Fyrstu kappræður Donalds Trump forseta og Joe Bidens, fyrrverandi varaforseta, fóru gjörsamlega úr böndunum eftir að spyrlinum Chris Wallace mistókst ítrekað að þagga niður í frambjóðendunum sem gjömmuðu á sama tíma. Sérstaklega fór forsetinn mikinn í tilraunum sínum til að grípa fram í fyrir bæði Wallace og Biden. Fyrir vikið myndaðist skekkja í þeim tíma sem hvor frambjóðandi átti að fá til að svara spurningum.
Upplausnin var slík að beint eftir kappræðurnar sagði Wolf Blitzer, fréttaþulur CNN, að hann hefði efasemdir um að þetta yrði endurtekið. Til stóð að Trump og Biden mættust aftur en eftir átökin í nótt þykir ekki víst að það gerist þó að engin opinber tilkynning þess efnis hafi verið gefin út.
Biden fékk oft ekki nema rétt að byrja svör sín þegar forsetinn tók af honum orðið. Þegar Biden kvartaði undan því að þessi stöðugu frammíköll rugluðu sig í ríminu sagði stjórnandinn Chris Wallace: „Ég á sjálfur í vandræðum.“ Wallace þurfti oft að endurtaka: „Herra forseti! Gerðu það, herra forseti, leyfðu honum að tala!“ eða einfaldlega „Herramenn… herramenn… geriði það, hættið þessu!“ þegar báðir kölluðust á og hunsuðu spurningarnar stundum alfarið.
Biden brosti lengst af þegar þetta gerðist en varð smám saman argari og kvæsti á Trump: „Viltu þegja maður? Þetta er svo óforsetalegt!“ Síðar sagði hann: „Þessi trúður leyfir mér ekki að tala!“ Hann kom syni sínum Hunter Biden til varnar þegar Trump reyndi ítrekað að leiða umræðurnar að meintum greiðslum sem hann hefði fengið frá Rússlandi. Sagði Biden að forsetinn væri einfaldlega lygari og ekki væri hægt að taka mark á neinu sem hann segði. Mál sonar síns hefðu verið rannsökuð í þaula og ásaknirnar reynst byggðast á sandi.
Það var greinilegt af öllu að mennirnir báru enga virðingu fyrir hvor öðrum og notuðu ýmis uppnefni. Þegar Biden gaf í skin að Trump væri illa gefinn brást hann hinn versti við og sagði: „Þú skalt ekki tala um gáfur við mig, það er ekkert gáfulegt við þig Joe!“
Sagði öfgahópum að bíða átekta
Það hefur vakið mikla athygli að þegar talið barst að öfgahópum á hægri væng bandarískra stjórnmála, sem styðja Trump, talaði hann beint til þeirra og sagði þeim meðal annars að bíða átekta.
Wallace spurði sérstaklega um hóp sem kallast Proud Boys og hefur verið lýst sem öfgahóp sem aðhyllist meðal annars kynþátta- og kvenhatur auk þess að dreifa samsæriskenningum. Liðsmenn þeirra hafa undanfarið mætt vopnaðir á mótmæli Black Lives Matter samtakanna og hefur það leitt til harðra átaka. Wallace spurði hvort forsetinn væri tilbúinn að ávarpa slíka hópa og segja þeim að leggja niður vopn eða „stand down“ á frummálinu.
Trump sagði þá að skilaboð sín væru: „Stand back and stand by“ sem gæti útlagst sem „Stígið til baka og bíðið átekta.“ Liðsmenn Proud Boys fögnuðu þessu ákaft á Twitter og sagði einn áhrifamaður innan samtakanna að nú hefðu þeir fengið opinbert leyfi til að efla aðgerðir sínar: „Trump basically said to go fuck them up! this makes me so happy,“ Þá birti Telegram rás Proud Boys mynd af skjaldamerki sínu með orðunum „Stand back, stand by.“
Þetta vekur ekki síst áhyggjur í ljósi þess að í kappræðunum neitaði Trump að segja hvort hann myndi viðurkenna úrslit kosninganna og vildi ekki skuldbinda stuðningsmenn sína til þess að taka þeim þegjandi ef grunur vakni um að brögð væru í tafli. Fullyrti forsetinn að póstkosningar og atkvæði greidd utan kjörstaða væru ávísun á kosningasvindl og spáði því að hæstiréttur landsins þyrfti að skerast í leikinn.
Trump hefur legið undir ámæli fyrir að virða ekki hinstu ósk hæstaréttardómarans Ruth Bader Ginsburg sem féll frá á dögunum og bað um að eftirmaður hennar yrði ekki skipaður fyrr en eftir kosningar. Allt útlit er fyrir að nýr og mun íhaldssamari dómari, Amy Coney Barrett, hljóti samþykki þingsins á þeim rúma mánuði sem er til kosninga þó að skipun dómara við hæstarétt hafi aldrei gengið svo hratt fyrir sig áður í sögu Bandaríkjanna. Til þess hefur Repúblikanaflokkurinn tilskilinn meirihluta og vegna nýlegra lagabreytinga í valdatíð Trumps geta Demókratar ekki lengur beitt málþófi til að stöðva ferlið.
Sagðist hafa bjargað 1,8 milljón mannslífum
COVID-19 faraldurinn bar oft á góma í kappræðunum og sagði Biden að aðgerðarleysi Trumps gæti þýtt að tvö hundruð þúsund Bandaríkjamenn til viðbótar myndu deyja af völdum veirunnar á næstu mánuðum, til viðbótar við sama fjölda sem nú þegar hefur látist.
Trump sagði hins vegar að það væri alrangt og fullyrti að Biden hefði ekki getað staðið sig eins vel og hann gerði í að útvega öndunarvélar og hlífðarbúnað. Hafði hann eftir ónefndum sérfræðingum að allt að tvær milljónir hefðu farist af völdum COVID-19 ef ekki hefði verið gripið til þessara aðgerða, hann hafi því þvert á móti bjargað 1,8 milljón mannslífa.
Chris Wallace spurði út í fullyrðingar Trumps þess efnis að bóluefni yrði tilbúið til dreifingar á allra næstu vikum en ekki næsta sumar eins og heilbrigðisyfirvöld og lyfjafyrirtæki hafa sagt. Gat forsetinn ekki fært neinar sannanir fyrir mái sínu en vitnaði í samtöl við ónefnda áhrifamenn í lyfjaiðnaðinum sem hefðu sagt sér að bóluefnið gæti verið tilbúið fyrir kosningar. Hann myndi skipa hernum að dreifa því til landsmanna til að flýta ferlinu.
Skattamál Trumps vöktu einnig heitar umræður en nýlegur leki til bandarískra fjölmiðla er sagður sýna að hann hafi greitt lítinn sem engan skatt af tekjum sínum og beitt bókhaldsbrellum til að koma út á sléttu. Rétt fyrir kappræðurnar sendi Biden fjölmiðlum afrit af sínum skattskýrslum og eiginkonu sinnar nokkur ár aftur í tímann sem virðast ekki sýna neitt af sama tagi.
Trump sagði Biden og Wallace fara með rangt mál, lekinn væri byggður á lygum og í raun greiddi hann milljónir dollara í allskyns skatta á ári hverju.
Allt í steik
Það er óhætt að segja að kappræðurnar hafi vakið sterk viðbrögð á samfélagsmiðlum strax og þær hófust. Þegar þeim lauk eftir rúmlega 90 mínútur voru fréttaskýrendur á einu máli um að algjör upplausn hafi einkennt kvöldið. Margir vildu kenna Trump um hvernig fór, aðrir sögðu Wallace hreinlega hafa verið talaðan í kaf. Stjórnandi umræðanna hafi verið sá sem stóð sig verst, þótt honum hafi verið nokkur vorkunn.
Í miðri orrahríðinni skrifaði rithöfundurinn Jill Filopovic á Twitter að hún vorkenndi Hillary Clinton að horfa á átökin eftir að hafa verið ráðlagt að halda sig til hlés í kappræðum við Trump fyrir fjórum árum. Clinton svaraði um hæl: „You have no idea.“
Fréttaskýrendur stóru sjónvarpsstöðvanna voru helur ómyrkir í máli. „It was a shit show,“ sagði til dæmis Dana Bash, stjórnmálaskýrandi CNN. „That debate was a disgrace,“ kappræðurnar voru hneysa, svaraði Jake Tapper, fréttaþulur á sömu stöð. Breska blaðið Guardian segir Wallace sæta sérstaklega harðri gagnrýni og vitnar í holskelfu skilaboða á Twitter frá ýmsum fréttaskýrendum bæði í Bretlandi og Bandaríkjunum.
Peter Spiegel, fréttastjóri Financial Times í Bandaríkjunum, lýsti kappræðunum í beinni á vef blaðsins ásamt kollegum sínum. Skrifar hann meðal annars: „Já, þetta var ‘toxic’. Já, Wallace missti stjórnina. Og, já, Biden hélt ró sinni. En verður þetta slæmt fyrir Trump? Málið með Trump er að hann snýr öllu á haus í pólitík. Frammistaða kvöldsins gerir sjóaða fréttaskýrendur eins og okkur í Washington alveg brjálaða en gæti þessu verið vel tekið í þeim ríkjum sem hann þarf mest á að halda?“
Í lok kvöldsins tók Spiegel undir vangaveltur um að þessar kappræður yrðu þær síðustu og seinni umferðinni yrði hreinlega aflýst eftir þessa flugeldasýningu í nótt.
Fréttastöðin CNN tók saman lista yfir það góða og slæma í kappræðunum eða „hits and misses“. Í flokknum hits er hins vegar ekkert, þar stendur einfaldlega: „[Þessu plássi er meðvitað haldið auðu. Þetta voru fullkomlega hræðilegar kappræður sem gerðu ekkert til þess að upplýsa almenning um frambjóðendurna tvo og hvað þeir myndu gera ef þeir fengju fjögur ár til þess að þjóna sem forseti Bandaríkjanna. Þetta voru, án nokkurs vafa, alverstu kappræðurnar sem ég hef fjallað um í tvo áratugi í þessu starfi. Það, að þær hafi átt sér stað þegar meira en 200 þúsund Bandaríkjamenn hafa dáið úr Covid-19 og spár gera ráð fyrir því að fjöldi látinna tvöfaldist fyrir 1. janúar gerir skrípalætin enn meira sláandi og sársaukafull. Þarna var lýðræðinu gerður óleikur.“
Athugasemdir