Kynnisferðir eða Reykjavík Excursions, fyrirtækið sem rekur Flybus rútuferðirnar til og frá Keflavíkurflugvelli, hefur flutt komufarþega frá vellinum til höfuðborgarsvæðisins í morgun þrátt fyrir reglur sem embætti landlæknis kynnir. Þetta fékkst staðfest hjá afgreiðslu Flybus.
Samkvæmt upplýsingum embættisins um reglur sem gilda frá og með deginum í dag er óheimilt fyrir komufarþega á Keflavíkurflugvelli að taka strætisvagn eða rútu frá Leifsstöð. Komufarþegar geta nú valið um 14 daga sóttkví eða tvær sýnatökur. Sú fyrri er við landamærin, en sú síðari eftir 5 til 6 daga sóttkví.
„Frá því að farið er frá landamærastöð gilda reglur um sóttkví,“ segir í upplýsingum embættisins. „Þegar sýnatöku er lokið skal halda rakleiðis á sóttkvíarstað með einkabíl, bílaleigubíl eða leigubíl. Ef brýna nauðsyn ber til má gista eina nótt í sóttkví nærri landamærastöð áður en ferðast er til endanlegs dvalarstaðar í sóttkví.“
Kynnisferðir eru í meirihlutaeigu fjölskyldu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem oftast er kölluð Engeyjarættin. Félagið Alfa hf. á 65 prósent hlut í fyrirtækinu og eru stærstu hluthafar þess Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna, Guðríður Jónsdóttir, móðir Bjarna, Jón Benediktsson, bróðir Bjarna, Einar Sveinsson, föðurbróðir Bjarna, og börn Einars.
Samkeppnisaðilar Kynnisferða hafa ekki flutt komufarþega í dag. Airport Direct hefur stöðvað rútuferðir frá flugvellinum samkvæmt þjónustuveri og Strætó birti tilkynningu þess efnis í gær að komufarþegum væri óheimilt að nota almenningssamgöngur á leið sinni á sóttkvíarstað. Leið 55 stoppar við flugvöllinn.
Átta flug hafa lent á Keflavíkurflugvelli í morgun. Þrjú þeirra voru frá svæðum sem þar til í gær voru ekki skilgreind sem áhættusvæði, það er frá Danmörku, Noregi og Þýskalandi. Frá og með deginum í dag eru hins vegar öll lönd og svæði heims skilgreind sem slík.
Athugasemdir