Hópur fólks vinnur nú að því að mála aftur listaverkið „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ á vegg sem er á lóð í eigu ríkisins, milli Sölhólsgötu og Skúlagötu.
Veggurinn er steinsnar frá öðrum vegg, þaðan sem sama listaverk var háþrýstiþvegið í gær af fyrirtækinu Allt-af að beiðni Þjónustumiðstöðvar Stjórnarráðsins, sem tók ákvörðunina eftir ábendingu frá rekstrarstjóra Atvinnuvegaráðuneytisins.
Narfi Þorsteinsson frá Skiltamálun Reykjavíkur hóf málningarvinnuna ásamt hópi fólks um nónbil í dag, en hann málaði einnig vegglistaverkið á laugardaginn sem var afmáð í gær.
Atvinnuvegaráðuneytið sendi í gær ábendingu á Þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins um „veggjakrot“ á veggnum. Upplýsingafulltrúi ráðuneytisins segir í svari til Stundarinnar að rekstrarstjóri ráðuneytisins hafi sent ábendinguna án aðkomu ráðherra.
„Háþrýstiþvo í burtu sannleikann“
Meðal þeirra sem fylgdust með voru Þorvaldur Gylfason, hagfræðingur og meðlimur í stjórnlagaráði, og Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata.
Jón Þór sagði á þingi í dag að sannleikurinn um vanvirðingu stjórnvalda hefði verið háþrýstiþveginn í burtu.
„Það er táknrænt að þegar stjórnvöld komast ekki lengur upp með það að sópa nýju stjórnarskránni undir teppið, þá beinlínis háþrýstiþvo þau í burtu sannleikann um vanvirðingu þeirra við þjóðarviljann.“
Rekstrarstjóri tilkynnti veggjakrotið
Önnur hlið veggjarins milli Sölhólsgötu og Skúlagötu, þaðan sem listaverkið „Hvar er nýja stjórnarskráin?“ var afmáð með háþrýstidælu í gær, hefur verið látin vera óhreinsuð af veggjakroti.
Samkvæmt svörum frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu hefur veggurinn, þaðan sem listaverkið var fjarlægt í gær, verið þrifinn tvisvar í haust. „Húsvörður var í húsinu til 15. júlí síðastliðins. Hann sá um að halda veggjakroti í skefjum eftir bestu getu og hefur þurft að mála og þrífa húsið að utan nokkuð reglulega. Nú hefur Umbra, rekstrarfélag Stjórnarráðsins, tekið við og sér um þrifin og eftirlit með eigum Stjórnarráðsins. Þetta er í annað sinn sem Umbra þrífur veggi við húsið í haust,“ sagði í svari frá Ástu Sigrúnu Magnúsdóttur, upplýsingafulltrúa ráðuneytisins. „Ráðherrar komu ekki að þessari ákvörðun.“
Athugasemdir