Lyfjastofnun hafa borist 57 tilkynningar um grun um aukaverkanir í kjölfar bólusetningar við Covid-19. Af þeim eru sjö alvarlegar og þar af hefur verið tilkynnt um sex andlát. Í öllum sjö tilvikunum er um að ræða aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma og langvinn veikindi, og ekkert hefur komið fram um tengsl milli bólusetningarinnar og atvikanna. Rannsókn embættis landlæknis á umræddum atvikum stendur enn yfir en vonast er til að stutt sé í niðurstöðu, jafnvel undir lok þessarar viku.
Þetta kemur fram í svari embættis landlæknis við fyrirspurn Stundarinnar. Rannsóknin á aukaverkunum vegna bólusetninga var hafin 5. janúar, eftir að embætti Landlæknis höfðu borist fimm tilkynningar um alvarlegar aukaverkanir, þar af fjögur andlát, sem hugsanlega kynnu að tengjast bólusetningum með Comirnaty bóluefni Pfizer og BioNTech lyfjafyrirtækjana. Ekkert hafði komið fram um að beint orsakasamband væri milli bólusetninganna og þessara alvarlegu atvika en í öllum tilvikum var um að ræða aldraða sjúklinga með undirliggjandi sjúkdóma. Engu að síður ákváðu landlæknir, sóttvarnarlæknir og forstjóri Lyfjastofnunar í sameiningu að láta hefja rannsókn til að meta hverjar líkurna séu á tengslum þar á milli.
Hefur ekki áhrif á bólusetningar með bóluefni Moderna
Í tilkynningu frá landlæknisembættinu var tilgreint að stefnt væri að því að frumniðurstöður myndu liggja fyrir eftir viku til tíu daga. Var lögð áhersla á að hraða rannsókninni til að niðurstöður lægju fyrir áður en gefa ætti fólki síðari skammt af bóluefninu, og jafnframt að skoðað yrði hvort breyta þyrfti nálgun á bólusetningum eldri einstaklinga.
Samkvæmt upplýsingum frá landlæknisembættinum hefur yfirstandandi rannsókn ekki nein áhrif á bólusetningar fólks með bóluefni frá lyfjafyrirtækinu Moderna, sem barst hingað til lands í morgun.
Rannsókn á Landakoti enn í gangi
Þá er rannsókn landlæknisembættisins á hópsmiti sem kom upp á Landakoti á í október á síðasta ári enn í gangi og ekki er hægt að gefa upp hvenær henni mun ljúka samkvæmt upplýsingum frá embættinu. Umræddar tvær rannsóknir, tengdar Covid-19 faraldrinum, eru umfangsmiklar og sagðar í miklum forgangi.
Athugasemdir