Ninný - Jónína Magnúsdóttir
Undirstaða hamingjunnar að mínu mati er að einbeita sér að því jákvæða í lífinu, þróa með sér jákvæðar hugsanir og þakklæti fyrir það sem maður hefur. Hamingjan er því lífsstíll sem hægt er að velja. Hamingjan felst í að njóta augnabliksins, elska það sem er og sleppa eftirsjá og of miklum væntingum um framtíðina. Að rækta vini og ættingja eins og falleg blóm því við uppskerum eins og við sáum. Fylgja draumum sínum og vera trúr sjálfum sér. Fyrir mig hefur virkað vel að hugleiða og kyrra hugann að morgni og að kveldi að fara yfir daginn og þakka fyrir allt það góða sem dagurinn færði mér.

Hjördís Björg Andrésdóttir
Í hamingju felst vellíðan í sálartetrinu. Það þarf að huga að innri líðan ásamt líkamlegri til að líða vel og það getur skapað ákveðna hamingju. Í hamingju getur falist að fara í góðan göngutúr og njóta augnabliksins ásamt náttúrunni. Við gleymum okkur um stund þegar við gerum eitthvað skemmtilegt sem á hug okkar allan og það er hamingjustund. Einnig þarf maður að horfa á það jákvæða í lífinu og það er viss hamingja.