Í huga mínum er hamingjan ekki bara einn hlutur eða ein tilfinning. Hamingjan er hjá manni sjálfum og það er enginn annar sem býr til hamingjuna fyrir mann.
Hamingja er oft hugarástand og þegar maður er hamingjusamur sér maður fegurðina og ástina sem umlykur mann og hamingjan verður meiri og sterkari.

Ég held að það sé frábært að geta vaknað á hverjum morgni og ákveðið að vera hamingjusamur.
Mín mesta hamingja er að sjá börnin mín og barnabörn verða hamingjusamir og heilbrigðir einstaklingar og felst hamingja mín í góðu og ástríku sambandi við þau.
Hamingjuna finn ég sjálf meðal annars úti í náttúrunni með skynjun lita, lyktar og hljóðs, enda hef ég lagt áherslu á að mála málverk sem gleðja.
Hamingja tengist því að taka við væntumþykju og ást frá fólkinu sínu og með að virða/elska jörðina okkar og öll dýr sem og að hlusta á almættið. Hamingjan tengist líka því að gefa og kunna að þiggja.
Veraldleg gæði eru hverful og því er heillavænlegt að hlúa að öllu lifandi með þakklæti og ekki taka góðri heilsu sem sjálfsögðum hlut.
Hamingja er ástand sem þarf að rækta og viðhalda, eins og jörðina okkar, og það þarf að grípa fegurðina í öllu lifandi.
Að vera hamingjusamur er eilífðarverkefni. Hamingjan kemur og fer eftir því hvað maður leggur á sig til að öðlast hana. Ef maður nær að lifa í sátt við sig og sínar ákvarðanir eykur það hamingjuna.
Hamingja felst í því að leysa verkefni. Að gefast ekki upp þó að maður lendi á vegg. Ég er hamingjusömust þega mér tekst að láta hugmynd verða að veruleika. Önnur hamingja felst svo í líkamlegri áreynslu og ég hef gaman af því að reyna á þolmörkin því það er svo góð tilfinning eftir á. Mesta hamingjan er samt líklega að geta deilt raunum sínum, góðum og slæmum, með manneskju sem maður elskar.
Athugasemdir