Barnaheill, Geðverndarfélagið og félag Fjölskyldufræðinga leggjast gegn frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof í þeirri mynd sem það hefur verið lagt fram af Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra. Félögin þrjú telja að með frumvarpinu sé ekki verið að tryggja barni rétt til samvista við foreldra sína, heldur sé verið að tryggja rétt foreldranna. Þau leggja til að börn fái 12 mánaða sjálfstæðan rétt til orlofs með öðru foreldri sínu eða báðum.
Fleiri félög og opinberir aðilar taka í sama streng, þar á meðal Ljósmæðrafélag Íslands og embætti landlæknis. Þá er gagnrýnt harðlega að vinnuhópur sem stóð að tillögugerð um endurskoðun laganna hafi ekki haft innan sinna raða neina þá sem hefði sérþekkingu á börnum eða þörfum þeirra „heldur virðast fulltrúar einna helst tengjast atvinnumálum,“ eins og segir í umsögn landlæknis.
Of lítill sveigjanleiki
Í frumvarpi Ásmundar Einars er tiltekið að foreldrar eigi rétt til fæðingarorlofs í allt að sex mánuði en heimilt sé að framselja einn mánuð á milli foreldra. Þannig geti fæðingarorlof annars foreldris aldrei orðið lengra en sjö mánuðir en réttur til fæðingarorlofs geti aldrei orðið minni en fimm mánuðir. Með frumvarpinu er fæðingarorlof lengt úr tíu mánuðum í tólf.
Í yfirlýsingu sem félögin þrjú hafa sent frá sér segir að í 2. grein frumvarpsins sé tiltekið að markmið laganna sé að tryggja barni samvistir við báða foreldra. Það sé hins vegar ekki svo þegar lagatextinn er skoðaður, því að í 7. grein frumvarpsins sé tiltekið að foreldrar eigi sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í sex mánuði sem ekki sé framseljanlegur, nema einn mánuður svo sem rakið er hér að framan. Sú regla „brýtur gegn bæði barninu og markmiðsgrein laganna,“ segir í yfirlýsingu félaganna.
„Við teljum hins vegar að börn eigi ekki að gjalda þess að annaðforeldrið nýti sér ekki þennan rétt“
Tekið er dæmi af barni einstæðra foreldra þar sem hitt foreldrið geti einhverra hluta vegna ekki verið samvistum við barnið, sökum veikinda, sökum þess að ekki er vitað hver faðirinn er eða foreldri vilji ekki umgangast barnið, svo dæmi séu tekin. Þau börn fái aðeins sjö mánðuði í samvistir með foreldri sínu verði frumvarpið samþykkt, meðan önnur börn fái tólf mánuði.
Félögin segja í yfirlýsingu að þeim sé ljóst það markmið laganna að stuðla að þátttöku beggja foreldra í umönnun barna fyrstu mánuðina. „Við teljum hins vegar að börn eigi ekki að gjalda þess að annaðforeldrið nýti sér ekki þennan rétt heldur eigi orlofstíminn að vera merktur börnunum óháð því.“
Enginn með sérþekkingu á þörfum barna kom að málinu
Þá er gagnrýnt að í starfshópi félags- og barnamálaráðherra sem vann að tillögum um heildarendurskoðun laganna hafi aðeins verið skipaðir aðilar vinnumarkaðarins auk fulltrúa frá ráðuneytum og Vinnumálastofnun. „Enginn með sérþekkingu á börnum og þörfum þeirra, s.s. frá Ljósmæðrafélagi Íslands, Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, Geðlæknafélaginu, Félagi íslenskra félagsráðgjafa, Sálfræðingafélagi Íslands, Kennarasambandinu, Félagi leikskólakennara eða frjálsum félagasamtökum sem vinna að málefnum barna var skipaður í hópinn. Með þeirri skipan má draga þá ályktun að ekki hafi staðið til að setja þarfir barna í forgrunn, heldur að líta á fæðingarorlof fyrst og fremst sem vinnumarkaðsúrræði til að ná fram öðrum markmiðum en velferð barna.“
Frumvarpið var birt í samráðsgátt stjórnvalda 23. september síðastliðinn og hafa, þegar þetta er ritað, 253 umsagnir borist um frumvarpið. Langflestar umsagnirnar koma frá einstaklingum, og að miklum meirihluta frá konum. Mjög misjafnar skoðanir eru á efni frumvarpsins, þó almennt sé því fagnað að lengja eigi fæðingarorlof.
„Virðast fulltrúar einna helst tengjast atvinnumálum“
Nokkur fjöldi umsagna hefur borist frá félagasamtökum og opinberum aðilum. Þannig bendir Jafnréttisstofa á að þeim markmiðum laganna, að tryggja barni samvistir við báða foreldra, sé best náð ef foreldrar eigi hvort um sig sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs. Þá leggur Ljósmæðrafélag Íslands til að rétturinn til orlofstöku verði framseljanlegur „að nokkru eða fullu leyti til hins foreldrisins.“
Tryggja þurfi rétt barna
Embætti landlæknis segir í sinni umsögn að mikilvægt sé að tryggja að öll börn sitji við sama borð hvað varði tækifæri til að verja fyrsta æviárinu í umsjá foreldra, óháð hjúskaparstöðu og forsjártilhögun. „Í þeim tilvikum þar sem einungis annað foreldrið kemur að uppeldi barnsins þarf því að vera hægt að ráðstafa fæðingarorlofi þannig að barninu sé tryggður sami fjöldi mánaða í umsjá foreldris og öðrum börnum.“ Þá leggur embætti landlæknir enn fremur til að sveigjanleiki verði aukin í því hvernig foreldrar geti ráðstafað orlofi sín á milli, þannig að fjórir mánuðir fari til hvors foreldris en hina fjóra mánuðina sem eftir standi geti foreldrar ráðstafað sín á milli eins og best henti þörfum barns og aðstæðum fjölskyldunnar.
Þá hnýtir landlæknir einnig í skipun nefndarinnar sem vann að endurskoðun laganna enda þurfi, við frekari endurskoðun, að kalla eftir aðkomu fulltrúa sem hafi sérþekkingu á geðheilsu og þroska ungra barna. „Það vekur athygli að engan slíkan fulltrúa virðist að finna í þeim starfshópi sem nú hefur lagt fram tillögur að breytingu laganna heldur virðast fulltrúar einna helst tengjast atvinnumálum. Við frekari endurskoðun laganna er mikilvægt að tryggja aðkomu fagfólks með þekkingu á sviði geðheilsu og þroska barna sem verður best tryggð með því að grundvalla lögin jafnframt sem réttindi og geðheilbrigðismál barna.“
Athugasemdir