Ég man eftir því þegar ég sótti fótboltaleik í Bretlandi í fyrsta skipti. Ég man lítið eftir leiknum, sem fór fram í risastórri íþróttahöll. Aftur á móti er mér greypt í minni undrunin, þegar ég sá hvernig áhorfendurnir urðu að einhvers konar öldugangi sem reis, hvernig orkan, sem beindist öll að smáum bolta, varð magnþrungin.
Við vinkonurnar sátum í sófa, þrettán ára að horfa á Friends. Pabbi einnar þeirra stakk höfðinu inn þegar við hlæjum í takt við sjónvarpið og segir: „Þau eru sum kannski dáin, þið vitið að raddirnar eru spilaðar af upptöku.“
Nú standa leikhúsin og tónleikasalirnir tómir, hljóðmaður fylgist með kappleikjum og ákveður hvenær æstir áhorfendur öskra. Við sitjum fyrir framan skjái og fylgjumst með nafnavígslum og fréttum. Öll hvert í sínu hólfinu, til að vinna í sameiningu að því að lægja bylgjuna sem nú dynur á.
En við höfum að miklu leyti verið ein mun lengur. Lífshættir undanfarinna áratuga hafa leitt til þess að þó verið sé að byggja sífellt fleiri brýr á milli fólks þá er um leið verið að sundra okkur með því að setja hvert okkar í sitt box.
Smátt undur gerist þegar við verðum samtímis fyrir sömu upplifun — við föllum eins og til baka í hjarðdýrið innra með okkur. Hjarðdýr sem tengir og endurnærir.
Rýnum aðeins í þetta orð: Sam-félag. • samvist, samvera. • Stærri eða smærri hópur manna sem lifa saman (samtímis, á sama stað).
Við finnum að mesti söknuðurinn beinist ekki að neinu efnislegu heldur að samverunni og nándinni. Við fyllumst auðmýkt gagnvart því að fá aftur að sitja saman í myrkvuðum leikhússal, hrópa af áhorfendapöllunum og halda í hendur ættingja. Hinum megin við þetta risastóra fjall lofum við því að gleyma ekki því sem er okkur kærast: Fögnuðinum sem það er að fá að vera saman, á sama tíma, á sama stað.
Athugasemdir