Ég gæti lifað á tartalettum! hugsaði ég þar sem ég sat makindalega í stofusófanum og horfði á Áramótaskaupið í annað sinn. Í þessari ágætu tartalettu var steiktur rauðlaukur og sveppir hrært saman við rjómaost, skvettu af rjóma, handahófskenndu samblandi af kryddi, skinku og aspas. Eiginlega mætti kalla þessa blöndu brauðrétt í tartalettu og það hljómar skothelt!
Ef marka má þessa skilyrðislausu ást mína á tartalettum er svolítið skondið að segja frá því að í raun kaupi ég þær mjög sjaldan. Eiginlega aldrei nema í desember, en tartalettur eiga einmitt sérdeilis vel við nú í janúar líka. Þær eru nefnilega tilvaldar til að fylla með öllum þeim afgöngum sem kunna að leynast í ísskápnum. Svo eru þær líka dálítið sparilegar þannig að maður getur nartað í góða tartalettu og hangið dálítið lengur á matarhátíðinni miklu sem jólin eru. Þó auðvitað í mun minna og jafnvel hollara mæli, svona ef ég nenni. …
Athugasemdir