Laxeldisfyrirtækið Arctic Fish á Ísafirði hyggst skrá hlutabréf sín á hlutabréfamarkað í Noregi á næstunni. Félagið er í 50 prósent eigu norska laxeldisrisans Norway Royal Salmon (NRS) sem er skráð á aðalahlutabréfamarkaðinn í Noregi. Deild innan norski bankans DNB sem heitir DNB Markets, verðbréfafyrirtækið Pareto Securities og íslenski bankinn Arion eru ráðgjafar Arctic Fish við skoðun á hugmyndinni að skráningunni. Þetta kemur fram í tilkynningu til norska hlutabréfamarkaðarins. Stefnt er að því að skráningin á hlutabréfamarkaðinn í Noregi, Merkur-markaðinn svokallaða sem er ekki aðal hlutabréfamarkaðurinn, eigi sér stað á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
Forstjóri Norway Royal Salmon, Charles Høstlund, segir í í tilkynningunni að fyrirtækið hafi mikla trú á Arctic Fish. „NRS hefur mikla trú á fjárfestingu okkar í íslensku laxeldi, í gegnum Arctic Fish sem við eigum 50 prósent í. Við viljum taka næsta skref með þessu félagi og höfum þess vegna fengið fjárhagslega ráðgjafa til að skoða mögulega skráningu á Arctic Fish á Merkur-markaðinn. Möguleg afleiðing af þessu er að NRS muni auka við eignarhlut sinn í Arctic Fish.“
Ef af skráningunni verður mun Arctic Fish fylgja í spor Arnarlax á Bíldudal sem einnig er skráð á Merkur-markaðinn.
NRS ætlar ekki að selja
Í markaðstilkynningunni kemur fram að NRS muni ekki selja hlutabréfin sem félagið á í Arctic Fish með hlutabréfaskráningunni. Norway Royal Salmon er því ekki að leitast við að selja sig út úr Arctic Fish heldur þvert á móti.
Í tilkynningunni kemur fram að félagið Arctic Fish sé með leyfi til að framleiða 11.800 tonn af eldislaxi og sé með leyfisumsóknir fyrir 21.100 tonnum til viðbótar. Arctic Fish gæti því tæplega þrefaldað framleiðslu sína ef félagið fær þau leyfi sem félagið er með umsóknir um að fá.
Þetta er tekið fram í tilkynningunni vegna þess að helstu eignir laxeldissfyrirtækja eru framleiðslukvótarnir í laxeldi sem fyrirtækið ræður yfir. Þá eru laxeldiskvótar sem fyrirtæki eru með í umsóknarferli líka mikilvægir þegar leitast er eftir því að selja hlutabréf í félaginu. Fjárfestar sjá því að framleiðsla Arctic Fish getur þrefaldast og er hægt að framreikna verðmæti þessara framleiðslukvóta.
Eitt af fyrirtækjunum sem var hyglað
Arctic Fish er eitt af þeim laxeldisfyrirtækjum sem nutu góðs af því sumarið 2019 þegar skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu lét fresta birtingu og þar með gildistöku nýrra laga um fiskeldi til að þrjú laxeldisfyrirtæki gætu skilað inn gögnum til Skipulagsstofnunar fyrir gildistöku laganna.
Í tilfelli Arctic Fish snerust gögnin um 8.000 tonna laxeldi í Ísafjarðardjúpi sem verið hefur umdeilt.
Athugasemdir