Við tökum lýðræðinu sem sjálfgefnu. Svo sjálfgefnu að á síðasta áratug síðustu aldar lagði virtur fræðimaður, Francis Fukuyama, fram kenninguna um endalok sögunnar; að mannkynssögunni væri í reynd lokið með sigri markaðshagkerfisins og vestræns lýðræðis. Þetta var útbreitt viðhorf vegna falls „kommúníska“ heimsveldis Sovétríkjanna. En síðan þá hefur annað yfirlýst kommúnistaríki risið upp og stefnir hraðbyri í að fara fram úr Bandaríkjunum sem stærsta efnahagssvæði heims mælt í landsframleiðslu.
Afsprengi lýðræðisins
Eftir standa margir vel meinandi lýðræðissinnar með spurningu sem rammar inn tilvistarkreppu lýðræðisins í samtímanum: Hvers virði er lýðræði sem leiðir yfir okkur Donald Trump sem valdamesta mann heims?
Ásýnd lýðræðisins sem hins göfuga, endanlega stjórnskipunarforms mannkyns hefur versnað á síðustu árum. Orsökin er að stórum hluta tæknibreytingar. Geta einstaklinga til að tengjast öðrum og nálgast upplýsingar stórjókst í samfélagsmiðlabyltingunni, með þeim afleiðingum að jaðarhópar fengu völd til að dreifa upplýsingum og þær dreifðust samkvæmt öðrum lögmálum.
Dreifing upplýsinga byggir ekki á því hvað er sannarlega rétt, nema að því leytinu til að það gagnast dreifendum og viðtakendum. Sem dæmi má nefna mikla útbreiðslu trúarbragða. Rýrt sannleiksgildi hefur lítið haldið aftur af skipulögðum trúarbrögðum, enda geta trúarbrögðin gagnast bæði einstaklingum og valdahópum, þeim fyrrnefndu til sjálfstyrkingar, lyfleysuáhrifa og hugarróar frá tómhyggju náttúru og vísinda, en þeim síðarnefndu til að öðlast lögmæti og hafa áhrif á hegðun annarra.
Upplýsingar eru því vara á markaði í endanlega hagkerfinu.
Seljanleiki sem drifkraftur
Dreifing, skynjun og mat upplýsinga verða augljóslega fyrir áhrifum af viðtakendunum og dreifendunum. Munurinn er að núna lýtur dreifing þeirra að miklu leyti sömu lögmálum og neyslan.
Kannski dreifðist hugmyndin um endalok sögunnar um samfélögin vegna seljanleika hennar, en ekki vegna þess að hún væri rétt, líkleg eða sennileg. Fólk horfði á breytta heimsmynd og keypti það sem var mest afgerandi og spennandi.
Í skynjun er frummennskt að leita að kontröstum og litum. Og fólk treystir frekar þeim og því sem það sér oft. Það tengir betur við sögur með persónum og fyrirætlunum en kerfislægri þróun. Það styttir sér síðan leiðir hugrænt með því að stimpla og flokka fólk eftir tilfallandi eiginleikum, eins og útliti, kyni eða húðlit.
Lýðræðið og markaðsdrifin dreifing upplýsinga hefur að hluta jaðarsett sérfræðinga og fjölmiðla. Að því sögðu hafa báðar þessar stoðir lýðræðissamfélaga lifað á markaðsforsendum, þó mismikið. Ef gildismat og óformleg viðmið í samfélaginu þrýsta á fagmennsku fjölmiðla og sérfræðinga, frekar en að þeir séu í sölustarfi eða á mála hjá hagsmunaaðilum, eykst gildi þeirra sem sjálfstæðra og óháðra stoða í lýðræðisríki. Í rofnu lýðræði, þar sem lýðræðisleg umræða er kappleikur um völd milli andstæðra liða, eins konar hrein eðlisfræði frekar en samfélagsleg rökræða, er traustið eitt fyrsta fórnarlambið.
Að því sögðu er ekki ástæða til að treysta blint og bæði stjórnkerfi, stofnanir og fjölmiðlar geta verið yfirtekin af hagsmuna- og valdahópum, en það er ekki nóg að segja það til að það sé satt.
Frambjóðandi gegn spillingu
Við erum með embætti forseta, sem er í raun konunglegt, enda byggir það á úreltri danskri stjórnarskrá sem Íslendingar tóku upp samhliða sjálfstæði frá Danmörku. Stefnt var að því að semja nýja stjórnarskrá með sérstöku óflokkspólitísku stjórnlagaþingi, sem bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur studdu á árunum eftir stríð, en það hefur ekki tekist. Þrátt fyrir að ný stjórnarskrá hafi verið lýðræðislega mótuð og samþykkt í beinni þjóðaratkvæðagreiðslu, hafa flokkspólitískir gerendur komið í veg fyrir það. Sumir þeirra hafa beina hagsmuni af því að stöðva breytinguna, vegna breytingar atkvæðavægis og tilfærslu valds yfir í beint lýðræði, en aðrir vilja einfaldlega breiðari sátt um breytinguna, sem fæst líklega ekki, að hluta vegna þess að aðrir hafa hag af ríkjandi fyrirkomulagi.
Með þetta gap á milli hefða og laga hefur skapast svigrúm fyrir forsetaframbjóðendur til að túlka þetta æðsta embætti þjóðarinnar hver með sínu lagi. Umsækjendur um stöðuna eru þannig yfirleitt að sækja um sitt hvora stöðu, sumir sem konunglegur tákngervingur þjóðarinnar, aðrir sem pólitískir gerendur.
Guðmundur Franklín Jónsson býður sig nú fram til forseta til þess að berjast gegn „spilltu“ stjórnkerfi, elítu og valdi útlendinga. Hann ætlar að auka beint lýðræði og virkja stjórnarskrárbundna heimild forseta til þess að leggja fram sín eigin lagafrumvörp.
„Spillingin er því miður landlæg á Íslandi og teygir hún anga sína um allt stjórnkerfið og setur sínar ljótu krumlur í kökukrúsirnar á ólíklegustu stöðum,“ skrifaði hann í grein í Morgunblaðinu á dögunum.
„'Créme de la Créme' elítan telur sirka um 365 manns sem á hér allt og ræður og er um 0,1% af þjóðinni. Í kringum þetta valdamikla og gjörspillta fólk er gervielítan, meðreiðarsveinarnir og hjálparkokkarnir sem eru um 3650 eða 1% af þjóðinni, þetta er fólkið sem viðheldur kerfinu, spillingunni og þiggur brauðmolana sem detta af sameiginlegu nægta- og auðlindaborði þjóðarinnar“, skrifaði hann svo á Facebook.
Skoðanakannanir sem byggja á sjálfvali þátttakenda, frekar en úrtaki af handahófi úr þýðinu eins og er aðferðafræðilega viðurkennt, hafa sýnt að Guðmundur Franklín njóti hátt í helmingsstuðnings. Þegar óháður aðili gerði skoðanakönnun, Þjóðarpúls Gallups, var niðurstaðan að hann hefði stuðning um 10% kjósenda.
„Nei sko... RÚV var að gera könnun og ákvað að gefa mér 10% þegar ég er að mælast með um 45% alls staðar annars staðar“, sagði hann af því tilefni á Facebook. Hann gaf sér að Ríkisútvarpið væri hluti af óvinaliðinu. „Það er ekki skrýtið að Efstaleitið skjálfi þegar ég hef lýst því ítrekað yfir að ég vilji taka þessa ESB-áróðursstofnun af auglýsingamarkaði.“
Skörun trumpisma og Miðflokksins
Þegar stuðningshópur Guðmundar Franklín er skoðaður kemur í ljós hugmyndafræðileg skörun sem tengist þróun lýðræðisins á undanförnum árum. Hann hefur sáralítinn stuðning í stuðningsliði allra stjórnmálaflokka, nema einum. Meira en helmingur kjósenda Miðflokksins, 55 prósent, styður Guðmund Franklín, en næstmestur er stuðningurinn við hann hjá sjálfstæðismönnum, eða 10 prósent.
Bæði Sigmundur Davíð, Guðmundur Franklín og Trump hafa gert út á andstöðuna við erlenda óvini, fjölmiðla og „kerfið“. Þeir hafa viljað bæta kerfið með því að færa meiri völd í eigin hendur, frá kerfinu, til að verjast erlendri ógn. En kerfið er auðvitað af misjöfnu eðli, eftir því hvort það er flokkspólitískt skipað eða ráðið í það eftir verðleikum og unnið eftir stjórnsýslulögum, lögum um opinbera starfsmenn, upplýsingalögum og svo framvegis.
Svo vill til að stuðningur við Donald Trump á Íslandi er 29 prósent hjá kjósendum Miðflokksins, en aðeins 4 prósent í heildina og 1 prósent hjá yngri en 35 ára.
Í síðustu forsetakosningum vann fræðimaðurinn Guðni Th. Jóhannesson sigur með 39 prósent atkvæða. Næst kom Halla Tómasdóttir með 28 prósent. Fulltrúi Miðflokks-, Trump- og Franklín-fylgisins í þeim kosningum, var líklega helst Davíð Oddsson, nú ritstjóri Morgunblaðsins, sem skrifar oft til stuðnings Trump, en hann hlaut 13,7 prósent atkvæða. Hann lagði áherslu á klassíska þjóðernishyggju, lofaði að gefa launin sín og ætlaði að opna Bessastaði fyrir þjóðinni. Eitt það helsta sem hann og Morgunblaðið gátu fundið gegn Guðna Th. var að hann hefði notað orðalagið „fávís lýðurinn“ í umræðu í kennslustund, sem var þó augljóslega ekki endurvörpun á skoðun hans að þjóðin væri heimsk.
Við getum því litið svo á að 10 til 15 prósent hluti þjóðarinnar falli í þennan flokk popúlistafylgis, svipað og fylgi Miðflokksins í könnunum síðastliðið ár, þótt það væri einföldun á þessari hugmyndafræðilegu skörun að para það bara við hann.
Fjölflokka lýðræðið á Íslandi virðist því í fljótu bragði ekki vera í sömu krísu og tveggja flokka lýðræði Bandaríkjanna. En kannski mun það ekki skipta neinu máli. Umheimurinn mun á endanum móta okkur.
Einræðisríki í forystu
Á meðan Bandaríkin draga sig út úr alþjóðasamvinnu, missa traust og siðferðislega stöðu, eflist eins flokks einræðisríkið Kína undir stjórn Xi Jinping, sem hefur náð að framlengja valdatíð sína um ókomna tíð.
Kína er ekki laust við „exceptionalisma“, ekki frekar en Bandaríkin. Kína, sem þýðir „ríkið í miðjunni“, mun innan fárra ára fara fram úr Bandaríkjunum sem ríki heims með hæsta verga landsframleiðslu.
Á meðan Vesturlönd hafa glímt við afleiðingar COVID-19 hefur kínverski Kommúnistaflokkurinn mótað lög sem dregur úr sjálfsstjórn Hong Kong og eykur getu kínverska ríkisins til að uppræta mótmælendur.
Miðstýrða ríkið sem á auðvelt með að beita borgarana valdi átti líka auðveldara en lýðræðisríki með að uppræta COVID-19 faraldurinn meðal fólks. Bandaríkin eru ennþá mesta herveldi heims og hafa mun meiri áhrif alþjóðlega en Kína, en þróunin stefnir í aðra átt. Bæði bandaríska lýðræðið og hæfi Bandaríkjanna til að vera leiðandi hafa rýrnað á meðan afl Kínverja eykst. Landsframleiðsla á mann í Kína er ennþá bara fimmtungur af því sem er í Bandaríkjunum, en bilið minnkar.
Ekkert segir að það sé nauðsynleg niðurstaða að lýðræðisríki verði með meiri framleiðni en annað stjórnarform, þar sem meiri stjórn er höfð á hegðun fólks, með mýkri og taktískari aðferðum en áður. Dæmi um ríki sem telst varla heilbrigt lýðræði, en hefur náð miklum árangri, er Singapúr. Stór hluti af efnahagslífi í Singapúr er í eigu ríkisins, í raun undir stjórn eins flokks, þar með taldir fjölmiðlar, en samt líta sumir breskir íhaldsmenn á landið sem fyrirmynd og vilja verða Singapúr-við-Thames eftir Brexit.
Ísland hefur lifað sem sjálfstætt, herlaust ríki, í skjóli Bandaríkjanna og alþjóðasamvinnu með öflug lýðræðisríki í miðið. Þessi heimsmynd er núna farin að riðlast, þótt áratugir geti liðið áður en afleiðingarnar verða ljósar.
Við vitum ekki hvernig tækniframfarir munu skipta okkur í hópa og hverjir verða skilgreindir sem „hinir“ þegar framgangur gervigreindar kemst á skrið. Við vitum ekki heldur fyrir víst hvort lýðræðið muni tryggja mestu framleiðslugetuna, eða jafnvel efnahagsleg frjálshyggja án pólitísks frelsis. Rannsóknir í vinnusálfræði gefa hins vegar til kynna að fylgni sé milli sköpunargáfu og sjálfræðis – þess að fólk hafi vald yfir vinnu sinni.
Það er einmitt afstaðan til valds sem er helst vanmetin í stjórnmálaumræðu.
Mælikvarðinn sem gleymist
Rannsóknir sýna að fylgni er milli trausts í samfélögum og jafnaðar, bæði milli ríkja og innan mismunandi ríkja Bandaríkjanna.
Í samkeppnissamfélögum, þar sem einstaklingur hefur meira að vinna og öllu að tapa, eins og Bandaríkjunum, er traust minna en á Norðurlöndunum. Eitt er traust á öðru fólki, en annað traust á kerfinu.
Jöfnuður gengur á endanum út á að fólk hafi það öryggi að þurfa ekki að berjast fyrir mannsæmandi örlögum með óyndisúrræðum. Misskipting leiðir til þess að vernda þarf borgarana hver fyrir öðrum, með valdbeitingu og getu til hennar, sem minnkar um leið einstaklingsfrelsi, í það minnsta hjá tilteknum hópum. Hún getur leitt til ótta, sundrungar og pólaríseringar, með klofnum veruleika og gildismati mismunandi hópa.
Veikleikar jafnaðar eru að mati sumra að fólk þurfi ekki að berjast fyrir sínu, heldur fái nóg upp í hendurnar, og vinni þar með ekki að aukinni framleiðslu. Hagtölur virðast hins vegar ekki styðja það sjónarmið því velferðarsamfélög Norðurlanda njóta einnig mestu efnahagslegu hagsældar ríkja heimsins.
Grunnur stjórnmálaumræðunnar byggir á því að skipta fólki í hægri og vinstri eftir skoðunum. Stór hluti stjórnmálaumræðunnar er þannig grundvallaður á skilgreiningu úr frönsku byltingunni, sem mótaðist síðan af valddrifinni umræðu í kalda stríðinu í tvíhyggju kommúnista og kapítalista eftir viðhorfum gagnvart einkarekstri og ríkisrekstri.
Þannig sé kommúnismi algert vinstri, en nýfrjálshyggja eða íhald algert hægri. Um leið er þessi skipting notuð til að stimpla fólk og skoðanir, tengja saman og einfalda. Þeir sem aðhyllast inngrip ríkisins til að auka jöfnuð, til dæmis með skattlagningu, eru þannig í áróðursskyni jafnvel tengdir við Hugo Chavez og Nicholas Maduro í Venesúela. Eða Stalín og aðra kommúnista.
En skiptingin er að miklu leyti fölsk, því hún horfir ekki beint til valds stjórnmálamannsins sem slíks. Hægri popúlisti er jafnlíklegur og kommúnískur leiðtogi til þess að taka til sín meiri völd. Hvorki hægrisinnaði popúlistinn né vinstrisinnaði kommúnistinn vilja leyfa sjálfstæðar aðhaldsstofnanir ríkisins sem veita stjórnvöldum og öðru valdafólki eftirlit í þágu og umboði almennings.
Vandinn við Stalín var ekki bara meint jafnaðarstefna, heldur valdasamþjöppun og misnotkun þess gríðarlega valds sem hann hafði safnað. Norðurlöndin, með sína jafnaðarstefnu, glíma ekki við sama lýðræðisvanda og Bandaríkin, vegna þess að einræðistilburðir mælast ekki á vinstri eða hægri.
Frjálshyggja lýsir ekki heldur þeim valdamissi sem margir einstaklingar verða fyrir við mikla misskiptingu, og leiðir gjarnan almennt til vantrausts, glæpa og í kjölfarið rofs sem reynt er að fylla upp í með valdbeitingu og viðbúnaði lögreglu, einkarekinnar öryggisþjónustu og jafnvel hers.
Markaðshyggja án lýðræðis
Lýðræði og markaðshyggja eru ekki það sama eða nauðsynlega samhangandi. Markaðsfrelsi og mismunandi inngrip ríkisins eru fyrst og fremst tæki til að ná fram markmiði, praktík en ekki sannleikur. Við notum ekki alltaf skrúfjárn, eða alltaf hamar. Eina stundina, í einu samfélagi við einar aðstæður, getur markaðsfrelsi verið of lítið, en það þýðir ekki að lögmál markaðsfrelsis eigi að gilda óháð markmiðinu. Við getum til dæmis viljað tryggja heilbrigðan markað með inngripi í formi samkeppnislaga, heilbrigðan mannauð með barnabótum eða jafnvel manngildi með opinberri heilbrigðisþjónustu.
Á endanum er þjóðfélagsumræðan ekki einföld. Ekki nema maður sé hluti af liði. Hvort sem maður er í skrúfjárnsliðinu, hamarsliðinu eða skófluliðinu.
En stundum þurfum við að einfalda valið, vegna þess að viðfangsefnin eru flókin. Eitt einfalt viðmið er að horfa til trúverðugleika og velvildar, eða forðast ósannsögla og sjálfmiðaða stjórnmálaleiðtoga. Það þarf að horfa á karakterinn og gera þannig hugrænt líkan af líklegri hegðun hans við flóknar aðstæður, en ekki bara opinberu stefnumálin. Hvað gerir hann til þess að styrkja stöðu sína á kostnað annarra?
Viðmiðið: Valdasamþjöppun
Lýðræðið snýst um að dreifa ákvörðunarvaldinu til fólks, til að hindra valdasamþjöppun og afleidda spillingu. Það er ekkert ákveðið í genamengi okkar að lýðræði sé hið endanlega stjórnarform, þótt lágmörkun spillingar sé augljóst efnahagsmál. Þvert á móti hneigjumst við til foringjadýrkunar, til þess að treysta því sem við þekkjum en óttast hið óþekkta. Lífsreynsla okkar, sem mótuð er af samfélaginu, hefur síðan áhrif á þessa sýn okkar, hversu mikið við treystum öðrum; Hvort við hengjum okkur á manninn sem segist aldrei hafa rangt fyrir sér og gerir út á að gera lítið úr öðrum, niðurlægir þá eins og forystuapinn í hjörðinni. Sem útdeilir gæðunum til sinna nánustu og gerir allt til þess að tryggja eigin stöðu gagnvart öllum þeim sem hann skilgreinir sem óvini sína. Sem sundrar og þrífst á ætlaðri þörf til verndar gegn skilgreindum óvinum.
Sú hugmyndafræði stjórnmálamanna sem er praktískast fyrir okkur að vita um, er hversu mikið hann gerir til þess að auka sín eigin völd og áhrif. Hverju hann er tilbúinn að fórna til þess að ná fram því markmiði sínu. Við vitum að fyrst þarf hann að sannfæra okkur um að aðrir séu óvinir fólksins, svo þegar skilgreiningin er komin má réttlæta aðgerðir og hunsa eðlilegt aðhald. Þessar aðferðir eru ekki bundnar við eitt land. Þær eru notaðar hér á landi sem annars staðar og það hvernig upp tekst að verjast valdasamþjöppun verður lykillinn að framtíð okkar allra.
Athugasemdir