Fylgi við Vinstri græn mælist nú 7.5 prósent í nýrri könnun MMR og hefur flokkurinn ekki mælst með jafn lágt fylgi áður á kjörtímabilinu í könnunum MMR. Í síðustu könnun, 26. október, mældist fylgi við Vinstri græn 8,3 prósent. Flokkurinn hefur tapað vel yfir helmingi af kjörfylgi sínu frá síðust kosningum, en þá fengu Vinstri græn 16,9 prósent atkvæða.
Flokkurinn hefur raunar aðeins einu sinni mælst með minni stuðning á undanförnum áratug, 14. apríl 2013, skömmu fyrir Alþingiskosningar, þegar fylgi við Vinstri græn mældist 6,7 prósent í einni könnun. Flokkurinn hlaut 10,9 prósent atkvæða í kosningunum 27. apríl það ár.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins eykst markvert milli kannana en stuðningur við flokkinn nú er 25 prósent og mælist hann með mest fylgi flokka á landinu. Það er því sem næst sama fylgi og flokkurinn hlaut í kosningunum 2017. Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 21,9 prósent fylgi í könnun MMR í síðasta mánuði.
Samfylkingin eykur við sig fylgi milli kannana, þó ekki þannig að um tölfræðilega marktæka aukningu sé að ræða. Fylgi við flokkinn mælist nú 16,7 prósent en var 15,2 prósent í síðustu könnun. Flokkurinn nýtur næstmests stuðnings flokka á Alþingi.
Píratar mælast lítið eitt hærri en í síðustu könnun, þó innan vikmarka. 14,3 prósent aðspurðra segjast styðja Pírata, borið saman við 13,5 prósent í síðasta mánuði. Framsóknarflokkurinn mælist með því sem næst sama stuðning og í síðustu könnun, 9,9 prósent nú borið saman við 10,2 prósent síðast.
Miðflokkurinn mælist nú með 9,1 prósenta fylgi en mældist síðast með 11,6 prósent. Það er tölfræðilega marktækur munur. Í frétt MMR um könnunina nú kemur fram að þegar gögn séu skoðuð veki athygli að stuðningur við Sjálfstæðisflokk sveiflist í gagnstæða átt við fylgi Miðflokksins. Bendi það til að barátta standi flokkanna á milli um sama kjósendahóp.
Fylgi við Viðreisn dalar lítillega milli kannana, þó innan vikmarka, en flokkurinn mælist nú með 8,4 prósenta fylgi en mældist síðast með 9,7 prósenta stuðning. Sósíalistaflokkurinn nýtur stuðnings 4 prósenta aðspurðra borið saman við 4,6 prósent í síðustu könnun. Ekki er um tölfræðilega marktækan mun að ræða milli kannana. Þá mælist Flokkur fólksins með 3,9 prósenta fylgi, nálega hið sama og síðast þegar flokkurinn mældist með 3,8 prósenta fylgi. Stuðningur við aðra er samanlagt 1,1 prósent.
Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 51,7 prósent, rúmu prósentustigi meira en í síðustu könnun þegar stuðningurinn mældist 50,3 prósent.
925 manns yfir 18 ára svöruðu könnuninni sem gerð var dagana 6. til 11. nóvember. 81,8 prósent gáfu upp afstöðu sína til flokka, 6 prósent sögðust óákveðnir, 4,5 prósent kváðust myndu skila auðu, 2,1 prósent sögðu að þau myndu ekki mæta á kjörstað og 5,5 prósent vildu ekki gefa upp afstöðu sína.
Athugasemdir