Ólíkt síðustu forverum sínum hefur Katrín Jakobsdóttir virst allt í senn heiðarleg, alþýðleg, vingjarnleg, yfirveguð, sáttfús og auðmjúk í störfum sínum sem forsætisráðherra.
Þegar hugsað er til baka er í raun undantekning að hafa forsætisráðherra sem aldrei gerir lítið úr öðrum og misnotar ekki vald eða beitir óheiðarleika í eigin þágu.
Sáttastjórnmál Katrínar hafa hins vegar sett hana í erfiða stöðu og snúið mörgum kjarnakjósendum hennar frá henni.
Ein í sátt
Tilraun Katrínar til þess að mynda samstöðu stjórnmálaflokka um breytingar á stjórnarskrá – því ekki mætti breyta henni nema í flokkspólitískri sátt þrátt fyrir að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu lægju fyrir – hefur mistekist sem slík. Hún stendur eftir ein flokksformanna sem flutningsmaður frumvarps um margvíslegar, gagnlegar breytingar á úreltri stjórnarskrá sem stjórnmálamenn hafa ekki náð sátt um að breyta alla þessa áratugi.
„Ég átti nú kannski ekkert endilega von á að þessi mál, það er stjórnarskrárbreytingar, að það væri unnt að ná fullri samstöðu um þær,“ sagði hún í samtali við Ríkisútvarpið.
Árið 2019 sagðist hún hins vegar vonast til að hægt væri að gera breytingar á stjórnarskránni í sátt. Þá var hún farin að funda með öðrum flokksformönnum í því skyni að leggja fram sameiginlegt frumvarp. Það sem kom í ljós var að þrátt fyrir ákvæði í stjórnarsáttmála Vinstri grænna með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki um endurskoðun stjórnarskrárinnar, þótti Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, engin ástæða til heildarendurskoðunar stjórnarskrárinnar.
Valdhrokinn
Þegar Katrín Jakobsdóttir varð forsætisráðherra höfðum við haft tvo forsætisráðherra á undan henni, tiltölulega unga auðmenn með bakgrunn sem litaðist af óheilbrigðum tengslum stjórnmála og viðskipta. Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson beittu þeirri rótgrónu aðferð að gera lítið úr heilu hópunum, sérstaklega gagnrýnendum sínum, og ásökuðu þá um eins konar vitfirringu.
„Það þarf náttúrlega einhverja geðveiki til þess að sjá ekki hvað þetta er frábært land sem við búum á,“ sagði Bjarni í léttum spjallþætti um þá sem væru ósáttir við stöðuna á landinu. „Ég vorkenni fólki sem líður svona.“ Hann talaði niður til andstæðinga og bágstaddra, og gróf þannig skotgrafir í samfélaginu til að verja stöðu sína.
Bjarni talaði um að Píratar, sem á tímabili mældust með yfir 30% fylgi, væru varla alvörustjórnmálaflokkur. Þau sem hættu í ríkisstjórn með honum vegna leyndar og ættartengsla í uppreist æru-málinu „lögðust flöt eins og strá í vindi“.
Rétt eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem á fyrsta mánuði sínum sem forsætisráðherra árið 2013 fór inn í loftvarnabyrgið og kvartaði undan „fyrsta mánuði loftárása“, vegna umfjallana fjölmiðla, meðal annars um hvort hann og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins ætluðu að standa við kosningaloforð sín um að leyfa fólki að velja í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort aðildarviðræðum við Evrópusambandið yrði haldið áfram eða ekki. Meðráðherra hans ákvað síðan að skrifa bara sjálfur bréf um að viðræðunum væri slitið. Sigmundi misbauð sundurlyndið í samfélaginu. Honum fannst fólk ekki stýrast nægilega af róttækri rökhyggju.
„Að einhverju leyti skýrist þetta kannski á þessu rofi milli raunveruleika og skynjunar eða umfjöllunar,“ sagði hann um óánægju fólks.
Þegar Sigmundur sagði þetta vorið 2015 mældist stuðningur við ríkisstjórn hans og Bjarna rétt rúmlega 30% og minna en 9% studdu flokkinn hans sem hafði fengið 24% í kosningum þremur árum fyrr út á loforð um leiðréttingu húsnæðisskulda.
Sáttastjórnmálin
Katrín Jakobsdóttir kemur úr öðru umhverfi, býr í fjölbýlishúsi eins og Jóhanna Sigurðardóttir, kemur ekki af helstu auðættum Íslands, hótaði ekki tengdaforeldrum sínum málsókn til að fá fyrirframgreiddan arð, seldi ekki hlut sinn í banka eftir fund með bankastjóra sem þingmaður, seldi ekki, ásamt nánustu ættingjum, tugmilljónir og milljarða króna í sjóðum tengdum bönkunum dagana fyrir hrun, með annan fótinn í innherjaupplýsingum stjórnmálanna og hinn viðskiptanna.
Katrín virðist þvert á móti hafa lagt áherslu á að fylla upp í skotgrafirnar, eins og einhvers konar Votlendissjóður stjórnmálamenningarinnar. Katrín er and-trump, á tímum skautunar, pólunar, pólaríseringar og popúlisma. Þetta þýðir um leið að hún lagði brú yfir ána Hví?
Margir kjósendur Katrínar spurðu sig hvers vegna hún myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, beint í kjölfar uppreist æru-málsins. Enn færri hefðu trúað því að hún myndi sætta sig við að Sigríður Andersen yrði aftur dómsmálaráðherra eftir að hafa brotið lög og sett réttarkerfið í uppnám iðrunarlaust með handvali á, sumum tengdum, dómurum í Landsrétt. Hvað þá að verja hana vantrausti á Alþingi. Líklega sáu ekki margir kjósendur Vinstri grænna fyrir sér að undir forsæti Katrínar myndi Bjarni Benediktsson fara með söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka – banka sem hann og fjölskylda hans eiga svo ríka sögu með, sem losaði hann undan 50 milljóna króna kúluláni fyrir hrunið, sem hann seldi hlutabréfin sín í, ásamt föður sínum, eftir að hann, bjarniben@althingi.is, fundaði sem þingmaður með forstjóra bankans um stöðu hans, bankans sem fjölskyldan hans seldi fallandi sjóðina í dagana yfir yfirtöku ríkisins, á sama tíma og hann sat næturfundi um stöðuna, meðal annars faðir hans, sem sendi hálfan milljarð króna úr sjóðunum til Flórída dagana fyrir hrun, á meðan við hin vissum minna og vorum bundin við íslensku krónuna okkar.
Afleiðingin af sátt Katrínar við Sjálfstæðisflokkinn var að tveir þingmenn úr flokki Katrínar yfirgáfu hann. Önnur afleiðing var að fylgið tættist af flokknum hennar. Núna mælist Sósíalistaflokkurinn inni á þingi, valkostur til vinstri við VG.
Frekjukallastjórnmál
Þrátt fyrir að Katrín sé sáttastjórnmálamaður og hafi gert fórnir næst ekki sátt í sáttastjórninni hennar um að framfylgja lykilmálum í stjórnarsáttmála, eins og hálendisþjóðgarði og stuðningi við einkarekna fjölmiðla að norrænni fyrirmynd.
Þetta þarf ekki að vera áfellisdómur. Hluti af hennar stefnu er að efla Alþingi og það þýðir um leið að þingmenn þurfa að vera með sjálfræði en ekki undir flokksforræði.
Og það voru ekki stjórnmál Katrínar Jakobsdóttur sem felldu hálendisþjóðgarðinn, heldur gömlu frekukarlastjórnmálin. Forveri Katrínar í formannsstóli VG, Steingrímur J. Sigfússon, rauf hefðir Alþingis með því að halda ræðu sem forseti þingsins og útmálaði andstæðinga þjóðgarðsins – sem höfðu góðar og gildar eigin ástæður til að andmæla honum: „Örlítinn grenjandi minnihluta“. Katrín Jakobsdóttir hefði aldrei sagt þetta, því hún er klókari og hófstilltari stjórnmálamaður. Oft er rangur stuðningur áhrifaríkasta leiðin til að fella málstað.
Katrínu til varnar má segja að þótt hún hafi eftirlátið Sjálfstæðisflokknum að leggja ekki alvöruskatt á ríkasta fólkið, hafa verið gerðar skattkerfisbreytingar í þágu lágtekjufólks. Þótt takmarkaðar framfarir hafi orðið í umhverfis- og sjálfbærnimálum, eins og sást til dæmis á umfjöllun Stundarinnar um endurvinnslumál á Íslandi, verður að teljast róttækt að fá framkvæmdastjóra Landverndar sem umhverfisráðherra.
Er Katrín góður forsætisráðherra?
Til að meta hvort einhver sé góður forsætisráðherra þarf að skilgreina hlutverk forsætisráðherra. Er það að vera verkstjóri, verkefnastjóri, leiðtogi, límið, hetjan, samviska þjóðarinnar eða gerandinn? Er frumskyldan við flokkinn, þjóðina eða ríkisstjórnina?
Einn mælikvarðinn er viðhorf almennings. VG mælist núna með undir 12% fylgi, minna en helming fylgis Sjálfstæðisflokksins, eftir að hafa fengið tæp 17% í kosningunum 2017.
Ríkisstjórnin hennar er hins vegar ein sú vinsælasta. Eftir þrjú ár við völd styðja 58% ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar lifði ekki í ár og féll í 31% fylgi. Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar var rétt ófallin með 38% fylgi eftir sama tíma, þrátt fyrir góða stöðu efnahagsmála sem hann erfði án erfiðis.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var með 31% fylgi við lok kreppunnar vorið 2012, en hafði þó ólíkt núverandi ríkisstjórn verið með stórvægilegar kerfisumbætur og syndalista fyrri ríkisstjórnar á verkefnalistanum.
Stjórnin sem líkist ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur mest er sú sem varð alræmdust á síðari árum Íslandssögunnar.
Fjörbrot samræðustjórnmálanna
Katrín er ekki Jóhanna Sigurðardóttir, að því leyti að Jóhanna vildi láta verkin tala og tók slagina við aðra. Hún var óhrædd við að láta útgerðina heyra það og reyna að láta hana borga fyrir afnot af auðlindinni, innleiða stjórnarskrá í lýðræðislegu ferli og leyfa landsdómsmálinu gegn félögum sínum í ríkisstjórn ganga fram, en endaði á umsókn í Evrópusambandið án þjóðaratkvæðagreiðslu og fékk yfir sig þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-skuldir sem ríkisstjórn hennar vildi borga en almenningur átti ekki að borga. Verkefni Jóhönnu var mun viðameira, aðferðirnar beinskeyttari og andstaðan um leið. „Hvers vegna ekki bara að skila lyklunum nú þegar?“ sagði Bjarni Benediktsson við Jóhönnu á þingi árið 2012, líkt og hún væri leigjandi en hann eigandi.
Að vissu leyti minnir Katrín meira á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem tók upp vinsælasta stjórnarsamstarf Íslandssögunnar, þegar hún myndaði tveggja turna ríkisstjórn með Geir Haarde, í nafni samræðustjórnmála, með 83% stuðning almennings, stjórn sem byrjaði með kossi á kinn en endaði með því að slegið var á búsáhöld og bíl forsætisráðherrans.
Í samfélagi hóphugsunar, leyndarhyggju og hagsmunaárekstra voru ýttu samræðustjórnmál sátta og samstöðu undir hættuna árin 2007 til 2008. Vinsælasta ríkisstjórn sögunnar endaði með 26% fylgi á einu og hálfu ári.
Tími Katrínar
Bjarni Benediktsson þarf ekki að biðja Katrínu að skila lyklunum, enda er hann innandyra. Þar er hann sjálfur með lykilinn að peningaskápnum.
Hún situr núna ein eftir með stjórnarskrána í fanginu, með góðar og þarfar breytingar. En sátt hennar við lýðræðisrofið verður ósætti við stóran hluta kjósenda. Þau sem vilja vera viss um afgerandi breytingar vita núna að þeir þurfa að kjósa einhverja aðra en Vinstri græna.
Flokksformenn frá vinstri til hægri vita að það er auðvelt að vinna með Katrínu. Þannig getur hún sameinað stjórnmálin á Íslandi. En þeirri sátt fylgir að litlar breytingar verða gerðar. Því fylgja litlar breytingar. Kannski er þetta stífla frekar en brú. Um skilgreininguna verður aldrei sátt, því mikilvægið er misjafnt eftir hverjum og einum.
En hættan af því að vera allra er að verða einskis.
Athugasemdir