Sturtulögmálið (e. shower principle) er lögmál sem ég kynntist í gegnum hinn frábæra miðil sjónvarp. Ég geri hér ráð fyrir að það sé fyrir flestum óumdeilanleg staðreynd að 30 Rock er best skrifaða sjónvarpsefni fyrr og síðar.
Sturtulögmálið kemur fram í 117. þætti þar sem hinn glæsilegi Jack Donaghy (Alec Baldwin) sem er svona djöflasýrukapítalisti, nema með samkennd, gerir hvað sem hann getur til þess að dreifa huganum frá viðskiptagjörningi sem er á leiðinni í vaskinn. Jack skilgreinir sturtulögmálið sem “moments of inspiration that occur when the brain is distracted from the problem at hand–for example, when you’re showering”, eða „Augnablik innblásturs sem eiga sér stað þegar heilinn er ekki með athygli á vandamálinu sem hann stendur frammi fyrir, til dæmis, þegar maður er í sturtu.“
Ég velti því fyrir mér hvað hefði staðið upp úr á árinu? Fyrst kom svar um hverfulleika lífsins, óbærilega angist hversdagsleikans og hversu mikið ég hef misst á árinu. Það er eflaust öllum orðið ljóst að lífið er brigðult eins og veðráttan okkar og árstíðirnar.
En svo fór ég í sturtu og orðin sem tengdust bæði sammannlegri angist okkar jarðarbúa og sársauka mínum, þessum persónulega missi á árinu, skoluðust af mér með hinu eina sanna sturtulögmáli og ég horfði á eftir þeim hverfa í niðurfallið ásamt hárlokkunum mínum sem tóku einnig upp á því að hverfa af höfði mínu á árinu sem er að líða. Flokkað undir: missir.
Svo þurrkaði ég mér með hvíta stóra handklæðinu og fann hvernig mjaðmabeinin sköguðu út undir því þar sem ég hef glatað 14 kílógrömmum af líkama mínum á árinu. Flokkað undir: missir. Ég horfði í spegil, á beinaberu og horuðu konuna með þunna hárið, kinnfiskasogna, með hryggan alabasturslit. Nær óþekkjanleg. Flokkað undir: fundin aftur, aldrei týnd, tók þó þátt í leitinni að sjálfri sér.
Það er nefnilega nokkuð sem stendur upp úr á árinu. Og það er ég. Og það ert þú. Það erum við. Árið mitt var fullt af persónulegri sorg, áföllum og spennu hvar sem ég leit, en einhvern veginn náði ég að djöflast í gegnum það. Ekki eins og oftast með hnúunum sem verða stundum blóðrisa eftir stritið, né heldur í aftengdum líkama og hug, sálin búin að kúpla sig frá sem hefur ekki annað bjargráð að grípa til.
Í staðinn djöflaðist ég í gegnum daga, klukkustundir og mínútur ... heil. Með alvöru þolgæðum sem ég á skuldlaust, alein, og enginn getur svipt mig þolgæðunum. Það er góð tilfinning sem fylgir þeirri uppgötvun að þetta allt, öll þessi ár þar sem maður rétt náði að halda höfði svamlandi, skili sér til mín í þolgæðum.
Ég lærði það á árinu að maður getur ekki gert það sem mann dreymir um að gera fyrr en maður veit hvað mann dreymir. Og þannig fór árið alls kostar óvart í að finna sjálfa mig, sem var aldrei týnd, svo ég geti verið til staðar fyrir fólkið mitt. Það mikilvægasta sem ég á, fjölskyldan mín. Ég var konan sem tók þátt í leitinni að sjálfri sér.
Þetta hefur verið ár hins öfgafulla jafnvægis, um leið og ég glataði einhverju þá eignaðist ég annað í staðinn jafnóðum. Ég upplifði sáran missi, svona missi sem framleiðir tár á stærð við körfubolta og læsir röddina inni í hálsstöðinni, en ég eignaðist svo Hönnu Lillý, rauðhærðu systurdóttur mína, sem er það fegursta sem ég hef litið augum síðan ég eignaðist einkason minn fyrir tæpum 13 árum.
Ég missti helminginn af hárinu en hef fengið að sjá Covid-lubba mannsins míns spretta sem aldrei fyrr. Ég hélt þó stundum að ég myndi ekki lifa þetta ár af, að ég myndi hverfa og veslast upp fyrir árslok. En nú sit ég fyrir framan tölvuna, hvíta stóra handklæðið löngu orðið þurrt, og finn að ég er komin aftur úr jaðri þeytivindunnar inn í miðju hennar, þar sem ég get horft í kringum mig og haft yfirsýn yfir heiminn vinda sig.
Það er til ákveðin sönn gleði sem er hægt að finna þegar áramótum er fagnað, gleðina við að vera hér á jörðinni. Ég hef ekki alltaf vitað af þeim forréttindum. Enn þá betra er að finna þau forréttindi gleðinnar að vera lifandi OG heilsuhraust á áramótum. Minni vinnu, sem lýkur aldrei, er að sameina þessar tilfinningar, að gleðjast yfir að vera lifandi, og vita að það er gleði sem fylgir því að vera hér, enn ein áramótin í viðbót.
Þú, ég, við. Við gerum þetta saman og það getur enginn svipt ykkur þolgæðum. Þið eruð það sem stendur upp úr á árinu. Án ykkar, okkar, þið, við ég og þú, vildi ég alls ekki vera. Takk fyrir þolgæðin á árinu.
Athugasemdir