Ný könnun MMR sýnir að aukinn stuðningur er við að Íslendingar fái „nýja stjórnarskrá“.
Þannig segja 40% svarenda að að það sé „mjög mikilvægt“ að „Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Þetta er aukning úr 32% frá því í október í fyrra.
Til viðbótar styðja 19% nýja stjórnarskrá með þeim orðum að það sé „frekar mikilvægt“.
Á móti telja 17% landsmanna „mjög lítilvæglegt“ og 8% „frekar lítilvæglegt“ að þjóðin fái nýja stjórnarskrá, en 17% voru á báðum áttum og svöruðu „bæði og“.
Konur eru mun líklegri en karlar til að styðja nýja stjórnarskrá. Tveir þriðju þeirra styðja hana, en helmingur karla. Fyrir ári voru hlutföllin þau að 56% kvenna studdu nýja stjórnarskrá en 49% karla.
Þá er áberandi að bæði elsti hópurinn, 68 ára og eldri, og yngsti hópurinn, 18 til 29 ára, eru meira áfram um að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá. Þannig sögðust 50% þeirra elstu telja það mjög mikilvægt, en 46% þeirra yngstu. Aðeins 13% yngsta hópsins taldi það frekar eða mjög lítilvæglegt.
2.043 einstaklingar svöruðu könnun MMR. Úrtakið er valið handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR. Könnunin var framkvæmd 10. til 23. september síðastliðinn.
Athugasemdir