Aðferðafræði valkvæðra PISA-kannana kemur í veg fyrir að Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) geti heimilað Íslandi að taka þátt. Þetta kemur fram í svari mennta- og menningarmálaráðuneytisins við fyrirspurn Stundarinnar.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra tilkynnti í febrúar 2018 að Ísland yrði með í valkvæðum hluta PISA-könnunarinnar sem snýr að fjármálalæsi 15 ára nemenda. Könnunin átti upphaflega að fara fram í ár, en var frestað vegna Covid-19 faraldursins þar til 2022. Verður hún því lögð fyrir 15 ára nemendur í 10. bekk grunnskóla á næsta ári og könnuð hæfni og geta í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði. Er hún haldin á þriggja ára fresti og nær til 80 þjóða.
„Fjármálalæsi er grunnfærni sem er mikilvæg samfélagi okkar,“ sagði Lilja þegar þetta var tilkynnt. „Ljóst er að gott fjármálalæsi skilar sér í betri ákvarðanatöku einstaklinga í fjármálum og stuðlar að fjármálastöðugleika. Ég tel brýnt að íslensk ungmenni taki þátt í fjármálalæsi í PISA-könnuninni og því hefur þessi ákvörðun verið tekin.“
Nú er hins vegar komið í ljós að beiðni Íslands um að vera með í valkvæðri könnun á fjármálalæsi nemenda hefur verið hafnað og í raun þátttöku Íslands í öllum valkvæðum PISA-könnunum. „Það var hins vegar mat Efnahags- og framfarastofnunarinnar að vegna aðferðafræði prófanna uppfyllti Ísland ekki kröfu um lágmarksfjölda nemenda,“ segir í svari mennta- og menningarmálaráðuneytisins. „Þetta á einnig við um aðrar valkvæðar kannanir í PISA sem krefjast viðbótarúrtaks nemenda. Leitað verður leiða eftir fremsta megni til þess að efla fræðslu í fjármálalæsi og námsmati því tengdu.“
Kennsla mikið til í höndum bankamanna
Frá hruni fjármálakerfisins haustið 2008 hafa starfshópar og nefndir á vegum stjórnvalda ítrekað hvatt til þess að fjármálalæsi almennings verði eflt með stuðningi hins opinbera. Málaflokkurinn var settur í aðalnámskrá grunn- og framhaldsskóla árið 2011 í tíð Katrínar Jakobsdóttur sem mennta- og menningarmálaráðherra.
Í greinargerð með fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2019–2023 var sagt að fjárhagsvandi ungs fólks, meðal annars tekjulágra einstaklinga á leigumarkaði, benti til þess að þörf væri á eflingu fjármálalæsis og aukinni fjármálafræðslu í grunn- og framhaldsskólum landsins. Orðalagið vakti hörð viðbrögð á vettvangi stjórnmálanna og verkalýðsfélaga. „Ljóst er að lélegt fjármálalæsi hjá almenningi er ákveðin áskorun þar sem aukin hætta er á að fólk lendi í fjárhagslegum erfiðleikum,“ sagði í greinargerðinni.
„Ljóst er að lélegt fjármálalæsi hjá almenningi er ákveðin áskorun“
Í umfjöllun Stundarinnar hefur komið fram að námsefni og kennsla í fjármálalæsi á grunnskólastigi hefur mikið til verið í höndum starfsmanna fjármálafyrirtækja. Á hverju ári fær um helmingur grunnskóla landsins heimsóknir þar sem þeir kenna nemendum í 10. bekk um fjármálalæsi á vegum verkefnisins Fjármálavits, sem er í eigu fjármálafyrirtækja og lífeyrissjóða. Stundin hefur einnig greint frá því að Fjármálavit hafi greitt laun dagskrárgerðarmanna hjá RÚV Núll vegna þátta fyrir ungt fólk um fjármál þar sem starfsmenn banka veittu ráðleggingar án þess að vera titlaðir sem slíkir.
Athugasemdir