Strákslæti nokkurra njarða (e. nerds) á Reddit-vefnum, í hópnum „wallstreetbets“, hafa valdið umtalsverðri ólgu á hlutabréfamörkuðum síðustu vikur – raunar svo mjög að vísitölur hafa lækkað um 3-5% frá áramótum, ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur einnig í Evrópu og á fjarlægum mörkuðum í Asíu þó að aðgerðirnar hafi ekki upphaflega beinst gegn þeim. „Strákslæti“ er ekki lengur rétta orðið nema þá um upphaf aðgerðanna því að milljónir einstaklinga hafa nú bæst í hópinn og breytt „wallstreetbets“ í fjöldahreyfingu: „fólkið gegn Wall Street“. Það vekur furðu að jafnólíkir stjórnmálamenn og Ted Cruz og Alexandria Ocasio-Cortez hafa lýst stuðningi við hreyfinguna (sem oft er kennd við Hróa hött – eða Robinhood, eftir hlutabréfamiðlaranum sem flestir þátttakendurnir nota). Fyrirfram hefði maður talið útilokað að finna nokkurt málefni sem þessi tvö gætu sammælst um. Cruz hefur samúð með hreyfingunni vegna skyldleika hennar við aðrar lýðhyggjubylgjur af Trump-tagi; en AOC (eins og hún er venjulega kölluð vestanhafs) vegna þess að Hróa-hattar árásin færir, að hennar dómi, auð frá hinum ríku til hinna fátæku og kemur við kaunin á illvígum vogunarsjóðum: sjálfum náriðlum kapítalismans.
Ég hef ekki fylgst með umræðunni á Íslandi um Hróa-hattar árásina en gef mér hér að þeir sem á annað borð hafa einurð til að lesa pistil eins og þennan hafi lágmarksvitneskju um staðreyndir málsins og þurfi ekki miklar bakgrunnsupplýsingar. Í sem stystu máli hafa forkólfar hreyfingarinnar valið nokkur fyrirtæki á fallanda fæti, að mestu af handahófi, og hvatt til stórkostlegra hlutabréfakaupa í þeim sem hefur lyft verði hlutabréfa í nályktandi fyrirtækjum svo sem GameStop, AMC og Blackberry upp úr öllu valdi á meðan vogunarsjóðir, sem veðjað höfðu á fallandi gengi fyrirtækjanna, hafa tapað milljörðum dollara.
Mikið hefur verið skrifað um ýmisleg lagaleg og fjárhagsleg úrlausnarefni sem tengjast atburðum síðustu daga. Það er t.d. spurning hvort sú aðgerð Robinhood miðlarans sjálfs (sem sérstaklega átti að höfða til hagsmuna smábraskara af þessu tagi) að loka á kaup þeirra fimmtudaginn 28. jan. hafði lagastoð. Sumir dylgja jafnvel um að vogunarsjóðirnir hafi mútað miðlaranum til að loka fyrir viðskipti. Í öllu falli tókst sjóðunum að bjarga miklum fjármunum þegar verðið á hlutabréfum í viðkomandi fyrirtækjum hríðlækkaði á fimmtudeginum – þó að það hafi svo hækkað á föstudeginum þegar miðlarinn opnaði gáttirnar aftur. Fjárhagslega má svo efast um að margir í lýðhyggjuhreyfingu þessari muni á endanum hagnast mikið – nema þeir örfáu sem áttu hugmyndina og keyptu fyrstir. Eitt er að meirihluti kaupenda fjárfesti í fyrirtækjunum þegar verð þeirra hafði þegar hækkað mikið. Í annan stað er það eðli hlutabréfaviðskipta að hagnaður er ekki raunverulegur fyrr en hann er innleystur. Það er í mikilli tísku nú að birta skjáskot af stöðu sinni á Robinhood á samfélagsmiðlum. En vandinn er sá að þó að skjárinn sýni tugþúsundir dollara í hagnað þá verður lítið eftir af honum þegar að sölu kemur, a.m.k. ef allir ákveða að selja á um það bil sama tíma.
Mig skortir bæði þekkingu og áhuga til að fjölyrða um þessar lagalegu og fjárhagslegu spurningar hér. Ég hef betri forsendur til að fjalla ögn um nokkur siðferðileg vandamál sem þessir viðburðir á Wall Street hafa skapað. Þau hafa ekki hlotið sömu umfjöllun ennþá, bæði vegna þess að þau eru mjög tæknilega flókin og líka vegna hins að Ugla Mínervu hefur sig einatt ekki til flugs fyrr en í kvöldrökkrinu. Ég ætla ekki að taka beina afstöðu til þessara vandamála heldur velta upp nokkrum flóknum flötum á þeim til að hjálpa lesendum að mynda sér skoðun.
Fyrsta spurning: Eru vogunarsjóðir siðlausir? Helstu siðferðilegu rökin fyrir því að árásin á Wall Street sé réttlætanleg er sú að hún beinist aðallega gegn vogunarsjóðum sem séu í eðli sínu siðlaus fyrirtæki. Starfsemi vogunarsjóða er raunar svo flókin og margþætt, og svo ólík verkefnum venjulegra hlutabréfasjóða, að hún er ofar skilningi alls venjulegs fólks sem ekki hefur viðskiptafræðimenntun að baki. Einn liðurinn í starfseminni – og sá sem flestir gagnrýnendur beina athyglinni að – er að veðja á fallandi gengi fyrirtækja og græða því meir sem viðkomandi fyrirtæki standa sig verr. Þetta skýrir „náriðla“-nafnbótina. Þetta hljómar vissulega illa en margir viðskiptasiðfræðingar hafa bent á að í raun sé enginn siðferðilegur eðlismunur á því að veðja á að fyrirtæki græði (eins og allir þeir gera sem kaupa hlutabréf í fyrirtækinu) og að það tapi (eins og vogunarsjóðirnir). Samkvæmt þessu sjónarmiði gegna vogunarsjóðir sama hlutverki og ruslætur í fiskabúri; þeir koma jafnvægi á búskapinn. Líka hefur verið bent á að hlutdeild vogunarsjóða í heildarviðskiptum á hlutabréfamörkuðum sé mun minni en margir halda og hagnaður þeirra í raun rýrari (9-13% á ári í Bandaríkjunum á síðustu 5 árum) en hefðbundinna sjóða sem reyna að fylgja hlutabréfavísitölunni (15% meðalhækkun á S&P 500 síðustu 5 ár) eða gera ögn betur. Aðrir benda hins vegar á að almennt siðaskyn fólks geri mikinn mun á því að hagnast á velfarnaði annarra andstætt því að hagnast á óförum þeirra. Ef ég á frænda sem öðlast frægð og frama og ég skapa mér hlutgengi með því að baða mig í sviðsljósi hans verð ég kannski kallaður, í versta falli, grátbroslegur og lítilþægur, en ef frændinn verður frægur að endemum og ég kem mér á framfæri með því að nýta mér eymd hans verður mér ugglaust brugðið um helbert siðleysi. Spurningin um siðleysi vogunarsjóða er því angi af stærri spurningu um hvort vegur þyngra siðferðilega, „hlutlaust“ fræðilegt mat á kostum og göllum eða djúpstæðar tilfinningar almennings fyrir því hvað sé siðferðilega viðeigandi og hvað ekki.
Önnur spurning: Er YOLO-herhvötin siðferðilega réttlætanleg? Á Reddit-vefnum eru sífelld herhvöt höfð uppi um að selja ekki til að innleysa hagnað heldur halda kaupunum til streitu og reyna að þvinga verð hlutabréfa í hinum völdu fyrirtækjum upp enn frekar. Eitt helsta vígorðið er YOLO („You only live once“). Það vakti sérstaka athygli að á fimmtudeginum, þegar Robinhood hafði lokað fyrir kaup en leyfði sölur, valdi stór meirihluti hlutabréfaeigendanna að selja ekki. Þetta stangast á við öll leikjafræðilíkön um hegðun „skynsamlegs fólks“. Því ekki að innleysa hagnað eins hratt og hægt er þegar verðið byrjar að lækka í fyrirtækjum sem allir vita að hafa enga vaxtarvon sjálf og aðeins er haldið uppi af „gervi“-eftirspurn? Þessi hegðun bendir til þess að herhvötin hafi haft veruleg áhrif, raunar svo mikil að hún hafi orðið yfirsterkari hagnaðarhvötinni sem venjulega stýrir ákvörðunum í viðskiptum. Það má túlka þetta á tvö gjörólíka vegu út frá siðferðilegu sjónarmiði. Jákvæða túlkunin er sú að hegðun fólks í Hróa-hattar hreyfingunni stýrist af siðferðilegum samheldni- og réttlætissjónarmiðum sem séu mun aðdáunarverðari en einber hagnaðarhvöt. Neikvæða túlkunin er sú að forkólfar hreyfingarinnar hafi skapað sértrúarsöfnuðar-staðblæ þar sem orð þeirra verki eins og fíkniefni („ópíum fyrir fólkið“) og ræni það allri skynsemi. Ímynd hins dæmigerða þátttakenda er, samkvæmt þessari túlkun, atvinnulaust ungmenni um tvítugt sem býr í kjallaholu hjá pabba og mömmu og eyðir öllum deginum fyrir framan tölvuskjá, en bíður eftir mánaðarlegu atvinnuleysisbótunum sínum sem það setur svo umsvifalaust í vonlaust hlutabréfabrask án nokkurrar forsjálni eða fyrirhyggju. YOLO!
„Tugir milljóna venjulegs fólks í Bandaríkjunum og annars staðar stunda viðskipti á hlutabréfamarkaði með sparnað sinn og lífeyri“
Þriðja spurning: Hvað með saklausa þriðja aðilann? Þriðja og mikilvægasta siðferðisspurningin er um hinn siðferðilega grundvöll hreyfingarinar í heild. Hinn meinti grundvöllur hennar (sem AOC og aðrir jafnaðarmenn einblína á) er að færa hagnað í hlutabréfaviðskiptum frá siðlausum stórfyrirtækjum, einkum vogunarsjóðum, til „litla mannsins“. Ég hef orðað efasemdir að framan um hvort vogunarsjóðir séu í raun siðlausir og eins hvort „litli maðurinn“ muni í raun efnast á þessum aðgerðum þegar upp verður staðið. En jafnvel þótt við gefum okkur að svarið við báðum þessum spurningum sé jákvætt – kaldrifjaðir kapítalistar fái á baukinn og nokkrar milljónir Reddit-áhangenda hagnist verulega og geti borgað námslánin sín – þá stendur eftir spurning sem einatt flækir siðferðilega ákvarðanatöku: Hvað með saklausa þriðja aðilann eða blórabögglana (e. bystanders, collateral damage)? Þetta er spurning sem allir 1. ársnemar í heimspeki þekkja úr langsóttum klípusögum fræðanna um hvort færa eigi stjórnlausan járnbrautarvagn frá spori þar sem hann mun granda fimm verkamönnum yfir á annað spor þar sem hann grandar bara einum. Í þessu dæmi er spurningin miklu jarðbundnari. Tugir milljóna venjulegs fólks í Bandaríkjunum og annars staðar stunda viðskipti á hlutabréfamarkaði með sparnað sinn og lífeyri, ekki síst nú á allra síðustu árum eftir að innlánsvextir á venjulegum bankareikningum gufuðu upp og fyrirtæki á borð við Robinhood tóku að bjóða upp á hlutabréfamiðlun án umboðslauna. Aðeins lítið brot af þessu venjulega fólki er skráð á Reddit-vefinn eða tekur þátt í fjárhættuspilinu sem forkólfar hans fjarstýra. Ef verðgildi hlutabréfa á markaði lækkar til langframa (vegna þess að sjóðir verða að selja bréf til að bæta tap sitt og vegna almennrar upplausnar á markaðinum) þá kemur þetta alvarlega niður á venjulegu litlu fjárfestunum. Þeir verða fórnarlömb byltingar sem átti að vernda „litla manninn“. Fyrir þá sem fyllast nú Þórðargleði vegna þess tilflutnings fjármagns sem þegar hefur átt sér stað er siðferðilega kjarnaspurningin þessi: Hversu mikil áföll hjá saklausum þriðja aðila er maður tilbúinn að þola til þess að meintir vondir karlar fái makleg málagjöld?
Athugasemdir