Söfnun Frú Ragnheiðar, verkefnis Rauða krossins til skaðaminnkunar, skilaði 11 milljónum króna. Safnað var fyrir nýjum bíl, en Frú Ragnheiður hefur í 11 ár haldið úti sérútbúnum bíl sem keyrir um höfuðborgarsvæðið og veitir fólki sem notar vímuefni í æð og heimilislausum einstaklingum aðstoð. Þá eru systurverkefni einnig starfræk á Akureyri og Suðurnesjum
„Við í Frú Ragnheiði hófum söfnun fyrir viku síðan fyrir nýjum bíl og stefndum að því að safna 10 milljónum,“ segir í tilkynningu á Facebook síðu verkefnisins. „Aldrei hefði okkur grunað að við myndum vera nálægt því að ná markmiðinu. Í gær, þegar Frúin fagnaði 11 ára afmæli á lokadegi söfnunar, gerðist eitthvað kraftaverki líkast. Það gleður okkur að tilkynna að við náðum að safna 11 milljónum á 11. starfsári okkar!“
Alls eru um 100 sjálfboðaliðar í verkefninu sem skipta með sér vöktum í bílnum og hefur þjónustan haldist óskert í gegnum kórónuveirufaraldurinn. Með peningunum sem söfnuðust verður fjárfest í nýjum bíl og hann innréttur til að sinna þörfum skjólstæðinga verkefnisins.
„Það er erfitt að koma þakklætinu sem býr í hjarta okkar í orð,“ segir í tilkynningunni. „Einn notandi þjónustu okkar komst þó vel að orði í gær og gaf okkur leyfi til að deila: „Ég hef verið á götunni í mörg ár, og notað vímuefni í fleiri ár, og sjaldan ef einhvern tímann upplifað að samfélagið geri ráð fyrir mér og mínum þörfum. Ég hef fylgst með söfnuninni og velvildinni í kringum hana, allir að reyna að safna fyrir nýjum bíl hjá Frúnni fyrir okkur. Mér líður eins og samfélagið sé að viðurkenna mínar þarfir á einhvern undarlegan hátt.““
Athugasemdir