I
Í ágúst boðaði heilbrigðisráðuneytið til samráðsfundar þar sem markmiðið var að móta „áherslur og leiðarljós“ fyrir ákvarðanir og aðgerðir vegna COVID-19 á komandi misserum. Yfirskrift fundarins var Að lifa með veirunni og var haft á orði við undirbúning hans að víðtækt samráð í samfélaginu væri nauðsynlegt. Ætlunin er að sú vinna sem fram fór á fundinum verði rækilega kynnt til að gefa sem flestum tækifæri til að koma skoðunum sínum og viðhorfum á framfæri. Mér þótti vænt um að vera boðið að vera framsögumaður á fundinum. Sjálfur leit ég ekki á að þarna væri tækifæri fyrir mig að koma mínum eigin skoðunum á framfæri um hvernig við ættum sem samfélag að lifa með veirunni. Í mínum huga var þetta tækifæri til að ræða um hvers vegna svona samráð sé æskilegt og hver sé tilgangurinn með því.
Titillinn sem ég valdi mér var „Að lifa heimspekilega með veirunni“. Ég get ímyndað mér að einhverjum hafi þótt lítið til þess titils koma. Að taka einhverju heimspekilega merkir yfirleitt að láta það yfir sig ganga eða taka því af yfirvegun en án þess að gera nokkuð til að bæta aðstæður eða ástand. En það var ekki það sem ég átti við. Titillinn vísaði ekki til þess að nú þyrftum við að setjast niður hvert í sínu horni og hugleiða okkar gang. Og enn síður vísaði hann til þess að nú væri stund heimspekinga runnin upp því þeir væru svo vel til þess fallnir að bregðast við kvíðavænlegum áskorunum. Titillinn vísaði fremur til þess hvernig við sem samfélag getum valið að takast á við hluti á heimspekilegan máta með samræðu.
En það reyndist fjarri því auðvelt að finna rétta flötinn á því sem mig langaði til að tala um. Á laugardeginum fyrir samráðsfundinn rofaði þó til í höfðinu á mér þegar ég las mjög gott viðtal í Fréttablaðinu við Egil Helgason þar sem hann ræddi meðal annars um viðhorf sín og afstöðu til þess ástands sem hefur skapast á tímum COVID-19. Mér fannst viðtalið sýna fram á mikilvægi fjölmiðla á tímum sem þessum. Þótt Egill sé landsþekktur maður þá er hann eins og við flest áhorfandi á ástandið og það er ómetanlegt að eiga svona heimild um hvernig almenningi leið og hvað fór í gegnum huga þess á þessum tíma. Sá punktur í viðtalinu sem ýtti mér helst af stað við undirbúning framsöguerindisins var að Egill nefndi að hann væri „þreyttur á frasanum að lifa með veirunni“. Mér fannst það góð áminning um hvernig það er verkefni okkar allra að láta þetta verða einhvers konar leiðarljós í samfélaginu frekar en dauðan frasa.
Frasar eins og þessir spretta ekki fram fullskapaðir og með geirneglda merkingu. Mig grunar að á þessum tímapunkti leggjum við öll ólíkan skilning í hvað það merkir að við ætlum að lifa með veirunni. Hverjir eiga þá að segja okkur hvað þetta merkir? Er hægt að fá skilgreiningu frá einhverjum opinberum aðila? Að mínum dómi er of mikið í húfi að þessu sinni. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að skapa merkingu í aðstæðum sem þessum. Hvorki fræðimenn í háskólum né starfsfólk opinberra stofnana geta sagt okkur hvaða skilningur getur orðið sá sem sátt næst um.
Þessi skilningur mun koma fram ef við gefum honum rými til þess. Hvernig nákvæmlega það gerist er líklega erfitt að segja til um enda engin þörf á að stýra því of mikið. Við sjáum fyrstu skrefin tekin að undanförnu. Sífellt fleiri aðilar með sérfræðiþekkingu og reynslu hafa komið fram og tekið þátt í umræðu sem fyrir nokkrum vikum var eingöngu á borði annarra. Um það leyti sem þessi grein birtist verða svo vafalaust önnur dæmi meira áberandi, en ég nefni hér tvö dæmi. Fyrra dæmið er hvernig hagfræðingar við Háskóla Íslands, þau Gylfi Zoëga og Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, komu fram og settu fram hagfræðilegt mat á þeim aðgerðum sem farið var í til að stýra komu útlendinga, einkum ferðamanna, til Íslands í sumar. Hitt dæmið kemur úr andstæðri átt, ef svo má að orði komast, en þar á ég við gagnrýni Sigríðar Andersen á hertar aðgerðir sem síðar var gripið til. Hér skiptir engu máli hvort maður er sammála þessu fólki eða ekki, heldur skiptir það mestu að maður beri kennsl á gagnrýnar og málefnalegar spurningar sem nauðsynlegt er að komi fram.
Nú kann einhver að segja að það komi ekki á óvart að heimspekimenntað fólk fagni því að samræða fari fram. Oft er þá einnig stutt í að farið sé háðulegum orðum um það sem kallað hefur verið samræðusiðfræði. Er þá gjarnan gefið í skyn að hún snúist nú mest um blaður út í loftið. En því fer fjarri. Minn skilningur á henni er fyrst og fremst sá að þarna sé um að ræða tiltekinn lýðræðisskilning. Slíkur skilningur snýst fyrst og fremst um að rými sé til staðar í samfélaginu fyrir upplýst skoðanaskipti. Og slíkur skilningur er raunar geysilega mikilvægur á tímum sem mörgum verður tíðrætt um að ákvarðanir undanfarið hafi ekki verið nægilega lýðræðislegar. Mér finnst það takmarkaður skilningur á lýðræði að hugsa sífellt um kosningar og kjörna fulltrúa. Lýðræði hlýtur að snúast um meira en það.
Og það er raunar mín skoðun að samræðusiðfræði geri ráð fyrir því að við vissar aðstæður séu það þeir sem best vita, sérfræðingar, sem eigi að taka ákvarðanir. Það séu lýðræðislegar ákvarðanir. Í raun má segja að Ísland hafi farið þá leið undanfarið með því láta löggu og lækna „úti í bæ“ (eins og sumum finnst sniðugt að segja), leiða ákvarðanatöku. Hér er ekki um neitt ólýðræðislegt framsal á valdi að ræða. Slíkt sérfræðingaveldi er hins vegar aðeins sjálfbært til skamms tíma. Eins og áður sagði geta slíkir sérfræðingar ekki sagt til um hvaða merkingu við leggjum í að ætla að lifa með veirunni. Slíkt kallar á annars konar og ítarlegri samræðu.
II
Á hátindi faraldursins hér á landi, um síðastliðna páska, átti ég langa og góða samræðu við mann sem hefur staðið framarlega í viðbrögðum okkar. Eins og oft gerist þegar samræður fá nægjanlegt rými, þá gekk ég ákaflega hugsi af fundi okkar. Þegar heim var komið skrifaði ég grein um það sem leitaði á huga minn. Nefndi ég hana „Ég hugsa um að ég hugsi um“, enda var hún nokkurs konar listi um þær spurningar sem ég vissi að myndu brenna á mér í sumar. Og sú varð raunin. Í sumar hef ég reynt að ná skipulega utan um atriði eins og hvort okkur beri gæfa til að sýna umburðarlyndi, hvort traust til hins opinbera styrkist á ný, hvernig vísindarannsóknir á heilbrigðissviði eigi að fara fram við þessar aðstæður og hvernig það gerðist að svo mikið hefur molast úr atvinnuöryggi fólks á síðastliðnum árum. Hafa verið teknar einhverjar meðvitaðar ákvarðanir um að taka upp það gigg-hagkerfi sem er raunveruleiki svo margra í samtímanum?
Mest hef ég þó hugsað um misskiptingu. Annars vegar um það hvað muni verða um allt það fjármagn sem reynt er að dæla inn í hagkerfi heimsins til að halda því gangandi. Mun það lenda á hefðbundnum stöðum án þess að rétta hlut þeirra sem mest munu þurfa á því að halda? Hitt atriðið varðandi misskiptingu eru þær hörmungar sem munu blasa við þegar faraldurinn hefur gengið yfir. Hann hefur farið verst með þá sem voru veikastir fyrir. Bæði með beinum hætti og einnig óbeinum með efnahagslegum hamförum. Fréttir berast varla af því hingað þessi misserin en afleiðingarnar hafa verið slíkar fyrir margar þjóðir að við getum vænst meiri straums flóttafólks í náinni framtíð en við höfum áður séð.
„Við getum vænst meiri straums flóttafólks í náinni framtíð en við höfum áður séð“
Hér er ekkert rými til annars en að endurtaka þessi atriði og niðurstöður mínar verða að bíða annarrar greinar. Það sem ekki er hægt að láta hjá líða að nefna er hvernig COVID-19 dregur fram bresti í samtímanum. Ástand eins og það sem hefur skapast varpar ljósi á mistök okkar í aðdragandanum. En þrátt fyrir að margt af því sem miður hefur farið í heims- og samfélagsskipan undanfarna áratugi blasi nú óþægilega við okkur þá þráum við flest hið eðlilega líf að nýju. Er það rangt? Eigum við að hafa samviskubit yfir því að óska okkur að allt verði eins og það var þegar það blasir við að margt var í ólagi? Varla. Auðvitað er ríkt tilefni til að laga brotalamir þegar faraldurinn gengur niður en við getum ekki álasað okkur fyrir að vilja lifa sæmilega eðlilegu lífi að nýju. Það eru fá óáþreifanleg gæði jafn dýrmæt og geta um frjálst höfuð strokið. Ég kann ekki að leggja mat á þau gæði, til þess höfum við hagfræðinga, en þau hljóta að teljast einhvers konar grunngæði sem við þurfum að miða við.
Til þess að fá fram einhvers konar sameiginlegan skilning á því hvað felist í því að lifa með veirunni þá þurfum við öll að ræða hvenær og við hvaða aðstæður má takmarka eðlilegt líf okkar. Flest sættum við okkur við þau úrræði sem mælt er fyrir við neyðarástand. En eftir því sem ég best veit þá stendur ekki til, að öllu óbreyttu, að búa við neyðarástand hér á Íslandi. Mér skilst að það sé einmitt hugmyndin núna að ræða hvernig við ætlum að lifa með veirunni þar sem við verðum stödd í ástandi sem liggur einhvers staðar milli neyðarástands og eðlilegs ástands. Verkefnið fram undan er að við munum öll þurfa að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hver næstu skref verða. Það er til að mynda erfitt að þrífast í of flóknu regluumhverfi. Til að geta lifað með veirunni þurfum við að skilja anda þeirra reglna og laga sem sett eru til að ramma inn tilveru okkar. Og sá andi verður ekki lærður nema fram fari samræða innan samfélagsins um hver hann sé. Það er samfélagið sjálft sem skapar í raun slíkan skilning á anda laganna.
Í nokkra áratugi hafa meginreglurnar verið þær að tryggja sjálfræði einstaklinga og athafnafrelsi innan samfélagsins
Samræða um til hvers er ætlast af okkur af samfélaginu fer fram eftir þeim siðferðilegu meginreglum, eða prinsippum, sem liggja ákvarðanatökunni til grundvallar. Þau hafa verið – og verða vonandi áfram – nokkuð önnur núna 2020 en þau hafa verið. Í nokkra áratugi hafa meginreglurnar verið þær að tryggja sjálfræði einstaklinga og athafnafrelsi innan samfélagsins. Í raun má segja að þar sem vel hefur tekist til með viðbrögð við COVID-19 hafa nokkurs konar andstæður þessara tveggja meginreglna fengið aukið vægi. Í stað sjálfræðis hefur umhyggja styrkst. Og í stað þess að standa einungis vörð um athafnafrelsi og tækifæri hefur fókusinn snúist að þeirri fornu og mikilvægu meginreglu að valda ekki skaða. Hér er ekki pláss til að fara út í nákvæmlega hvernig reyna má að valda ekki skaða í ljósi aðstæðna. Eitt dæmi verður að duga. Óvissa er dæmi um eitthvað sem getur valdið töluverðum skaða í samfélaginu. Það er hægt að minnka hana með því að auka gagnsæi í ákvarðanatöku, eins og reynst hefur vel á Íslandi. Næstu skref geta hins vegar reynst flóknari. Samráð og góðir tímanlegir fyrirvarar á aðgerðum minnka óvissu. Ég er ekki í vafa um að margir munu kalla eftir því ef okkur á að lánast að lifa með veirunni.
Næstu misseri munu skera úr um hvernig til tekst. Munum við nýta aðstæðurnar til að skapa réttan vettvang og fá fram raunverulegt samráð? Við höfum lært það á þessu ári hvernig áskorunin sem allar þjóðir standa andspænis getur annaðhvort eyðilagt eða eflt samfélagsvitund. Viðbrögðin núna fyrstu vikur haustsins munu skera úr um hver niðurstaðan verður. Hingað til höfum við farið í gegnum þau stig sem nauðsynleg eru. Meðan ekki var ljóst hvert stefndi var ekki hjá því komist að við leituðum sem samfélag til þeirra sem best voru að sér. En nú er komið að því að við þurfum að ná samkomulagi. Það þýðir ekki að við verðum öll sammála en ólíkar málefnalegar skoðanir eru ekki vandamál þegar við skiljum öll hvað felst í niðurstöðunni. Á meðan það að lifa með veirunni er tómur frasi sem leiðbeinir okkur ekki þá verð ég að taka undir með Agli Helgasyni.
Athugasemdir