Árið 2020 er algjörlega fordæmalaust í mannkynssögunni. Vegna kórónuveirufaraldursins sem hefur farið um alla heimsbyggðina hefur fólk þurft að breyta sínu daglega lífi og aðlagast tveggja metra reglunni, fjarfundum og samkomutakmörkunum. Öllum helstu viðburðum ársins, eins og útihátíðunum sem áttu að fara fram um verslunarmannahelgina, Hinsegindögum og menningarnótt hefur verið aflýst. Já, og Íslandsmeistaramótinu í hrútadómum og sjálfu þuklaraballinu! Í raun á bara eftir að aflýsa árinu 2020 en líklega er allt of seint að aflýsa þessu ógeðsári. Við neyðumst til að klára þetta, krakkar.
Þannig hefur skemmtanalífið alls ekki farið varhluta af farsóttinni og afleiðingum hennar. Þegar samkomubannið var hvað harðast í vor var skemmtistöðum gert að loka. Sem gerði það að verkum að skemmtanahaldið færðist í heimahús. Helgi Björns sá um að keyra gleðina í gang en ef partíið stóð of lengi með tilheyrandi gleðilátum var hætta á að nágrannarnir hringdu í lögregluna sem varð aftur til þess að partíið endaði í dagbók lögreglunnar morguninn eftir. Og þú varst orðinn óvinsælasti nágranninn.
Komin heim klukkan sex með kaldan Hlölla
Svo voru gerðar tilslakanir á samkomubanninu sem varð til þess að skemmtistaðir gátu opnað á nýjan leik, með ákveðnum skilyrðum þó. Staðirnir máttu hafa opið til klukkan ellefu og fjöldi gesta fór eftir ákvörðunum sóttvarnayfirvalda um tilslakanir á fjöldatakmörkunum á hverjum tíma. Sem var mikil breyting frá því sem áður var þegar skemmtistaðir voru opnir til klukkan hálf fimm um helgar. Þeir allra hörðustu voru að skríða heim, með kaldan Hlöllabát, um klukkan sex.
Þegar ég var upp á mitt besta í skemmtanalífinu fyrir tíu árum hefði mér þótt gjörsamlega glatað að vera komin heim úr bænum upp úr miðnætti. Ég setti sjálfri mér þá undarlegu reglu að vera aldrei komin heim af djamminu fyrr en klukkan þrjú, í fyrsta lagi. Yfirleitt var ég ein af eftirlegukindunum í bænum eftir lokun.
„Ég segi öllum sem vilja heyra að þessi opnunartími henti okkur (lesist: okkur gamla fólkinu), sem viljum vera komin heim snemma, fullkomlega!“
Nú tíu árum seinna er ég orðin ráðsett húsmóðir í Fossvoginum sem hvorki nennir að vera á Tinder né að rápa á milli skemmtistaða klukkan fjögur á sunnudagsmorgni. Ég fæ hroll við tilhugsunina! Þess í stað finnst mér fínt að vera komin heim í kringum miðnætti og fara á skikkanlegum tíma í rúmið. Þess vegna er ég, gamla konan, hæstánægð með að skemmtistaðir skuli vera opnir til klukkan ellefu. Ég segi öllum sem vilja heyra að þessi opnunartími henti okkur (lesist: okkur gamla fólkinu), sem viljum vera komin heim snemma, fullkomlega!
Tækifæri til að endurskoða skemmtanalífið
Svona að öllu gamni slepptu þá má endurskoða opnunartíma skemmtistaða. Auðvitað er full snemmt að loka öldurhúsum bæjarins á slaginu tólf á miðnætti, enda verða alltaf til ofurdjammarar sem vilja skemmta sér lengur en það. Hins vegar hljótum við að geta komið okkur saman um einhvern milliveg á milli þess að fara heim um miðnætti eða fara heim undir morgun. Hvort sem öllu er lokað klukkan tvö eða þrjú. Eftirpartímenningin hverfur ekkert þó svo skemmtistöðum sé lokað fyrr. Ef fólk ætlar í eftirpartí á annað borð, þá fer það í eftirpartí.
Svo hlýtur að vera heillavænlegra að byrja að skemmta sér fyrr í stað þess að mæta dauðadrukkinn í bæinn klukkan hálf tvö eða tvö og muna lítið sem ekkert. Með smávægilegum breytingum væri hægt að bæta skemmtanamenningu Íslendinga og gera hana líkari því sem gerist í löndunum í kringum okkur.
En hvað veit ég svo sem, gamla konan í Fossvoginum.
Athugasemdir