Athugið að hér er hlekkur á þrautina frá í gær.
***
Að venju snúast spurningarnar um eitt og sama efnið, þegar tala þrautar endar á núlli.
(Nema ein í þetta sinn, sjá hér að neðan.)
Nú er klassísk tónlist það sem allt snýst um, en menn þurfa þó ekki að vera miklir sérfræðingar til að ráða við spurningarnar flestar.
***
Fyrri aukaspurning.
Hvaða tónskáld er á myndinni hér að ofan?
***
1. Hver samdi „Hetjusinfóníuna“ svokölluðu, eða „Eroica“, eins og hún er kölluð á erlendum málum, en var í rauninni þriðja sinfónía hans af níu?
2. Á 18. öld var uppi tónlistarmaður í Þýskalandi sem var lengi kantor eða tónlistarstjóri við menntastofnun í Leipzig og orgelleikari við kirkjur þar í borg. Hann samdi gríðarlega mikið af allskonar kirkjulegri tónlist, sem margir telja allt að því guðlega að fegurð. Margir sona hans fetuðu í fótspor hans og gerðust tónskáld. Enginn sonanna komst þó í hálfkvisti við gamla manninn. Hvað hét hann?
3. „Menúett og tríó í g-dúr“ er það kallað, fyrsta verk frægs tónskálds, sem hann (já, náttúrlega var það hann) samdi á verulega ungum aldri. Hvaða tónskáld var það?
4. Hver samdi „Óðinn til gleðinnar“?
5. Johann Strauss yngri var austurrískt tónskáld sem samdi víðfrægan vals sem hann nefndi eftir fljóti nokkru sem hann hafði einlægt fyrir augunum. Hvað heitir þessi vals?
6. Hver samdi óperurnar „Siegfried“, „Parzifal“, „Ragnarök“, „Valkyrjurnar“, „Rínargull“ og fleiri?
7. Hver samdi óratoríuna „Messías“ sem frumflutt var 1742?
8. Hver samdi smáverkið „Für Elise“ á píanó?
9. „Árstíðirnar fjórar“ eru í raun fjórir fiðlukonsertar eftir ...?
10. Sárafáar konur komust í fremstu röð klassískra tónskálda, þótt auðvitað störfuðu þær að tónlist og tónsköpun. Ein þýsk kona fæddist í byrjun 19. aldar og gerðist píanóleikari. Hún vann mjög náið með bróður sínum, sem einnig var píanóleikari og tónskáld, og þegar hún fór að semja sín eigin verk gaf hún þau gjarnan út undir nafni bróðurins. Hún lést aðeins rúmlega fertug og það leið á löngu uns raunveruleg staða hennar sem prýðis tónskáld varð ljóst. Hvað hét þessi kona?
***
Síðari aukaspurningin er sú eina, sem ekki snýst um klassísk tónverk eða tónskáld.
Myndin hér að neðan er birt vegna þess að þessi karl á afmæli í dag, hann er 31s árs frá og með þessum degi.
Hvað heitir hann?
***
Svör við aðalspurningum:
1. Beethoven. Hér er þessi tilþrifamikla sinfónía.
2. Bach. Hér er „aría“ úr Hljómsveitarsvítu númer 3, gengur oftast undir nafinu „air“.
3. Mozart. Hann var fimm ára þegar hann samdi þetta verk. Hlýðið á það hér.
4. Beethoven. Hér er óðurinn fluttur á fremur óhefðbundinn hátt.
5. „Dóná svo blá.“ Hér er valsinn góði.
6. Richard Wagner. Hér má heyra fræga notkun á forleiknum að Valkyrjunum.
7. Händel. Hér er örstutt brot.
8. Beethoven. Hér er Elísa.
9. Vivaldi. Hér má hlýða á Árstíðirnar hans.
10. Fanny Mendelssohn. Hér er Páskasónata hennar.
***
Svarið við fyrri aukaspurningu er ... Mozart.
Svarið við seinni aukaspurningu er Thomas Müller, sóknarmaður hjá Bayern München. Hér má sjá nokkur verka hans.
***
Athugasemdir