Ferðamálastofa hefur fengið nokkrar ábendingar um fyrirtæki sem ekki hafa þegið Ferðagjöf sem greiðslu, þrátt fyrir að hafa skráð sig til leiks. Engin viðurlög eru við því ef fyrirtæki þiggur ekki gjöfina.
Ferðagjöf stjórnvalda felur í sér 5.000 króna upphæð til að nota hjá fyrirtækjum í innlendri ferðaþjónustu. Fyrirtæki skrá sig sérstaklega til þátttöku á vefnum Ísland.is og hafa þrjár leiðir til að taka á móti Ferðagjöfinni, með því að skanna strikamerki úr Ferðagjafar-appinu, slá inn númer gjafabréfs í vafra eða beintengja við bókunarkerfi. Leiðbeiningar um slíkt eru á vef Ferðagjafarinnar.
Í svari Ferðamálastofu við fyrirspurn Stundarinnar kemur fram að í mörgum tilvikum hafi ábendingar frá fólki verið á misskilningi byggðar. „Í flestum tilvikum er um að ræða fólk sem heldur að öll fyrirtæki sem birtast á Ferðalag.is taki á móti Ferðagjöfinni,“ segir í svarinu. „Hið rétta er að Ferðalag.is birtir gagnagrunn Ferðamálastofu yfir öll ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi, hvort sem þau taka á móti Ferðagjöfinni eða ekki.“
Bendir Ferðamálastofa á að þau fyrirtæki sem taki á móti Ferðagjöfinni séu sérmerkt á vefsíðu Ferðagjafarinnar. „Við erum að reyna að gera eins skýrt og við getum hvaða fyrirtæki hafa skráð sig til að taka á móti Ferðagjöfinni, en því miður eru enn einhverjir sem fara inn á Ferðalag.is og halda að það sé yfirlit yfir alla staði sem hægt er að nota Ferðagjöfina,“ segir í svarinu.
„Við höfum einnig heyrt um að fyrirtæki sem eru skráð hafi neitað að taka á móti Ferðagjöfinni, en þau tilvik eru talin á fingrum annarrar handar,“ segir ennfremur. „Fyrirtæki skrá sig sjálf til leiks og er gengið út frá því að þar af leiðandi hafi þau áhuga á að taka á móti Ferðagjöfinni. Líklega er um að ræða tilvik þar sem starfsfólk hefur ekki verið nægjanlega vel upplýst þegar fyrirtækið hefur verið skráð til leiks og um einhverja byrjunarörðugleika að ræða. Ferðamálastofa mun brýna til allra fyrirtækja að hafa starfsfólk sitt vel upplýst svo að þetta komi ekki fyrir.“
Í svarinu kemur fram að einungis fyrirtækin sjálf geti veitt aðstoð ef viðskiptavinum er hafnað þegar þeir reyna að borga með Ferðagjöfinni. „Fyrirtæki skrá sig til leiks á eigin ábyrgð. Ef að fyrirtæki neitar að taka á móti Ferðagjöfinni þrátt fyrir að hafa skráð sig til leiks, getur Ferðamálastofa veitt fólki staðfestingu á því að viðkomandi fyrirtæki hafi verið skráð en að öðru leyti þarf fólk að leita til viðkomandi fyrirtækis.“
Athugasemdir