Saga Bandaríkjanna er þyrnum stráð. Þar hafa skipzt á skin og skúrir. Landið byggðist með ólýsanlegu ofbeldi. Evrópumenn óðu yfir allt og alla þar vestur frá eftir að Kólumbus nam þar land 1492. Þeir stráfelldu frumbyggjana sem fyrir voru, ekki bara með vopnum heldur einkum og sér í lagi og stundum jafnvel vísvitandi með drepsóttum sem ónæmiskerfi Indjánanna átti engar varnir gegn. Þarna var framið þjóðarmorð. Hversu marga Indjána hittu aðfluttu Evrópumennirnir fyrir? Sumir segja tvær milljónir, aðrir segja átján. Indjánarnir bjuggu um allt land, meira að segja á miðri Manhattan.
Um aldamótin 1900 voru aðeins 250.000 Indjánar eftir í Bandaríkjunum og hefur sú tala haldizt lítið breytt síðan þá. Indjánar telja nú innan við 1% af mannfjölda landsins. Þeir lifa sínu lífi í sæmilegri sátt við hvíta manninn þótt sorgarsaga forfeðra þeirra og mæðra sé geymd og ekki gleymd.
Hingað og ekki lengra
Öðru máli gegnir um bandaríska blökkumenn. Þeir telja um 13% af mannfjölda landsins og lifa ekki í meiri sátt við hvíta meiri hlutann en svo að enn gjósa upp grafalvarlegar kynþáttaerjur með reglulegu millibili. Á fáeinum vikum hafa yfir hundrað þúsund Bandaríkjamenn látið lífið af völdum skæðrar drepsóttar, miklu fleiri en í nokkru öðru landi og að miklu leyti fyrir mistök forsetans og ríkisstjórnar hans. Talan á eftir að hækka til muna. Tvisvar til þrisvar sinnum fleiri blökkumenn en hvítir hafa dáið af völdum veirunnar miðað við mannfjölda. Af völdum samkomubanns og annarra aðgerða gegn smithættunni sem fylgir drepsóttinni hefur atvinnuleysi þar vestra skyndilega gosið upp í hæstu hæðir, óséðar síðan í kreppunni miklu 1929–1939, og stefnir hærra. Efnahagur landsins og lýðheilsa eru í uppnámi.
Og þá bætist þriðja katastrófan við hinar tvær með því að nú standa hermenn með alvæpni á götum höfuðborgarinnar Washington DC og miða byssum sínum á friðsama mótmælendur skv. fyrirmælum Trumps forseta og ryðja götur og torg svo forsetinn geti látið ljósmynda sig með Biblíuna í hendi; hann er á myndinni eins og hann hafi aldrei fyrr haldið á bók. Hvað um það, annað eins og þetta hefur ekki gerzt í Bandaríkjunum síðan 1963 þegar Kennedy forseti sendi þjóðvarðliða til Alabama til að vernda blökkumenn gegn ofbeldisfullum rasistum. Það tókst. Nú sigar Trump forseti þjóðvarðliðum á fólk sem lýsir samstöðu með fórnarlömbum rasista.
Útgöngubann ríkir á kvöldin í mörgum stærstu borgum landsins. Reyndir leyniþjónustumenn CIA segjast að vísu hafa séð annað eins, en þó aðeins í löndum þar sem ríkisstjórnin var að falli komin. Trump forseti segist vilja senda vopnaða hermenn út um allt land til að bæla niður fjöldafundi almennings, en fylkisstjórar segja með réttu að forsetinn hafi ekki lagaheimild til þess nema þeir óski eftir slíkri aðstoð.
Bandaríkjamönnum er brugðið. Þeir hafa ekki þurft að lúta útgöngubanni síðan 1945 þegar sprengjur bandamanna dundu á Dresden undir lok heimsstyrjaldarinnar og nauðsynlegt þótti að loka börum í Bandaríkjunum á kvöldin til að losa fé handa stríðsrekstrinum (færri bjórar, fleiri sprengjur). Þetta var fyrsta almenna útgöngubannið í sögu landsins. Tveim árum áður, 1943, hafði verið sett útgöngubann þegar hvít lögga skaut svartan hermann í Harlem, en þó ekki til ólífis. Bannið var bundið við Harlem.
„Fólkið sem fyllir nú götur og torg í borgum Bandaríkjanna og víðar um heiminn er ekki að mótmæla dauðsföllunum eða atvinnuleysinu, nei, það er að mótmæla morði“
Fólkið sem fyllir nú götur og torg í borgum Bandaríkjanna og víðar um heiminn er ekki að mótmæla dauðsföllunum eða atvinnuleysinu, nei, það er að mótmæla morði eða réttar sagt morðum og rasisma. Einn blökkumaðurinn enn lézt í haldi lögreglunnar fyrir röskri viku nema nú náðist illvirkið á mynd og fólk af öllum kynþáttum þusti út á göturnar til að segja: Hingað og ekki lengra. Tugir blökkumanna hafa látið lífið í haldi lögreglunnar undangengin ár, iðulega án þess að lögreglan þyrfti að sæta ábyrgð. Þriðji hver fangi í Bandaríkjunum er svartur.
Niðurlæging
Það er þung raun fyrir vini Bandaríkjanna um allan heim ekki síður en fyrir landsmenn sjálfa að fylgjast með niðurlægingu landsins undangengin ár. Margir spyrja: Við hverju öðru var að búast í landi sem gerði fífl og gangster að forseta sínum 2016? Vandinn er þó eldri og meiri en svo.
Undirrótina má rekja til þrælahaldsins sem upphófst þegar Evrópumenn tóku að byggja landið eftir 1492 og lagðist ekki af fyrr en að lokinni borgarstyrjöld 1861–1865. Hún var öðrum þræði háð til að binda endi á þrælahald í landinu og kostaði 600.000 mannslíf, þar á meðal líf Lincolns forseta sem leysti þrælana úr haldi og bjargaði landinu frá upplausn. Ekki tefldist þó betur úr eftirleiknum en svo að eftir lok stríðsins 1865 voru blökkumenn myrtir áfram í þúsundatali án dóms og laga, einkum í suðurríkjunum.
Enn þurftu Bandaríkjamenn, ekki bara blökkumenn heldur einnig vinir þeirra og samherjar meðal hvítra og annarra kynþátta, að bíða í heila öld eftir því að blökkumenn öðluðust lögvarin lýðréttindi til jafns við aðra borgara landsins 1964–1965. Lyndon Johnson forseti, demókrati frá Texas og fv. þingforseti, bar hitann og þungann af þeirri lagasetningu. Nú var ekki lengur hægt að meina svertingjum aðgang að skólum, strætisvögnum eða veitingahúsum svo sem tíðkazt hafði um suðurríkin allar götur fram að því, jafnvel í höfuðborginni.
„Gamlir fordómar gegn svertingjum færðust yfir í raðir repúblikana“
Langflestir blökkumenn hafa æ síðan stutt demókrata í kosningum. Gamlir fordómar gegn svertingjum færðust yfir í raðir repúblikana. Arthur Miller, leikskáldið, lýsti þessu vel fyrir 20 árum þegar hann sagðist í blaðagrein enga rökræna skýringu geta fundið á hyldjúpri heift margra repúblikana í garð Bills Clinton forseta aðra en þá að Clinton væri í reyndinni fyrsti blökkuforseti Bandaríkjanna. Hann hafði þessa ályktun eftir skáldkonunni og Nóbelsverðlaunahafanum Toni Morrison.
Enn ber á hatri, reiði og rasisma fyrri tíðar í Bandaríkjunum eins og Barack Obama, fv. forseti landsins, hefur fengið að kenna á, ekki sízt af hálfu Trumps forseta. Frægasta fórnarlamb rasismans er þó Martin Luther King, helzti leiðtogi bandarískra blökkumanna á 20. öld og einn mesti ræðuskörungur sinnar tíðar. Hann var ekki fertugur að aldri þegar hann var myrtur 1968 eftir að alríkislögreglan FBI hafði lagt hann í einelti með skipulegri ófrægingarherð. Maðurinn sem var dæmdur fyrir morðið dró játningu sína til baka. Margir eftirlifandi leiðtogar blökkumanna telja líkt og fjölskylda Kings að rangur maður hafi verið dæmdur fyrir morðið. Mörg gögn málsins eru geymd í læstum hirzlum sem verða ekki opnaðar fyrr en 2027.
Þetta voru þakkirnar sem Martin Luther King fékk fyrir að hafa verið Johnson forseta innan handar við lúkningu verksins sem Abraham Lincoln hafði ýtt af stað 100 árum fyrr. Í millitíðinni gengu rasistar fram með þvílíku offorsi gegn blökkumönnum að Johnson forseti sá sig knúinn til að taka upp orðfæri Kings í einni áhrifaríkustu ræðu („Við munum sigra“) sem nokkur forseti landsins hefur haldið.
Og nú er svo komið fyrir Bandaríkjunum að í Hvíta húsinu situr forseti sem meiri hluti kjósenda telur vera rasista. Hann er samt ekki einn síns liðs heldur nýtur hann stuðnings repúblikana í þinginu þar sem þeir hafa nauman meiri hluta í öldungadeildinni. Einn helzti dálkahöfundur New York Times í bráðum 40 ár, Thomas Friedman, kallaði öldungadeildina nýlega „pólitískt hóruhús“. Hann hefur lýst efasemdum um að frjálsar kosningar verði haldnar í nóvember og einnig um að forsetinn muni víkja úr embætti ef hann tapar. Æ fleiri hallast á sömu sveif. Hitastigið hækkar dag frá degi.
Heim til þín, Ísland
Íslendingar standa Bandaríkjamönnum ekki miklu framar. Við höfum að vísu engan her og varla heldur vopnaða lögreglu svo byssum er ekki miðað á okkur þegar við söfnumst saman á Austurvelli eða annars staðar. Og við þurfum ekki að gjalda með lífi okkar fyrir að standa uppi í hárinu á spilltum yfirvöldum. Þau hafa önnur ráð. Þau koma fram við okkur eins og svertingja.
Þannig var farið með sjómennina tvo, þá Erling Svein Haraldsson og Örn Snævar Sveinsson, sem unnu frækilegan sigur í kvótamálinu gegn íslenzka ríkinu fyrir mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna í Genf. Þeir voru snúnir niður. Mannréttindanefndin birti 2007 bindandi álit með tilskipun þess efnis að ríkinu bæri að nema mannréttindabrotaþáttinn brott úr fiskveiðistjórninni og greiða Erlingi og Erni bætur fyrir tjónið sem ríkið hafði bakað þeim. Hvað gerði ríkið? Ekki neitt. Það lofaði nefndinni raunar nýrri stjórnarskrá með ákvæði um auðlindir í þjóðareigu en sveikst síðan undan eigin merkjum og aftan að lýðræðinu í landinu með því að vanvirða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar 2012 um nýja stjórnarskrá sem svaraði kalli mannréttindanefndarinnar og fólksins í landinu. Auk þess rústaði ríkið efnahag sjómannanna tveggja og mikils fjölda annars fólks um allt land.
En hvernig var svo farið með Samherja þegar hann varð uppvís að mútugreiðslum í Namibíu í fyrra með þeim afleiðingum að sex Namibíumenn, þar á meðal tveir fv. ráðherrar, hafa síðan þá setið í fangelsi? Hafa íslenzk yfirvöld leitað eftir erlendri aðstoð við rannsóknina? Nei, en það hafa yfirvöld í Namibíu gert. Voru eignir Samherja kyrrsettar meðan rannsókn færi fram? Nei, hlutabréf stærstu eigendanna sem áttu að vera til rannsóknar voru færð á nöfn barna þeirra að því er virðist skattfrjálst.
Hafa fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna á Alþingi sagzt sjá eitthvað athugavert við þessar gjörðir? Þess verður ekki vart.
„Íslenzka ríkið heldur áfram að traðka á rétti einstaklinga og grafa svo undan lýðræðinu og öðrum innviðum að álit landsins er illa laskað“
Bankarnir gleyptu Alþingi með húð og hári eftir einkavæðinguna 1998–2003 svo sem fram kemur í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis frá 2010. Allir þekkja afleiðingarnar. Alþingi hegðar sér nú aftur með fáeinum heiðvirðum undantekningum eins og útvegsfyrirtækin hafi gleypt þingið með húð og hári líkt og þau gleyptu Morgunblaðið. Einmitt þannig er ástandið nú í öldungadeild Bandaríkjaþings.
Íslenzka ríkið heldur áfram að traðka á rétti einstaklinga og grafa svo undan lýðræðinu og öðrum innviðum að álit landsins er illa laskað. Alþingi skýlir sér bak við ákvæði sem danskur einvaldskóngur setti í núgildandi stjórnarskrá 1874 til að torvelda breytingar á henni. Ísland telst ekki lengur óskorað lýðræðisríki skv. erlendum vísitölum. Spillingin æðir áfram. Alþingi hefur nú þrisvar í röð verið kosið skv. kosningalögum sem kjósendur höfnuðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 auk þess sem sýslumaður nátengdur Sjálfstæðisflokknum lagði lögbann rétt fyrir síðustu kosningar á fréttir sem komu Sjálfstæðisflokknum illa. Lögbannið reyndist ólöglegt. Þetta kallast skríðandi fasismi. Skemmdin breiðist út.
Hvernig gat þetta gerzt? Undirrótina virðist mega rekja til virðingarleysis Alþingis gagnvart kjósendum svo sem vantraust kjósenda í garð Alþingis vitnar um. Aðeins rösklega fimmtungur kjósenda (23% skv. Gallup) treystir nú Alþingi sem lítilsvirðir kjósendur á móti. Hlutfallslega helmingi færri blökkumenn (9%) en hvítir (17% ) treysta bandarískum stjórnvöldum sem gjalda líku líkt með því að sýna svertingjum samsvarandi lítilsvirðingu umfram aðra.
Vandinn hér er sá að virðingarleysi er venjulega gagnkvæmt og getur undið svo upp á sig að velsæld fólksins hraki og jafnvel lýðræðinu sé hætta búin. Hvort er þá vænlegri og réttlátari leið til að leysa hnútinn: að Alþingi bregðist við fjölda áskorana og bæti ráð sitt eða kjósendur beygi sig undir einbeittan brotavilja Alþingis og útvegsmanna?
Athugasemdir