Ungir Sjálfstæðismenn hafa nú blandað sér í umræðuna um stjórnarskrá Íslands, í kjölfar þess að stuðningsmenn nýrrar stjórnarskrár hafa safnað undirskriftum með herferð á samfélagsmiðlum, allt frá Facebook til TikTok undir myllumerkinu #hvar.
Í tilkynningu frá formanni Sambands ungra Sjálfstæðismanna (SUS), eru stuðningsmenn stjórnarskrársfrumvarps stjórnlagaráðs, sem birta meðal annars boðskap sinn á síðunni nystjornarskra.is, sakaðir um „upplýsingaóreiðu“ og útskýrt að því hafi SUS stofnað staðreyndavakt. Í staðreyndavaktinni er því meðal annars hafnað að þjóðin hafi kosið nýju stjórnarskrána og þá er því haldið fram að Alþingi sé að virða niðurstöður hennar, þótt þeim sé ekki fylgt efnislega.
„Með staðreyndavaktinni vill SUS leggja sitt af mörkum til að umræða um stjórnarskrármál sé byggð á því sem rétt er og finna má stoð fyrir á vef Alþingis og í öðrum opinberum gögnum en ekki á einstaka skoðunum eða rangfærslum.“
Segja þjóðina ekki hafa samþykkt stjórnarskrána
Meðal þess sem stuðningsmenn nýrrar stjórnarskrár hafa byggt kröfur sínar á, er að almenningur hafi samþykkt nýju stjórnarskrána í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í þjóðaratkvæðagreiðslu sem haldin var 20. október 2012 var niðurstaðan að 66,9% vildu „að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá“, en 33,1% voru því andvíg.
Á staðreyndavakt SUS kemur fram að þjóðin hafi ekki „kosið nýju stjórnarskrána“.
„Nei, kosið var í ráðgefandi atkvæðagreiðslu hvort þú vildir að tillögur stjórnlagaráðs yrði lagðar til grundvallar frumvarpi um nýja stjórnarskrá,“ segir í staðreyndavaktinni. Þá segir í staðreyndavaktinni að það sé rangt að Alþingi hafi ekki virt þjóðaratkvæðagreiðsluna. „Jú, skýrt var í öllum upplýsingum fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna að hún væri einungis ráðgefandi en ekki lagalega bindandi fyrir Alþingi“.
Saka stuðningsmenn um „upplýsingaóreiðu“
Þá fullyrðir SUS að stuðningsmenn stjórnarskrárinnar hafi kynnt nýju stjórnarskrána sem „lausn alls þess sem teljast má pólitískt bitbein í íslensku samfélagi“.
„Samtök eins og Stjórnarskrárfélagið og Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá berjast fyrir upptöku og lögfestingu tillagna stjórnlagaráðs og byggja þá baráttu að mestu á rangfærslum. Samfélagsmiðlaherferð var hleypt af stað á dögunum þar sem þekktir Íslendingar bera margar rangfærslur á borð og lögfesting „nýju stjórnarskrárinnar“ kynnt sem lausn alls þess sem teljast má pólitískt bitbein í íslensku samfélagi. Er þetta til þess fallið að afvegaleiða umræðu um stjórnarskrármál og ýta undir misskilning og upplýsingaóreiðu.“
Veronika Steinunn Magnúsdóttir, formaður Heimdallar, Félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, skrifaði grein í Vísi fyrir helgi þar sem hún kvartaði undan því að stuðningsmenn við nýja stjórnarskrá stjórnlagaráðs tækju ekki tillit til þess að samkvæmt núgildandi stjórnarskrá sé Alþingi með vald yfir stjórnarskránni og kjósa þurfi tvisvar til að samþykkja stjórnarskrárbreytingu.
Stuðningsmenn nýrrar stjórnarskrá, til dæmis Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, og Viktor Orri Valgarðsson stjórnmálafræðingur, sögðu hins vegar að ekki væri efast um það.
Þá reiknar Veronika sér til að einungis 31% hafi samþykkt tillögur stjórnlagaráðs sem grundvöll nýrrar stjórnarskrár, en í reikningsdæminu dregur hún frá þá sem ekki tóku þátt í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
„31% er ekki öll þjóðin,“ skrifaði hún. „Hin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla árið 2012 telst ekki með. Það að 66,9% þeirra sem kusu hafi samþykkt að hin nýja stjórnarskrá yrði lögð til grundvallar breytinga á stjórnarskrá, telst ekki með. Þessar tillögur voru í raun samþykktar af 31% kosningabærra manna. Það getur varla rímað við þær yfirlýsingar sem heyrst hafa víða, um að þjóðin hafi lagt blessun sína yfir plaggið.“
Loks segir Samband ungra sjálfstæðismanna að þjóðin geti ekki skrifað texta og hafi því ekki samið stjórnarskrána. „Nei. „Þjóðin“ semur ekki texta.“
Stjórnarskrá samin af þjóðkjörnu ráði
Aðdragandinn að mótun nýrrar stjórnarskrár má rekja til fimmta áratugs síðustu aldar, þegar hávær krafa var um að Íslendingar semdu sína eigin stjórnarskrá, enda hafi stjórnarskrá lýðveldisins að mestu verið afrit af dönsku stjórnarskránni. Lagt var til, meðal annars af Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki, að stjórnarskrá yrði samin af sérstöku stjórnlagaþingi, enda væru alþingismenn sjálfir með hagsmuni af stjórnarskrá.
Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur samþykkti síðar að boða til þjóðfundar árið 2010, þar sem tæp eitt þúsund manns, valin af handahófi, kæmu saman til að leggja drög að vinnu stjórnlagaþings, sem ætti að taka til starfa árið eftir. Í verkahring þjóðfundar var meðal annars að skilgreinda sameiginleg gildi og hugsjónir þjóðarinnar. Í kjölfarið var kosið um 25 meðlimi stjórnlagaþings, en um 500 manns buðu sig fram. Eftir að Hæstiréttur úrskurðaði að framkvæmd kosninganna hefði ekki farið að lögum, meðal annars vegna þess að ekki voru notaðir kjörklefar, ákvað stjórnarmeirihlutinn á Alþingi að velja sömu fulltrúa í stjórnlagaráð, sem myndi semja frumvarp til laga fyrir Alþingis að nýrri stjórnarskrá Íslands. 114.570 manns greiddu gild atkvæði í kosningunni, eða 48,4% allra á kjörskrá.
Alþingi hefur boðað til fjögurra ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslna frá árinu 1908. Þátttaka í þeim hefur verið frá 43,8% til 71,5%. Aðeins einu sinni hefur Alþingi kosið að fylgja ekki niðurstöðunum efnislega, en það var í kosningum um frumvarp stjórnlagaráðs til nýrrar stjórnarskrár árið 2012.
Nú stendur yfir vinna á Alþingi við að uppfæra afmarkaða hluta núgildandi stjórnarskrár.
Hér má sjá Staðreyndavakt um stjórnarskrána, undir ritstjórn stjórnar Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Á síðunni Ný stjórnarskrá má hins vegar sjá boðskap þeirra sem styðja nýja stjórnarskrá.
Athugasemdir