***
Aukaspurningar.
Myndin hér að ofan sýnir gröf bandaríska tónlistarmannsins Jim Morrison, söngvara The Doors. Þetta er ein „vinsælasta“ gröf nokkurs tónlistarmanns í heimi. Í hvaða borg er þessi gröf?
***
Aðalspurningar:
1. Í hvaða litla Evrópuríki er höfuðborgin Vaduz?
2. Rómarkeisarinn Gaius Caesar Augustus Germanicus er langþekktastur eða alræmdastur undir viðurnefni sínu. Það var reyndar frekar sakleysislegt og ókeisaralegt. Hvað er sá slöttólfur kallaður?
3. Solanum tuberosum er latneskt fræðiheiti á fjölærri jurt af náttskuggaætt, sem er gríðarlega mikið ræktuð, einkum til að nálgast „sterkjurík hnýði á neðanjarðarrenglum“, eins og það er orðað á íslensku Wikipedia. Hvað kallast Solanum tuberosum á okkar ylhýra máli?
4. Hvar er eyjan Gunna? Hér þarf nokkra nákvæmni til.
5. Saab hét bílaframleiðandi sem starfaði frá 1945 og þangað til fyrirtækið fór á hausinn upp úr 2010. Frá hvaða landi kom Saab?
6. Hvað heitir nesið milli Breiðafjarðar og Faxaflóa?
7. Hvern drap Lee Harvey Oswald eftir því sem best er vitað?
8. En hvern drap Jack nokkur Ruby?
9. Tveir skólar í Reykjavík eru kenndir við þær Eddu Scheving og Sigríði Ármann. Hvað er kennt í þessum skólum?
10. Hvað hét fyrsti landlæknir á Íslandi?
***
Síðari aukaspurning.
Hér að neðan má sjá áströlsku leikkonuna Elizabeth Dibecki. Hún fór með miðlungs hlutverk í kvikmynd Baltasars Kormáks, Everest, fyrir nokkrum árum. Hægt og bítandi hefur hún verið að feta sig upp á stjörnuhimininn en á næsta ári mun frægð hennar taka langstökk fram á við. Hvers vegna?

***
Svör við aðalspurningum:
1. Liechtenstein.
2. Caligula sem þýðir „litla stígvél“ eða eitthvað álíka.
3. Kartöflur.
4. Út af Skotlandsströndum. Gunna telst vera ein Suðureyja, en Skotland dugar. Bretland er aftur á móti ekki nógu nákvæmt svar.
5. Svíþjóð.
6. Snæfellsnes.
7. John F. Kennedy Bandaríkjaforseta.
8. Lee Harvey Oswald.
9. Ballett.
10. Bjarni Pálsson.
***
Svör við aukaspurningum.
Svar við þeirri fyrri: París.
Svar við þeirri seinni: Hún mun leika Díönu prinsessu í 5. hluta sjónvarpsseríunnar The Crown.
***
Athugasemdir