Andrés Ingi Jónsson þingmaður segir ríkisstjórnina hafa verið meðvitaða um aukinn kostnað þess að ráðast í samstarf með einkaaðilum í vegaframkvæmdum. Hann vísar í frétt RÚV um kostnaðarútreikninga FÍB, en framkvæmdastjóri félagsins lýsti því yfir að ríkið þyrfi að ráðstafa almannafé með betri hætti.
Andrés segir upphæðirnar sláandi í færslu á Facebook síðu sinni. „FÍB reiknar hér út hversu mikið dýrara það er að fá einkaaðila inn í vegaframkvæmdir með ríkinu, frekar en að ríkið standi einfaldlega sjálft að því að byggja upp þessa grunninnviði. Þessar tölur eru sláandi en ættu ekki að koma neinum á óvart.“
Hann segir skýrslur um kostnað slíkra verkefna hafa legið fyrir. „Það kom skýrt fram í frumvarpi samgönguráðherra og nefndaráliti meirihlutans að reynslan í Evrópu hafi verið sú að samvinnuverkefni hafi kostað 20–30% meira en verkefni fjármögnuð af ríkissjóði.“
Þingmenn meðvitaðir um auka kostnað
Í nýrri samgönguáætlun til 15 ára er fjallað um samvinnu ríkis og einkaaðila hvað varðar fimm framkvæmdir, auk Sundabrautar. Þessar framkvæmdir eru tvöföldum Hvalfjarðarganga, ný Ölfusársbrú, göng í gegnum Reynisfjall, ný Hornafjarðarbrúar og Axarvegur.
Andrés er afdráttarlaus um að þingmenn sem samþykktu fjármagn þessarar aðferðar hafi vitað að hún yrði dýrari. „Þeir þingmenn sem samþykktu að fjármagna þessar fimm vegaframkvæmdir í samvinnu ríkis og einkaaðila voru fullkomnlega meðvitaðir um að sú leið væri dýrari, eins og FÍB bendir á í þessari frétt.“
Hann segir marga hafa bent á að aukin framlög til samgöngumála væru eðlilegri leið, en hafi afstaða stjórnarliða verið að „ljóst“ væri að brýn verkefni myndu ekki komast til framkvæmda án annarra fjármögnunarleiða.
„Það eina sem er „ljóst“ er að stjórnarflokkarnir ákváðu að hleypa einkaaðilum á spenann á milli almennings og ríkissjóðs, með tilheyrandi viðbótarkostnaði fyrir almenning,“ segir Andrés.
Athugasemdir