Ég man þetta eins og það hafi gerzt í gær.
Þetta var haustið 2008. Ísland rambaði á barmi hengiflugs vegna skefjalauss ábyrgðar- og fyrirhyggjuleysis í efnahagsmálum árin næst á undan, enn frekar en endranær. Enginn gat í fyrstu vitað hvort landið myndi lokast með kyrrsetningu skipa og flugvéla og meðfylgjandi samgönguleysi líkt og á fyrri öldum. Svo illa fór þó ekki.
Þau sem báru stjórnskipulega höfuðábyrgð á hruninu, ríkisstjórnin og Seðlabankinn, höfðu látið viðvaranir mínar og margra annarra sem vind um eyru þjót,a líkt og Trump Bandaríkjaforseti nú frammi fyrir heimsfaraldrinum, og þau sýndu mörg lítinn áhuga á að bregðast skynsamlega við vandanum sem upp var kominn. Enda var varla við því að búast að brennuvargar gætu dugað til slökkvistarfa.
Bankamenn höfðu keypt sér frið fyrir stjórnvöldum líkt og útvegsmenn fyrr og síðar með því að moka fé í stjórnmálamenn og flokka svo sem Rannsóknarnefnd Alþingis lýsti vel í skýrslu sinni 2010 (2. bindi, bls. 200). Tíu þingmenn af 63 skulduðu bönkunum 100 mkr. eða meira hver og einn samkvæmt skýrslu RNA, þar á meðal núverandi fjármálaráðherra. Ekki hefur enn verið greint frá því hvort eða hvernig skil voru staðin á þessum skuldum. Ekki hefur heldur verið greint frá innlögnum á Panama-reikninga þriggja ráðherra sem stýra, tveir þeirra, hvor sínum flokki á Alþingi eins og ekkert hafi í skorizt.
Leit að nýjum vinum ...
Við blasti strax um haustið 2008 að leita þyrfti til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins skv. gildandi leikreglum alþjóðafjármálakerfisins sem Ísland gerðist stofnaðili að 1945. Þessu reyndu stjórnvöld þó að komast undan, einkum að því er virðist af ótta við þau skilyrði sem sjóðurinn þyrfti að setja skv. settum reglum til að koma efnahagslífi landsins á réttan kjöl. Þess vegna reyndu stjórnvöld fyrst að leita eftir óskilyrtri fjárhagsaðstoð Norðurlanda, en ríkisstjórnir þeirra bentu á AGS sem réttan viðtakanda slíkrar umleitunar og buðust jafnframt til að veita Íslandi rífleg lán svo sem varð, meira fé en AGS var heimilt að reiða fram. Enda hefði leyfileg hámarkslánveiting frá AGS ekki dugað til að brúa nema tæplega helminginn af gapinu sem hafði opnazt í skyndingu. Sjóðurinn teygði sig fram á yztu nöf til að hjálpa Íslandi.
Stjórnvöld brugðust við með því að senda Norðurlöndum kaldar kveðjur og „leita nýrra vina“. Þó hafði ekki annað gerzt en það að ríkisstjórnir Norðurlandanna höfðu líkt og Bandaríkjastjórn og fleiri bent ríkisstjórn Íslands á að þegar húsið manns stendur í björtu báli þá hringir maður í slökkviliðið, það er AGS í þessu tilfelli, frekar en í vini sína og gerir nágrönnum sínum jafnframt viðvart um eldinn.
Það flækti stöðuna að deila Íslands við brezk og hollenzk stjórnvöld vegna óuppgerðra Icesave-innstæðna í erlendum útibúum Landsbankans dróst inn í málið, en deilan leystist á endanum þar eð eignir þrotabúsins reyndust þegar allt kom til alls duga fyrir þessum innstæðum. Eigi að síður urðu aðrir viðskiptavinir Landsbankans, hinna föllnu bankanna tveggja og annarra fjármálastofnana fyrir gríðarlegum skaða af völdum bankahrunsins. Gjaldþrot stóru bankanna þriggja var og er enn þriðja stærsta gjaldþrot gervallrar fjármálasögu heimsins.
... svo í Kreml sem í Kína
Svo mjög reið Seðlabankanum á að skjóta sér undan væntanlegum skilyrðum af hálfu AGS að bankinn sendi menn til Moskvu til að semja um neyðarlán Rússa til Íslands. Daginn eftir að Seðlabankinn „lánaði“ Kaupþingi 500 milljónir evra, fé sem rann að talsverðu leyti beint inn á reikning á Tortólu daginn eftir eins og síðar kom í ljós, þetta var 7. október 2008, þá birti Seðlabankinn svohljóðandi frétt: „Sendiherra Rússlands á Íslandi, Victor I. Tatarintsev, tilkynnti formanni bankastjórnar Seðlabankans í morgun að staðfest hefði verið að Rússland myndi veita Íslandi lánafyrirgreiðslu að upphæð 4 milljarðar evra. … Putin, forsætisráðherra Rússlands, hefur staðfest þessa ákvörðun.“
Af þessari lántöku varð þó ekki.
Ríkisstjórnir Norðurlanda hrukku við. Hvað var í gangi? Þær vissu sem var að færeysk stjórnvöld höfðu átt það til á fyrri tíð að þykjast ætla að bjóða Rússum flotaaðstöðu í Færeyjum til að kreista enn meira fé út úr dönskum skattgreiðendum og höfðu komizt upp með það, en þann ósið og ýmsa aðra lögðu Færeyingar af eftir hrunið þar 1989–1993. Var Seðlabanki Íslands nú að reyna slíkt hið sama að færeyskri fyrirmynd? Eða var það ætlunin að ganga Rússum á hönd til að koma sér undan kossi dauðans? – eins og sagt var að Timothy Geithner, þá fjármálaráðherra Bandaríkjanna og áður háttsettur embættismaður AGS, hefði lýst þeirri neyðarhjálp sem sjóðurinn býður og veitir aðildarríkjum sínum, fjárhagshjálp og ráðgjöf sem reyndist Íslandi afar vel eins og kom í ljós og allir vita. Seðlabankamennirnir sem skipulögðu og fóru ferðina til Moskvu eiga eftir að greina opinberlega frá því sem gerðist þar.
Löngu síðar var greint frá því opinberlega, það var haustið 2018, að bæði forsætisráðherra og forseti Íslands leituðu eftir aðstoð hjá leiðtogum Kínverja á vikunum eftir hrun. Svo mjög reið þeim á að skjóta sér fram hjá heilbrigðu aðhaldi og eftirliti af hálfu AGS skv. skráðum reglum að þeim dugði ekki að leita á náðir Rússa heldur biðluðu þeir einnig til Kínverja. Af fjárhagsaðstoð Kínverja við Ísland varð þó ekki heldur.
Lýðræði, lög og réttur
Þessar skjalfestu tilraunir til að hafna hjálp nánustu vina og bandamanna Íslands í Evrópu og Ameríku allar götur frá stofnun lýðveldisins 1944 eftir settum reglum og leita heldur á óvissar náðir Rússlands og Kína er vert að skoða í ljósi blákaldra og býsna óþægilegra staðreynda. Bæði Rússland og Kína voru þá sem nú gerspillt einræðisríki þar sem yfirvöldin skirrast ekki við að fangelsa stjórnarandstæðinga eða koma þeim fyrir kattarnef auk annars. Og ekki bara það, heldur hefur einræðið ágerzt í báðum löndum frá 2008. Það ár gaf Freedom House, bandarísk stofnun sem kortleggur lýðræðisþróun um allan heim, Rússlandi og Kína lýðræðiseinkunnirnar 3,2 og 1,8 á venjulegan einkunnaskala frá 0 upp í 10. Og nú (2020) eru þessar lýðræðiseinkunnir Rússlands og Kína komnar niður í 2,0 og 1,0, enda hefur lýðræði og mannréttindum hrakað verulega í báðum löndum frá 2008 líkt og sums staðar annars staðar um heiminn.
Hvað um réttarríkið? Einkunnin sem World Justice Project, stofnun á vegum Bandaríska lögfræðingafélagsins, gefur Rússlandi fyrir lög og rétt hefur sniglazt úr 4,3 2012 upp í 4,7 2020 á sama skala. Einkunn Kínverja fyrir lög og rétt var 4,8 bæði árin.
Sem sagt: falleinkunnir.
Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið
Fyrirætlanir stjórnvalda um samstarf við Rússa og Kínverja eftir hrun frekar en skv. settum reglum á eðlilegum vettvangi AGS fóru út um þúfur.
Önnur skyld fyrirætlun stjórnvalda af svipuðum rótum runnin fór einnig út um þúfur. Það var tilraun stjórnvalda til að lokka innlenda lífeyrissjóði til að flytja erlent fé sitt heim haustið 2008. Eignir lífeyrissjóðanna erlendis námu þá um 500 milljörðum króna, meira fé en nam lánsfénu sem reynt var að afla í Moskvu þá um haustið en mistókst. Þarna stóð beinlínis til að hætta eða fórna hagsmunum lífeyrisþega til að breiða hulu yfir óstjórnina í efnahagsmálum landsins og til að komast hjá samstarfi við AGS. Það munaði ekki nema hársbreidd að ósvinnan næði fram að ganga eins og Guðmundur Gunnarsson rafvirki, síðar félagi minn í stjórnlagaráði 2011, hefur rifjað upp hér í Stundinni. Við rerum ásamt öðrum lífróður í fjölmiðlum til varnar lífeyrissjóðunum meðan stormurinn gekk yfir og höfðum sigur. Lífeyrisþegar sluppu með skrekkinn.
Þessu er vert að halda til haga nú þegar Seðlabankinn hefur tilkynnt að könnun sé hafin á hlutafjárútboði Icelandair. Hvers vegna? Könnun Seðlabankans virðist stafa af óánægju – óánægju hverra? – með að stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna ákvað að taka ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair þar eð stjórnin taldi slíka fjárfestingu of áhættusama eins og sakir standa. Stjórnin leit réttilega svo á að hlutverk hennar sé eitt og aðeins eitt: að standa vörð um hagsmuni lífeyrisþega frekar en að tefla hagsmunum þeirra í tvísýnu undir pólitískum og viðskiptalegum þrýstingi með gamla laginu. Ögurstundir efnahagslífsins eru ekki í verkahring lífeyrisþega.
Hér birtast í hnotskurn mistökin sem gerð voru þegar Fjármálaeftirlitið var innlimað í Seðlabankann líkt og áður var með afleitum árangri. Enda virðist innlimun eftirlitsins í bankann ætlað að koma allri meðvirkni með brokkgengum bankamönnum fyrir á einum öruggum stað með gamla laginu. Það er AGS til minnkunar að hafa lagt vanhugsaða blessun sína yfir þessa innlimun.
Fjármálaeftirlitinu ber lagaskylda til að hafa eftirlit með lífeyrissjóðum líkt og öðrum fjármálastofnunum. Þessi lagaskylda hefur nú flutzt yfir til Seðlabankans eftir að kalla má óvinveitta yfirtöku bankans á eftirlitinu. Hvað um það, tilgangur lögboðins eftirlits er að takmarka áhættu lífeyrissjóða með hagsmuni sjóðsfélaga að leiðarljósi og tryggja góða stjórnarhætti í sjóðunum.
Með því að stofna til könnunar vegna varkárni af hálfu stjórnar Lífeyrissjóðs verslunarmanna hefur eftirlitsskyldu Seðlabankans verið snúið upp í andhverfu sína með gamla laginu. Seðlabanki má aldrei ýta undir fjárglæfra líkt og bankinn gerði fram að hruni með hörmulegum afleiðingum. Bankaráð Seðlabankans eða Alþingi þarf að setja stjórn bankans stólinn fyrir dyrnar ef ekki á illa að fara enn á ný.
Athugasemdir