Skjálftarnir sem mér eru minnisstæðastir eru landsskjálftinn á Jómfrúreyjum 1867 ásamt fellibyljum sem brutu skipin ýmist í spón eða feyktu þeim í heilu lagi langt upp á land og höfðu stórpólitískar afleiðingar og koma lítils háttar við sögu í nýjustu bókinni minni, Skáldaskil (skjálftinn var 7,5 á Richter), skjálftinn mikli í San Francisco 1906 sem var enn stærri (7,9) – og svo auðvitað skjálftinn á Dalvík 1934. Hann var 6,2 og því fjórum sinnum öflugri en skjálftinn (5,6) á afmælisdegi þjóðaratkvæðagreiðslunnar um nýju stjórnarskrána á þriðjudaginn var.
Ég sat á Austurvelli á góðra vina fundi í tilefni dagsins þegar skjálftinn reið yfir að lokinni afhendingu áskorunar 43.423 kjósenda til Alþingis um að staðfesta nýju stjórnarskrána án frekari tafar. Það var eins og turninn byggist til að falla niður af Dómkirkjunni með brauki og bramli til að undirstrika alvöru málsins, en turninn skipti um skoðun í miðjum klíðum – og það gerir forsætisráðherra vonandi líka og meiri hluti Alþingis. Það er aldrei of seint að bæta ráð sitt og breyta rétt. Við höfum beðið nógu lengi eftir nýrri stjórnarskrá eins og Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, lýsir í formála sínum að bókinni Nýja stjórnarskráin.
Einstakur viðburður
Þjóðaratkvæðagreiðslan um nýju stjórnarskrána 20. október 2012 var einstakur viðburður í stjórnmálasögu landsins. Aldrei áður hafði kjósendum veitzt kostur á að segja skoðun sína milliliðalaust, þ.e. án milligöngu stjórnmálaflokka, á nokkrum brýnustu ágreiningsefnum stjórnmálanna allt frá miðri 19. öld.
Þar ber fyrst að telja baráttuna fyrir jöfnu vægi atkvæða sem hefur staðið þrotlaust frá 1849, en það ár mælti Brynjólfur Pétursson, einn Fjölnismanna, fyrstur fyrir jöfnu vægi atkvæða, án árangurs. Þetta var árið sem fyrsta stjórnarskrá landsins tók gildi, uppistaðan í bráðabirgðastjórnarskránni sem danskur einvaldskóngur færði Íslendingum fornspurðum 1874, var síðan samþykkt með lítils háttar breytingum við lýðveldisstofnunina 1944 og gildir enn þótt gölluð sé.
Því næst ber að nefna baráttuna fyrir hagkvæmri og réttlátri fiskveiðistjórn sem hefur nú staðið þrotlaust í bráðum hálfa öld. Það er barátta milli þeirra sem vilja að réttur eigandi auðlindarinnar í sjónum skv. lögum, íslenzka þjóðin, njóti arðsins af eign sinni og þurfi ekki að gera sér að góðu brauðmola sem hrjóta af borðum þeirra sem hafa hrifsað til sín auðlindina með fulltingi Alþingis (og hafa sumir komizt í kast við lögin innan lands og utan).
Alþingi hefur gert margt vel í sambandi við endurskoðun stjórnarskrárinnar sem fór af stað eftir hrun. Alþingi bauð slembivöldum íbúum landsins til þjóðfundar um stjórnarskrána 2010 og efndi til kosningar til stjórnlagaþings sem varð að stjórnlagaráði. Ráðið skilaði til Alþingis fullbúnu frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár 2011, frumvarpi sem ráðið hafði samið með dyggilegri hjálp fólksins í landinu og samþykkt einum rómi. Alþingi bauð kjósendum síðan til þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 um frumvarpið eftir að hafa gert á því að mestu en ekki alveg öllu leyti meinlausar orðalagsbreytingar. Alþingi ákvað að spyrja kjósendur ekki aðeins um afstöðu þeirra til frumvarpsins í heild (67% kjósenda sögðu já, 33% sögðu nei). Alþingi spurði kjósendur einnig um afstöðu þeirra til nokkurra helztu efnisatriða frumvarpsins, og þar á meðal voru lykilatriðin tvö sem lýst var að framan.
Svör kjósenda voru ótvíræð: 83% sögðu já við ákvæðinu um auðlindir í þjóðareigu, 17% sögðu nei, og 67% sögðu já við ákvæðinu um jafnt vægi atkvæða, en 33% sögðu nei. Alþingi bjó svo um hnútana að eftir atkvæðagreiðsluna lá fyrir stuðningur tveggja þriðju hluta kjósenda ekki bara við frumvarpið í heild heldur einnig við kosningaákvæðið, eitt mikilvægasta ákvæði frumvarpsins, og jafnframt 83% stuðningur við hitt lykilákvæði frumvarpsins, ákvæðið um auðlindir í þjóðareigu. Við bætast aðrar mikilvægar réttarbætur sem frumvarpið felur í sér varðandi umhverfisvernd, upplýsingafrelsi, varnir gegn spillingu og annað.
Þess eru fá dæmi utan úr heimi að löggjafinn hafi staðið svo vel að undirbúningi þjóðaratkvæðis um nýja stjórnarskrá. Enda eru þess einnig fá dæmi að ný stjórnarskrá hafi hlotið svo sterkan stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu. Bandaríska stjórnarskráin var til samanburðar samþykkt með mjög naumum meiri hluta kjósenda 1787-1789. Svo mjótt var á munum að hefðu 20 kjósendur þar vestra kosið gegn stjórnarskránni frekar en að styðja hana hefði hún ekki náð fram að ganga. Þingið í Washington breytti ekki stafkróki í frumvarpi stjórnlagaþingsins í Fíladelfíu 1787 enda taldi þingið sig ekki hafa umboð til þess. Þingmenn virtu þann skilning að þjóðin, í gegnum fulltrúa sína á stjórnlagaþinginu, væri stjórnarskrárgjafinn – og ekki þingið.
Jon Elster prófessor í Columbia-háskóla í New York orðaði þessa hugsun skýrt á ráðstefnu í Háskóla Íslands 2012. Hann sagði: Það er brýnt að gera greinarmun á stjórnmálum hversdagsins og stjórnskipunarmálum. Í stjórnmálum hversdagsins ræður löggjafinn för. Í stjórnskipunarmálum fer fullvalda þjóð með æðsta vald.
Óbilandi stuðningur ...
Æ síðan í þjóðaratkvæðagreiðslunni hér heima 2012 hafa skoðanakannanir ólíkra aðila – Capacents, MMR og Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands – sýnt stöðugan stuðning um tveggja þriðju hluta kjósenda við nýju stjórnarskrána. Þessi óbilugi stuðningur hefur þó ekki enn birzt í úrslitum þrennra alþingiskosninga 2013, 2016 og 2017, sem allar fóru fram skv. kosningalögum sem kjósendur höfðu hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012.
Hverju sætir misræmið? Eru kjósendur kleyfhugar?
Nýjar rannsóknir í félagsvísindum benda til að rétt svar við spurningunni sé nei. Það er ekkert bogið við kjósendur. Hugarfar kjósenda er annað í þjóðaratkvæðagreiðslum en í þingkosningum. Í þjóðaratkvæðagreiðslum eins og þeirri sem haldin var um nýju stjórnarskrána 2012 láta stjórnmálaflokkar kjósendur í friði. Hver kjósandi greiðir atkvæði á eigin forsendum sem samfélagsþegn í friði fyrir áreiti stjórnmálaflokka. Í alþingiskosningum er staðan önnur. Þar keppa stjórnmálaflokkar um hylli kjósenda, ausa fé í áróður og smala kjósendum á kjörstað. Margir kjósendur greiða því ekki atkvæði á eigin forsendum heldur á forsendum stjórnmálaflokka. Þarna skilur milli feigs og ófeigs. Og þarna virðist liggja hluti skýringarinnar á kæruleysislegu viðhorfi margra stjórnmálamanna til þjóðaratkvæðagreiðslna.
Kosningaúrslit skulu standa. Það er ófrávíkjanleg leikregla lýðræðisins. Úrslitum kosninga verður ekki breytt eftir á. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um smámál gætu stjórnvöld e.t.v. leitt hjá sér án þess að stofna til vandræða, en ráðgefandi þjóðaratkvæði um stórmál eins og nýja stjórnarskrá eða úrsögn úr ESB má ekki vanvirða undir nokkrum kringumstæðum. Slík vanvirðing er atlaga að lýðræði.
Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 hættu ólík sjónarmið um frumvarpið sem þar var samþykkt og um ágæti einstakra ákvæða þess að skipta máli. Kjósendur höfðu fellt sinn dóm. Þau sem urðu undir í þjóðaratkvæðagreiðslunni þurftu að sætta sig við ósigur og bíða færis við næstu endurskoðun stjórnarskrárinnar sem mætti gjarnan hefjast um leið og nýja stjórnarskráin tekur gildi. Þessa röksemd – að Alþingi geti ekki hrifsað völdin af þjóðinni – hafa þau sem urðu undir ekki virt heldur hafa þau flækzt fyrir staðfestingu þjóðarviljans á alla lund og teflt í því skyni fram röksemdum sem hættu að skipta máli eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Hvaða fólk er þetta?
... óforskömmuð andstaða
Ein fróðlegasta skoðanakönnunin sem gerð hefur verið á afstöðu kjósenda til nýju stjórnarskrárinnar var könnun MMR 2017. Hún sýndi hvernig stuðningur við nýju stjórnarskrána skiptist eftir hópum. Spurt var: „Hversu mikilvægt eða lítilvægt þykir þér að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili?“ Þar kom fram eins og bæði fyrr og síðar að 70% kjósenda studdu nýju stjórnarskrána (þ.e. svöruðu „mikilvægt“) og 30% voru andvíg henni („lítilvægt“). Þar kom einnig fram að stuðningurinn var meiri meðal kvenna (81%) en karla (62%), meiri meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins (74%) en landsbyggðarinnar (63%) og meiri meðal lágtekjufólks (78%) en hátekjufólks (68%). Einnig kom fram að meiri hluti stuðningsmanna tveggja núverandi ríkisstjórnarflokka studdi nýju stjórnarskrána, VG (92%) og Framsóknarflokksins (56%).
Í aðeins tveim hópum reyndist meiri hlutinn vera andvígur nýju stjórnarskránni. Hvaða hópar voru það? Það voru stjórnendur og æðstu embættismenn (þar var stuðningurinn við nýja stjórnarskrá 43%) og stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins (19%).
Hér er vert að staldra við. Rannsóknir félagsvísindamanna sýna að klíkuráðningar eru reglan í íslenzkri stjórnsýslu, ekki undantekningin. Flokksmönnum er raðað á garðann í ráðuneytum, réttarsölum og víðar. Þetta er andverðleikasamfélagið í hnotskurn svo sem Einar Steingrímsson prófessor hefur lýst því. Svo rammt kveður að þessum vanda að ríkið hefur hvað eftir annað bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart hæfum umsækjendum sem gengið var fram hjá til að greiða götu einkavina valdsins. Stjórnsýslan í landinu líður fyrir þetta þjóðarböl. Traust almennings til margra helztu stofnana ríkisins og til réttarkerfisins er í molum.
Ný bók Ólínu Þorvarðardóttur, Spegill fyrir skuggabaldur: Atvinnubann og misbeiting valds, kortleggur og greinir vandann og sýnir m.a. hvernig svo nefnd einkafyrirtæki taka þátt í ósvinnu ríkisvaldsins gagnvart fólki sem valdhafar hafa vanþóknun á. Því þarf engum að koma á óvart að stjórnendur og æðstu embættismenn dansi eftir pípum póitískra yfirboðara sinna í stjórnarskrármálinu og öðru. Við þetta bætist sú blákalda staðreynd að næstum enginn forustumaður í atvinnulífi landsins hefur lýst andúð á hruninu eða þeim lögbrotum sem þar voru framin og leiddu til samtals 88 ára fangelsisvistar 36 einstaklinga fyrir lögbrot tengd hruninu, tvö og hálft ár á mann að meðaltali. Margrét Kristmannsdóttir, fv. varaformaður Samtaka atvinnulífsins, er undantekningin sem sannar regluna: hún hefur lýst eftir því að samtökin stígi fram fyrir hönd atvinnulífsins og lýsi því yfir að mál Samherja sé með öllu óásættanlegt. En flest hinna hafa þagað þunnu hljóði og ekki bara það heldur hafa hrunverjar hampað hver öðrum til hárra metorða, sameinaðir í baráttunni gegn nýju stjórnarskránni enda er henni beinlínis ætlað öðrum þræði að binda hendur þeirra til að vernda fólkið í landinu gegn frekari misgerðum þeirra.
Fordæmi frá fyrri tíð
Sjálfstæðisflokkurinn er kafli út af fyrir sig. Hann hefur komið þannig fram gagnvart kjósendum í stjórnarskrármálinu – með fordæmalausu málþófi og virðingarleysi gagnvart leikreglum lýðræðisins – að brýna nauðsyn ber til að setja hann til hliðar.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur sjálfur búið til fordæmi að slíkri útilokun sem neyðarúrræði. Það gerði flokkurinn 1942 þegar hann breytti stjórnarskránni í samvinnu við vinstri flokkana tvo sem þá voru á þingi til að jafna vægi atkvæða gegn harðri andstöðu Framsóknarflokksins. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn á Alþingi töluðust þá varla við svo að Sveinn Björnsson ríkisstjóri brá á það ráð að mynda utanþingsstjórn sem sat frá 1942 til 1944. Þá myndaði Sjálfstæðisflokkurinn meirihlutastjórn með vinstri flokkunum, nýsköpunarstjórnina sem svo var nefnd, gagngert til að einangra Framsóknarflokkinn sem hafði barizt af hörku gegn breytingum á stjórnarskránni sem þurfti til að jafna atkvæðisrétt landsmanna. Einangrun Framsóknarflokksins á Alþingi stóð til 1950 en það ár stofnuðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur til samstarfs um tvær samsteypustjórnir sem reyndust stormasamar. Samstarfinu lyktaði í fullum fjandskap 1956. Sagan endurtók sig 1959 þegar Framsóknarflokkurinn barðist aftur einn síns liðs gegn nýrri lagfæringu á stjórnarskránni til að jafna atkvæðisréttinn enn frekar og kallaði yfir sig endurnýjaða einangrun sem stóð til 1971.
Hliðstæða ráðningu þarf meiri hluti Alþingis eftir allt sem á undan er gengið að veita Sjálfstæðisflokknum eftir næstu alþingiskosningar að ári ef ekki fyrr. Það mun ef til vill létta Alþingi leikinn að flest bendir nú til þess að Trump forseti tapi forsetakosningunum í Bandaríkjunum 3. nóvember nk. og repúblikanar lendi í minni hluta í báðum deildum Bandaríkjaþings. Þar virðist þungbær vist bíða þeirra. Trump hefur sjálfur sagt að hann geti þurft að flýja land ef hann tapar, væntanlega til að forða sér undan ákærum, enda eru um 30 dómsmál í gangi gegn honum mislangt á veg komin víða um landið. Óvíst virðist hvort forsetanum tekst að komast hjá fangelsisdómum. Silvio Berlusconi, sem var forsætisráðherra Ítalíu lengur en nokkur annar maður frá stríðslokum 1945, tókst það ekki, heldur fékk hann fangelsisdóm áður en yfir lauk svo sem margir höfðu spáð og beitti hann þó öllum brögðum, jafnvel lagasetningu, til að komast hjá dómi.
Hliðstæð örlög kunna að bíða Trumps forseta miðað við allt sem á undan er gengið enda sitja margir nánir samstarfsmenn hans inni nú þegar eða bíða dóms. Þá mun ef til vill sljákka eitthvað í aðdáendum hans heima fyrir og annars staðar, aðdáendum og fylgismönnum sem skirrast ekki við að dreifa rökleysum og lygum eins og Trump forseti hefur gert af mikilli íþrótt og skeyta hvorki um skömm né heiður.
Og þá munu ef till vill fleiri en áður sjá og skilja að í réttarríki sem rís undir nafni þurfa menn að reynast og sýnast jafnir fyrir lögum.
Athugasemdir