Anna Þórunn Hauksdóttir, vöruhönnuðurog eigandihönnunarfyrirtækisins ANNA THORUNN
Hamingja fyrir mér er að hafa innri frið, elska sjálfa mig og fólkið mitt.
Hamingjunni má líkja við tónstiga sem hefur bæði háa og lága tóna en að velja að lifa skemmtilegu og innihaldsríku lífi er ákvörðun og ekki síður æfing.
Hversdagslífið veitir mér mikla hamingju þar sem ég fæ að upplifa að vinna við það sem ég elska en það er að hanna. Ég er meðvituð um að njóta litlu hlutina í hversdagsleikanum sem eru svo sjálfsagðir en verða svo mikilvægir þegar eitthvað bjátar á. Hamingjan er að hafa góða heilsu og geta hreyft mig, fá að þroskast og eflast í því sem ég brenn fyrir ásamt því að eiga lífsförunaut sem er minn besti vinur gefur mér staðfestu og innri hamingju. Innihaldsrík samtöl og að vera til staðar fyrir aðra er hluti af minni hamingju. Þegar ég dvel í þakklæti þá finn ég sanna hamingju og það besta er að það er alveg ókeypis, rétt eins og fallegt bros út í heiminn.
Ari Trausti Guðmundsson alþingismaður
Hamingjan er hugarástand sem helgast af stund og stað, fólki og manns eigin líðan.
Hamingjan getur verið langæ eða skammvinn.
Fyrir henni er engin uppskrift, á henni enginn skýranlegur mælikvarði og til hennar aðeins persónuleg viðmið.
Þess vegna kemst ég ekki nær en þetta til svars við spurningunni.
Hendrikka Waage skartgripahönnuður
Hamingjan fyrir mér er að vera sáttur í eigin skinni. Við getum einnig sagt að hamingjan sé hugarfar. Mér finnst einnig mjög mikilvægt að finna ástríðu sína og vinna við hana því hún veitir manni bæði hamingju og gleði. Hamingjan er tilfinning sem kemur þegar maður hefur fullnægt þörfum sínum. Það gefur manni einhverja sérstaka innri fyllingu. Við þurfum heldur ekki alltaf að vera á þeytingi. Að vera með sjálfum sér í þögninni er æðislegt og getur gefið manni hamingju. Það veitir manni hamingju að vera kærleiksríkur og gefa af sér og aðstoða aðra.
Lilja Sigurðardóttir rithöfundur
Ég er oft mjög glöð og það er margt sem veitir mér gleði og þá helst fólkið í lífi mínu og dýrin í lífi mínu. Ég er líka oftast mjög glöð með vinnuna mína, ég hef innilega gaman af því að skrifa og finnst líka fremur gaman að kynna bækurnar mínar, bæði hér heima og erlendis. En það sem ég held að hamingjan sé er þegar ég er í tærustum tengslum við sjálfa mig og það er oft úti í náttúrunni, einhvers staðar í nálægð við vatn eða tré eða hund og finn einhverja rósemd fylla hjartað. Svo ég held að hamingjan sé fremur fíngerð og hæglát tilfinning sem lætur oft lítið yfir sér, svo lítið að maður tekur ekki alltaf eftir henni.
Steinunn Birna Ragnarsdóttir óperustjóri
Hamingjan er heimatilbúin í réttum hlutföllum við hvernig unnið er úr áskorunum og hvernig til tekst að láta gott af sér leiða. Hún getur birst í ógleymanlegum augnablikum tengdum ástinni, listum eða náttúrufegurð, en ef hún á að vera ferðafélagi til lengri tíma þarf maður að vanda sig við eiginlega allt sem maður gerir, bæði stórt og smátt. Hamingjan er ásetningur og tenging við tilganginn eins og hver og einn skilgreinir hann og að missa ekki sjónar af honum þótt á móti blási. Að vera heilsteyptur með mennskuna að leiðarljósi, rækta með sér þakklæti og skapa sér tilefni til þess að hlakka til. Það er hamingjan.
Athugasemdir