Vera Íslands á gráa listanum yfir þau ríki sem ekki hafa gripið til fullnægjandi aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka varð til þess að hljómsveitin Hjaltalín fékk ekki greiðslu fyrir tónlist sína í byrjun ágúst.
Ísland var sett á gráan lista hjá FATF, alþjóðlegum fjármálaaðgerðahópi ríkja um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, í október í fyrra. Stjórnvöld mótmæltu niðurstöðunni, en hafa síðan fylgt aðgerðaráætlun til að láta fjarlægja landið af listanum.
Hjaltalín átti inni greiðslu hjá erlendu fyrirtæki sem sér um stafræna dreifingu tónlistar hljómsveitarinnar, sem nýverið gaf út nafnlausa plötu. „Við áttum inni pening hjá þeim en þau voru að breyta kerfinu hjá sér þannig að ég þurfti að setja aftur inn bankaupplýsingarnar okkar,“ segir Steinþór Helgi Arnsteinsson umboðsmaður. „Nema að þá er bara Ísland ekki inni í listanum sem er í boði. Spes að sjá nöfn eins og Sýrland, Sómalíu, Jemen og Súdan, lönd sem eru flokkuð sem þau spilltustu á jörðinni, á listanum en ekki Ísland, sem var í hóp með meðal annars Norður-Kóreu og Suður-Súdan, yfir lönd sem ekki voru á listanum.“
Í svörum frá fyrirtækinu kom fram að Ísland væri eitt af þeim löndum sem ekki ætti að senda pening til vegna hættu á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Steinþór segir að hljómsveitin þurfi að finna aðra leið til að þiggja greiðsluna.
„Mér finnst þetta aðallega sorglega grínlegt“
„Mér finnst þetta aðallega sorglega grínlegt,“ segir hann. „Við vorum bara að sækja okkur smá pening sem við áttum inni þarna úti, enda vorum við að gefa út plötu sjálf með tilheyrandi kostnaði. Og í þessu árferði er erfitt, eða réttara sagt ómögulegt að fjármagna sig með tónleikum.“
Vona að Ísland fari af listanum í október
Íslensk stjórnvöld telja sig hafa lokið þeim aðgerðum sem þarf til að fjarlægja Ísland af listanum. Var það staðfest á allsherjarfundi FATF í júní. „Á fundinum var einnig samþykkt samhljóða að fulltrúar sérfræðingahópsins muni koma til Íslands í vettvangsathugun til þess að staðfesta árangurinn,“ sagði í frétt á vef stjórnarráðsins 24. júní.
„Ekki hefur verið ákveðin endanleg dagsetning slíkrar athugunar, en stefnt er að því að vettvangsathugunin fari fram í byrjun september næstkomandi, að því gefnu að COVID-19 standi því ekki í vegi. Verði árangur Íslands staðfestur í vettvangsathuguninni má gera ráð fyrir að lögð verði fram tillaga um að Ísland verði tekið af svonefndum gráa lista FATF á fundi FATF í október,“ sagði einnig í fréttinni.
Athugasemdir