Skotið var á glugga á skrifstofum Samfylkingarinnar í nótt sem leið. Skotárásin er ekki einangrað tilvik heldur hefur áður verið skotið á húsnæði fleiri stjórnmálaflokka, síðustu mánuði og ár. Þannig var skotið á húsnæði Sjálfstæðisflokksins í Valhöll á og á húsnæði Viðreisnar á síðasta ári og árið 2019. Þá hefur Stundin heimildir fyrir því að stjórnmálafólki hafi verið uppálagt að fara varlega, nú eftir skotárásina á húsnæði Samfylkingarinnar. Þau skilaboð munu hafa komið frá lögreglunni.
Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir rannsókn málanna í nótt á frumstigi. Talið sé að málin öll séu tengd. „Það voru mál í fyrra, í Valhöll og hjá Viðreisn líka. Þetta er ekki ósvipað.“
Spurður hvort einhverjar vísbendingar liggi fyrir um hver eða hverjir kunni að hafa verið að verki í nótt neitar Jóhann Karl því. „Við vorum ekki með neinar vísbendingar í hinum málunum heldur, það er verið að skoða þetta. Þetta virðist vera eitthvað lítið vopn, loftriffill eða eitthvað af því tagi.“
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri segir í samtali við Stundina ekki geta staðfest hvort málin séu komin inn á borð hjá embættinu. „Ef þetta telst ógn gegn ríkisstjórninni eða þingmönnum kemur þetta inn á borð til okkar. Ef lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur, eftir að hafa hafið rannsókn, að þetta sé þannig vaxið þá gerir hún okkur viðvart. Ef þetta verður metið svo að þetta séu bara eignaspjöll sem beinist ekki að fólki sérstaklega mun Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fara með málið.“
Uppfært 14:45
Guðmundur Ómar Þráinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, segir að málið sé ekki komið inn á borð til ríkislögreglustjóra. „Embætti ríkislögreglustjóra ber ábyrgð á öryggi æðstu stjórnar ríkisins. Þetta kemur inn á borð hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Auðvitað fylgjumst við með en þetta svona tilfelli koma almennt ekki inn á borð hjá okkur. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki séð ástæðu til að vísa þessu til okkar svo ég viti.“
Jenný Guðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Viðreisnar, staðfestir að skotið hafi verið á húsnæði Viðreisnar oftar en einu sinni. „Ég hef verið framkvæmdastjóri Viðreisnar frá því í maí í fyrra og það hefur aldrei neitt komið fyrir á þeim tíma, þannig að manni var rosa brugðið við að sjá þetta. Það voru einhver tvö eða þrjú tilvik eins og þetta hjá okkur, fyrir minn tíma, sem að tekin var ákvörðun um að ræða ekki í smáatriðum til að spilla ekki rannsóknarhagsmunum. Það er það eina sem ég get sagt.“
Athugasemdir