„Þau virtust hafa augu og eyru alls staðar. Maður þorði varla að fara á klósettið af ótta við að það væri fylgst með manni. Það var kveikt á baðinu og vaskinum á meðan þú settist á klósettið, og maður grét. Það var eina skjólið, eini staðurinn þar sem maður gat fengið pínu frið. Stundum fór maður á klósettið mörgum sinnum á dag, þó maður þyrfti það ekkert. En svo varð maður snillingur í að gráta hljóðlaust, ég lærði að gráta í þögn.“
Þannig lýsir Sigurósk Tinna Pálsdóttir dvöli sinni á meðferðarheimilinu Laugalandi í Eyjafirði á árunum 2000 til 2001. Þessi „þau“ sem Tinna segir að hafi virst hafa augu og eyru alls staðar eru Ingjaldur Arnþórsson, forstöðumaður heimilisins, og Áslaug Brynjarsdóttir eiginkona hans. Tinna er sú sjöunda í hópi kvenna sem vistaðar voru á Laugalandi og hafa stigið fram til að lýsa harðræði á Laugalandi, óttastjórnun Ingjaldar og ofbeldi af hans hálfu, bæði andlegu og líkamlegu. Fjallað var ítarlega um málið í síðasta tölublaði Stundarinnar.
Athugasemdir