Langafi minn fæddist árið 1874. Ég þekki hann í gegnum sögur sem ferðast niður ættina eins og rótarvöxtur gamalla trjáa. Hann var skólastjóri og þegar hér kemur við sögu; ekkill með tvö lítil börn á Laugavegi 2. Í hverju hádegi gekk hann niður að höfninni til að sjá í hvernig kjól hún klæddist þann daginn. Hún var Esjan. Sama hvernig viðraði fór hann til að fylgjast með árstíðunum klæða fjallið. Á veturna var það snævi þakið, sumrin mosagrænt og um þessar mundir fyrir öllum þessum árum síðan hefur það verið rauðgult.
Fyrir stuttu sat ég með Guðrúnu Yrsu hjúkrunarfræðingi á kaffihúsi. Við sátum með bakið í Esjuna. Guðrún heldur utan um ljóðakvöld í Landakoti þar sem hún býður skáldum að lesa fyrir eldra fólkið. Hún hefur það að leiðarljósi í starfi sínu að hjúkrun sé samþætt líkama og anda. Við kynntumst fyrst á slíkum upplestri en nú sitjum við og ræðum um bataferli. Hvað er bati í raun? Í Landakoti er nú öldrunarlækningadeild spítalans. Guðrún rétti mér einfaldan bækling sem nefnist Dagbók sjúklings. Hann spyr spurninga eins og: Fórstu út að ganga í dag? Ég hlæ, því skyndilega sé ég svo margt á blaðinu sem er góð áminnig til mín sjálfrar. Grunnatriði sem skipta sköpum.
Nú er Landakot lokað utanaðkomandi, ljóðadagskráin bíður tíma þegar við höfum náð tökum á faraldrinum og okkur er öllum gert að aðlagast glænýrri rútínu heima við. Nú skipta litlu ritúölin máli, sem umvefja hversdaginn okkar, þau sem við tökum varla eftir, en þegar við lítum til baka verður það rútínan sem hefur mótað dagana okkar. Ég hugsa til Guðrúnar, og minni mig á að hlúa að fegurðinni í rútínunni. Ég ætla að setja það á minnisblaðið sem ég fékk frá henni að minnast þessa forföður míns og horfa eftir kjól Esjunnar. Í dag er kjóllinn úr rauðbrúnu siffóni.
Athugasemdir