Lyfjastofnun hefur borist 31 tilkynning um aukaverkanir eftir bólusetningu við Covid-19. Fimm tilkynningar eru um alvarleg atvik, þar af fjögur dauðsföll. Í öllum fimm tilvikunum er um að ræða aldraða einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma og langvinn veikindi. Ekki liggja fyrir augljós tengsl milli aukaverkananna og bólusetningarinnar vegna undirliggjandi sjúkdóma þeirra sem um ræðir.
Í 26 tilvikum var ekki um alvarlegar aukaverkanir að ræða heldur hefðbundnar aukaverkanir af bólusetningum, svo sem eymsl á stungustað, höfuðverki, svima, þreytu, ógleði eða slappleika. Þær aukaverkanir eru í samræmi við upplýsingar á fylgiseðli bóluefnisins Comirnaty frá Pfizer og BioNTech. Tíðni aukaverkana er svipuð og upplýsingar frá lyfjaframleiðendunum benda til. Ekki eru til staðar samanburðartölur um tíðni aukaverkana í nágrannalöndunum að svo komnu máli. Flestar tilkynningar varða framlínustarfsmenn sem fengið hafa bólusetningu.
„Lyfjastofnun telur mikilvægt að árétta að tilkynnt aukaverkun segir ekkert til um orsakasamhengi“
Alvarleg aukaverkun er aukaverkun eða óæskileg áhrif lyfs sem leiðir til dauða, lífshættulegs ástands, sjúkrahúsvistar eða lengingar á sjúkrahúsvist, veldur fötlun eða fæðingargalla hjá mönnum.
Ekki hafa borist neinar tilkynningar um aukaverkanir að svo komnu máli sem gefa tilefni til að endurskoða hverjir fá bólusetningu samkvæmt svörum Lyfjastofnunar. „Lyfjastofnun telur mikilvægt að árétta að tilkynnt aukaverkun segir ekkert til um orsakasamhengi, bara að tengsl séu milli bólusetningar og tiltekins atviks í tíma. Hafa verður í huga að í þessari umferð bólusetninga var verið að bólusetja okkar veikustu og elstu einstaklinga. Gagnsemi nákvæmrar skráningar er fyrst og fremst til að geta fundið merki um mynstur mögulegra aukaverkana sem kann að tengjast bólusetningunni.“
Athugasemdir