„Mamma hefur verið inniliggjandi á Landspítalanum síðan í byrjun júlí og fór á Landakot í endurhæfingu um miðjan ágúst að bíða eftir hjúkrunarheimili því það er ljóst að hún getur ekki búið ein lengur,“ segir Ólafía Sólveig Einarsdóttir, en móðir hennar smitaðist að öllum líkindum af Covid-19 á Landakoti. „Hún missti sjónina í vor vegna æxlis í heila sem hún þurfti svo að fara í aðgerð vegna og batinn reyndist erfiðari en við bjuggumst við, enda er hún orðin 79 ára.“
Ólafía er heilbrigðisstarfsmaður og segir að vel hafi verið hugsað um móður sína á Landakoti og móður hennar hafi liðið vel þar. „Síðan kemur upp sú staða í október að það á að fara að losa um á spítalanum vegna COVID og henni er boðið pláss á Reykjalundi. Fyrst fannst mér það frábært að hún færi þangað til að fá endurhæfingu. Hún fór þangað þriðjudaginn 20. október.“
Á Reykjalundi eru sóttvarnarhólf sem starfsmenn máttu ekki fara á milli og því bauðst móður Ólafíu engin þjálfun þegar þangað var komið. „Það kemur líka í ljós að það er heimsóknabann og ég hafði ekki fengið að hitta hana á Landakoti heldur í viku,“ segir hún. „Ég fékk að heimsækja hana á fimmtudeginum og við áttum góða stund saman.“
Tvísýnt um hvernig færi
Í kjölfarið kom í ljós að smit var komið upp á Reykjalundi. „En mér finnst langlíklegast að hún hafi verið orðin smituð á Landakoti því á laugardeginum kom í ljós að hún væri smituð og var flutt á smitsjúkdómadeild. Hún er á batavegi núna en þetta var mjög tvísýnt í síðustu viku,“ segir Ólafía. Málið hafi því lagst þungt á fjölskylduna. „Hún er búin að ganga í gegnum mikið á þessu ári og bjó ein og var keyrandi í byrjun árs,“ segir Ólafía. „Hún er búin að berjast eins og ljón til að ná upp færni og ákveðin í að standa sig. Það er engin uppgjöf í henni. Þegar þetta gerðist þá varð hún svo sár. Allt þetta fólk sem átti að vera í skjóli og vernda.“
„Hún er búin að berjast eins og ljón“
Hún segir að hverfa þurfi frá láglaunastefnu og veita peninga til að ráða heilbrigðisstarfsfólk og fullnægjandi húsnæði svo hægt sé að búa öldruðum hæglátt ævikvöld. Móðir hennar hafi þurft að fara á milli stofnana og litlar upplýsingar hafi fengist. „Í umræðunni er talað um að þetta sé bara gamla fólkið og það stingur í hjartað. Gamalt fólk vill líka lifa sínu lífi. Þó að þú sért orðin gamall þá viltu ekki vera afskrifaður.“
Fjölskyldan sé mjög náin móður hennar sem veiktist alvarlega. „Við horfðumst í augu við dauðann með henni.“
Að mati Ólafíu er mikilvægt að rannsaka hvað gerðist á Landakoti. Sjálf hefur hún ekkert heyrt frá forsvarsmönnum spítalans. Hún vill þó ekki beina sjónum að starfsfólkinu því ábyrgðin liggur ofar, hópsmitið sé áfallisdómur yfir því hvernig staðið er að öldrunarmálum hér á landi. „Það þykir í lagi að aldraðir kúldrist saman í rými sem ekki er hægt að hólfa niður og hættan er meiri. Þetta var tímasprengja,“ segir hún.
„Það átti að vernda gamla fólkið með heimsóknartakmörkunum og allir voru að passa sig rosalega vel þegar veiran læðist inn bakdyramegin, þá er þröngt um fólk í sama rými, það er ekki nægt starfsfólk og starfsfólkið er að fara á milli deilda sem verður til þess að smitið dreifist enn meira. Þetta er harmleikur.“
Athugasemdir