Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist tæpum fjórum prósentustigum lægra nú en það mældist í síðasta mánuði, samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR. Fylgi við Vinstri græn stendur því sem næst í stað en Framsóknarflokkurinn mælist með tæplega tveggja prósentustiga hærri stuðning en nú en var í síðustu könnun fyrirtækisins, 23. september síðastliðinn. Breyting á fylgi Sjálfstæðisflokksins er tölfræðilega marktæk en ekki er marktæk breyting á fylgi Framsóknarflokksins.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist eftir sem áður með mest fylgi flokka á landinu, 21,9 prósent. Í síðustu könnun MMR mældist fylgi við flokkinn 25,6 prósent. Samfylkingin mælist næst stærsti flokkur landsins, með 15,2 prósenta stuðning, og eykur við sig fylgi en flokkurinn mældist með 12,8 prósenta stuðning í síðasta mánuði. Fylgisbreytingin er þó innan skekkjumarka.
Píratar njóta samkvæmt könnuninni stuðnings 13,5 prósenta kjósenda sem er 1,5 prósentustigum lægra en í fyrri mánuði og er sú breyting ekki marktækt tölfræðilega. Miðflokkurinn bætir lítillega við sig, 0,8 prósentustigum, og mælist nú með 11,6 prósenta fylgi borið saman við 10,8 prósent síðast. Framsóknarflokkurinn bætir sem fyrr segir við sig, mælist nú með 10,2 prósenta stuðning en mældist síðast með 8,3 prósenta stuðning. Í báðum tilfellum er fylgisbreytingin innan marka.
Stuðningur við Viðreisn er því sem næst óbreyttur, flokkurinn mælist nú með 9,7 prósenta stuðning en mældist síðast með 9,4 prósenta stuðning. Hið sama má segja um Vinstri græn, óveruleg breyting er á fylgi við flokkinn, nú mælist flokkurinn með 8,3 prósenta stuðning en mældist síðast með 8,5 prósenta stuðning. Hið sama er uppi á tengingnum með fylgistölur bæði Sósíalistaflokksins og Flokks fólksins, litlar breytingar hafa orðið þar á. Sósíalistar mælast nú með 4,6 prósentustiga stuðning í stað 4,3 prósenta síðast og Flokkur fólksins mælist nú með 3,8 prósenta stuðning borið saman við 3,6 prósent síðast. Í öllum tilvikum er breytingin ekki marktæk tölfræðilega. Stuðningur við aðra mældist 1,3 prósent samanlagt.
Samtals gáfu 79,3 prósent aðspurðra upp afstöðu til flokka, 6,3 prósent kváðust óákveðnir, 6,6 prósent svöruðu því til að þau myndu skila auðu og 5,9 prósent gáfu ekki upp afstöðu. 933 einstaklingar tóku þátt í könnuninni.
Þá mælist stuðningur við ríkisstjórnina því sem næst óbreyttur, 50,3 prósent kváðust styðja hana nú en voru 51 prósent 23. september síðastliðinn.
Athugasemdir