ísland ætti að taka á móti fleiri flóttamönnum sagði Áslaug að sömu viðmið væru notuð hér á landi og annars staðar. „Við notum sömu mælikvarða og önnur lönd. Og önnur lönd miða við skilgreiningu á því hverjir eiga rétt á alþjóðlegri vernd sem byggist á Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Og við byggjum á sömu skilgreiningu og önnur lönd.“
Athugasemdir