Á hverjum vinnudegi fá helstu einkareknu fjölmiðlar landsins um milljón krónur hver í framlag frá eigendum sínum, sem stundum eru augljósir hagsmunaaðilar. Þetta þýðir að tilvist helstu fjölmiðla landsins, sem hafa lykilhlutverk í lýðræðinu, er háð velvild og tiktúrum tiltekinna auðmanna.
Á sama tíma hafa hagsmunaaðilar, eins og Samherji, keypt sitt eigið ritstjórnarefni sem hentar hagsmunum þeirra betur en sjálfstæð blaðamennska. Þannig hafa mörk ritstjórnarefnis og markaðsefnis afmáðst.
Að kaupa sér umfjöllun
Slóð Samherja liggur víða.
Tvö brot á fjölmiðlalögum hafa tengst Samherja eða eiganda Samherja undanfarið. Brotin snerust um að fréttaumfjöllun var seld til hagsmunaaðila.
Önnur umfjöllunin, sem birt var á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, snerist um rannsókn Seðlabankans á Samherja. Handvaldir voru viðmælendur hliðhollir Samherja og niðurstaðan var auðvitað sú að eftirlitið væri að brjóta á þeim. Þá var sérstaklega fjallað um embættismanninn Má Guðmundsson, þáverandi seðlabankastjóra, sem forstjóri Samherja, Þorsteinn Már Baldvinsson, hefur ítrekað sagt að eigi að fara í fangelsi fyrir að rannsaka Samherja. Í þættinum var birt leyniupptaka Þorsteins af samtali hans við Má. Ári síðar átti sonur Þorsteins og einn helsti stjórnandi í félögum Samherja, eftir að segja Má að „drulla sér í burtu“ þegar hann reyndi að taka í hönd Þorsteins í húsnæði Alþingis.
Hinni umfjöllun Hringbrautar var ætlað að hafa áhrif á íbúakosningu í sveitarfélaginu Árborg.
Í nýjasta tölublaði Stundarinnar er greint frá því að helsti fjárfestirinn að baki nýjum miðbæ á Selfossi er annar tveggja stærstu eigenda Samherja, Kristján Vilhelmsson, einn ríkasti Íslendingurinn.
Skömmu fyrir íbúakosningu á Selfossi vegna skipulagshugmynda sem byggðu á samningum við verktaka, fjármagnaða af Kristjáni í Samherja, braut sjónvarpsstöðin Hringbraut lög með því að birta þátt um skipulagstillöguna, og fá borgað fyrir það frá sömu aðilum, án þess að greina frá því. Lögunum er ætlað að „vernda upplýsingarétt almennings, enda brýnt að almenningur geti mótað skoðanir sínar og dregið ályktanir út frá réttum og hlutlausum upplýsingum“, eins og segir í úrskurði Fjölmiðlanefndar.
Fyrir íbúakosninguna, sem haldin var átta dögum eftir sýningu seldu umfjöllunarinnar, hafði aðkoma Kristjáns í Samherja ekki verið uppi á borðunun. Ekkert er minnst á hann í kynningarefni fasteignafélagsins. Tæplega 90 fasteignir og lóðir á Selfossi eru í eigu félaga þar sem Kristján er stærsti bakhjarl.
Ísland er lítið land og tengingar víða. Þannig fór svo að einn helsti talsmaður nýja miðbæjarins, Eyþór Arnalds, sem var oddviti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Árborgar á árunum 2006 til 2014, átti eftir að fá fjórðungshlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins frá Samherja, án sýnilegrar greiðslu fyrir. Þetta hefur nú verið afskrifað í bókum Samherja. Sýnt var fram á viðskiptin í umfjöllun Stundarinnar.
Fjölmiðlafyrirtækið Hringbraut, sem hefur verið ítrekað sektað fyrir að selja fréttaumfjallanir, hefur nú sameinast útgáfufélagi Fréttablaðsins og DV.
Leynieigandinn var ríkasti Íslendingurinn
Af tilfallandi ástæðum komst upp að eitt helsta fjölmiðlafyrirtæki landsins, sem rak DV og fleiri vefmiðla, reyndist hafa verið fjármagnað á laun af ríkasta Íslendingnum, Björgólfi Thor Björgólfssyni. Þetta sýndi að þrátt fyrir að Fjölmiðlanefnd hefði það hlutverk að greina og tilkynna hverjir stæðu að baki íslenskum fjölmiðlum, er hún ófær um það. Margsinnis hafði komið fram að skráður eigandi DV, Sigurður G. Guðjónsson lögmaður, væri leppur, en talsmaður Björgólfs Thors svaraði spurningum þess efnis ósatt, þar til skýrsla Samkeppniseftirlitsins sýndi fram á hið rétta.
Björgólfur Thor, sem er metinn á 275 milljarða króna, fjármagnaði taprekstur DV í tæplega tvö og hálft ár með 920 milljóna króna vaxtalausu kúluláni, og var því huldueigandi.
Framlagið nemur vel yfir milljón krónum á hverjum degi. Milljón á dag frá eigendum virðist vera gullna reglan í íslenskum fjölmiðlum.
Útgáfufélagið Birtingur, sem hafði verið fjármagnað af Róberti Wessmann, helsta keppinauti Björgólfs Thors, tapaði 236 milljónum í fyrra, rétt tæplega milljón á hvern virkan dag. Útgáfufélagið Torg, sem gefur út Fréttablaðið, tapaði 212 milljónum króna.
Undanfarin ár hefur Útgáfufélag Morgunblaðsins tapað um milljón krónum á dag, samtals 291 milljón króna í fyrra. Það var í lagi, því 300 milljónir bárust frá Lýsi hf., þar sem útgerðarkonan Guðbjörg Matthíasdóttir á meirihluta.
Milljón á dag
Fólk getur ímyndað sér hvað er hægt að gera góða hluti í fjölmiðlum fyrir milljón krónur á hverjum degi. En það getur líka ímyndað sér hvaða ástæða getur rekið fjársterka aðila til þess að borga milljón á dag í botnlausu rekstrartapi.
Fyrir aðila eins og Samherja er þetta einfalt. Sjálfstæðir fjölmiðlar og eftirlit eru óvinir félagsins og því leggur Samherji út í kostnað við að sannfæra almenning um að einstaklingar sem starfa í eftirliti eða fjölmiðlum séu illviljaðir. Jafnvel þótt formlegu fjárhagslegu hagsmunirnir séu einmitt annars staðar. Blaðamaður fær engan bónus fyrir gagnrýnar fréttir. Þvert á móti skapar það fjölmiðlafólki frekar óþægindi að vinna gagnrýnar fréttir heldur en að ávinna sér velvild hagsmunaaðila.
Fyrrverandi fréttamaður RÚV lýsti þessu svona: „Þegar ég byrjaði í fréttamennsku á Akureyri var mér sagt að ef ég ætlaði að eiga einhvern séns í nýja djobbinu þá yrði ég að koma mér í mjúkinn hjá Þorsteini Má. Þetta var fyrir 15 árum og heilræðin komu frá reynslumestu fréttamönnunum á svæðinu.“
Fjölmiðlastyrkir renna til útgerðarinnar
Og nú ætlar ríkið að hlaupa undir bagga með fjölmiðlunum og leggja fram ríkisstyrki, sem minnka á endanum þörf hagsmunaaðila til að niðurgreiða fjölmiðla um samsvarandi upphæð.
Frumvarp um styrki til einkarekinna fjölmiðla að norrænni fyrirmynd var svæft á Alþingi í vetur í nefnd undir formennsku Páls Magnússonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Tilfellið var að stóru fjölmiðlafyrirtækin vildu fá meiri pening, vegna þess að þau tapa svo miklu. Þeim þótti 50 milljóna króna hámark, fjórar milljónir á mánuði fyrir hvert fjölmiðlafyrirtæki, vera of lágt. Enda eru þau vön að fá milljón á dag.
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra brást við umkvörtununum þegar ákveðið var að klára ekki málið á Alþingi, heldur að ráðherra skyldi skrifa reglugerð. Lilja hækkaði hámarkið í 100 milljónir króna og ákvað á móti að smærri fjölmiðlafyrirtæki fengju minna en hún hafði boðað í kynningu á frumvarpinu árið 2018.
Í tilfelli Morgunblaðsins verður niðurstaðan þannig að allt að hundrað milljónir króna færast frá skattgreiðendum til útgerðarfélaganna og tengdra aðila sem hafa lagt fram hundruð milljóna króna til rekstursins á ári hverju, samtals 2,5 milljarða króna á rúmum áratug.
Í umsögn sinni við frumvarp um styrki til einkarekinna fjölmiðla, að norrænni fyrirmynd, kvartaði útgáfufélag Morgunblaðsins undan „erfiðri og ósanngjarnri samkeppni við Ríkisútvarpið og erlenda miðla“. Án þess að nefna öll fjárframlögin til Morgunblaðsins frá útgerðinni, sem hindrar samkeppni annarra.
Spurningin er, hefði staða íslenskrar fjölmiðlunar orðið betri síðustu ár ef Björgólfur Thor hefði borgað 250 milljónum krónum minna af auðæfum sínum í að halda úti DV úr leyni, eða ef Guðbjörg Matthíasdóttir, Kaupfélag Skagfirðinga og hinir útgerðarmennirnir hefðu sloppið með að borga milljarði minna í rekstur Morgunblaðsins undir ritstjórn Davíðs Oddssonar?
Í reglugerð um ríkisstyrki er ákvæði að kröfu Evrópusambandsins sem leiðir af sér að fjölmiðlafyrirtæki fær ekki styrki hafi það „verið í fjárhagserfiðleikum“ undir lok síðasta árs. Fjölmiðlafyrirtæki telst hins vegar ekki hafa verið í fjárhagserfiðleikum ef það hefur tapað 2,5 milljörðum króna jafnt og þétt í áratug og fengið stöðugan fjárstuðning frá hagsmunaaðilum.
Um rekstur Stundarinnar
Útgáfufélagið Stundin tapaði 12,9 milljónum króna á síðasta ári. Árið 2018 var hagnaðurinn um tíu milljónir króna og 2017 var afkoman jákvæð um sex milljónir króna.
Stóran hluta ársins stóð yfir tímafrek vinna við svokölluð Samherjaskjöl, þar sem greind voru viðskipti útgerðarfélagsins Samherja í Namibíu, meðal annars millifærslur til stjórnmála- og embættismanna, ásamt notkun aflandsreikninga. Í rekstrinum á árinu 2019 var tekið mið af því að menntamálaráðherra hafði boðað rekstrarstyrki að norrænni fyrirmynd til einkarekinna fjölmiðla, sem gilda áttu fyrir síðasta ár, en vikið var frá þeirri útfærslu. Um þrír fjórðu hlutar rekstrartekna Stundarinnar koma frá almennum borgurum sem kaupa áskrift.
Í stað þess að leita til fjárfesta verður gripið til aðgerða til að tryggja jafnvægi í rekstri, samkvæmt þeirri grunnforsendu að sjálfbær rekstur er forsenda sjálfstæðrar ritstjórnar.
--
Fyrirvari um hagsmuni: Útgáfufélagið Stundin kemur til greina í úthlutun styrkja á grundvelli lagafrumvarps og reglugerðar um stuðning við einkarekna fjölmiðla, eins og önnur fjölmiðlafyrirtæki. Höfundur er starfsmaður og eigandi 12% hluta í Útgáfufélaginu Stundinni.
Athugasemdir