Mikið hefur verið skrifað og skrafað um háskóla á undanförnum árum. Ein ástæðan fyrir þessari umræðu er sá mikli vöxtur sem hefur verið í þessum geira víða um heim. Sífellt fleiri stofnanir spretta upp, sífellt fleiri námsleiðir standa til boða og sífellt fleira fólk lýkur prófi. Sumt í þessari sögu hefur verið heldur grátbroslegt, eins og afdrif háskólans sem kenndur var við fertugasta og fimmta forseta Bandaríkjanna. Annað í þessari sögu hefur verið alvarlegra og kallað á meiri og samstilltari viðbrögð. Niðurstaðan hefur orðið sú að sjaldan hefur meira verið fjallað um það hvað háskólar eiga ekki að fást við og hvernig þeir eiga ekki að starfa. Sú umræða hefur því miður orðið til þess að skyggja á miklu uppbyggilegri umræðu um hvað háskólar geta gert og hver sé raunverulegur tilgangur þeirra. Það er sérstaklega bagalegt í ljósi þess að háskólar hafa sjaldan staðið frammi fyrir eins mörgum áskorunum.
Háskólar verða að vera viðbúnir kastljósi samfélagsins. Viðbrögðin verða annars vegar að taka mið af því til hvers er ætlast af þeim og hins vegar eðlis þeirra samfélagslegu áskorana sem efst eru á baugi. Hvað fyrra atriðið varðar þá má finna nokkur ólík svör við því hvers vegna samfélagið getur leitað til háskóla þegar gefur á bátinn. Og þessi svör skilgreina möguleg viðbrögð í ljósi þess hvers vegna þessar stofnanir bera skyldu til að bregðast við. Sumir telja að einu skyldurnar sem háskólar geta þurft að axla komi úr þeim textum sem opinberlega skilgreina hlutverk þeirra. Ef þess er ekki getið sérstaklega þá séu skyldurnar ekki til staðar. Aðrir horfa til þess að háskólar standi í þakkarskuld við það samfélag sem þeir starfa í, hvort sem stuðningurinn kemur fram með beinum eða óbeinum fjárframlögum. Enn fleiri telja svo reyndar að háskólum beri siðferðileg skylda til að bregðast við í ljósi þess siðferðilega hlutverks sem er falið í eðli háskólastarfs. Þá skipti rekstrarform eða samningsatriði litlu sem engu.
Sú farsótt sem nú geisar hefur varpað ljósi á þetta samband háskóla og samfélags. Hér á Íslandi hefur sambandið verið náið og sterkt. Í öðrum löndum hefur umræða kviknað hvort ekki mætti nýta þekkingu og búnað þessara stofnana betur í þágu samfélagsins. Undanfarin ár hafa hins vegar umræðuefnin verið annars eðlis og möguleg framlög háskóla í ljósi þessara efna ekki endilega augljós. Viðbrögð háskólanna hafa því þurft að litast af naflaskoðun um leið og brugðist er við ákalli fólks um að þeir leiði samfélagið á betri brautir. Nærtækt dæmi um þetta eru hræringar sem komu fram í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008. Háskólar áttu bæði að vera samfélaginu til leiðsagnar og taka til í eigin ranni. Aðrar nýlegar siðferðilegar áskoranir, eins og þær sem komu fram í kjölfar #metoo-hreyfingarinnar, gerðu svipaðar kröfur til háskóla.
Loftslagsvá
Ólíkt mörgum öðrum viðfangsefnum þar sem eðlilegt er að háskólar leiði umræðuna þá virðist sem loftslagsvá samtímans versni ekki stöðugt vegna skorts á þekkingu og greiningu á efninu. Háskólar hafa ekki verið gagnrýndir fyrir áhugaleysi. Þvert á móti má segja að vísindasamfélagið hafi verið það svið þjóðlífsins sem haldið hefur umræðunni á floti og fræðimenn fremur verið sakaðir um að halda á lofti hræðsluáróðri heldur en hitt. Á sama tíma verður þó að viðurkennast að þrátt fyrir stöðuga aukningu á háskólamenntuðum borgurum – fólki sem ætti að skilja eðli og umfang vandans – hefur gengið illa að vekja fólk til vitundar um eðli og umfang loftslagsbreytinga.
„Hefur gengið illa að vekja fólk til vitundar um eðli og umfang loftslagsbreytinga“
En hvað felur þá áskorunin í sér? Hver er skylda háskóla í ljósi þessa? Svarið við þeirri spurningu hlýtur að byggja á því hvert verkefnið fram undan er. Í grófum dráttum má skipta áskoruninni í tvennt. Annars vegar þarf að leysa tæknileg útfærsluatriði varðandi vandann. Þau eiga sér margs konar birtingarmyndir. Að hluta til er verið að kalla á verkfræðilega úrlausn. Lögfræðileg álitamál um alþjóðasamninga og eignarrétt koma einnig við sögu. Fræðimenn úr háskólasamfélaginu leika lykilhlutverk í báðum tilfellum. Á hinn bóginn er verkefnið ekki tæknilegs eðlis nema þá að takmörkuðu leyti. Stærsta áskorunin við loftslagsmál er að efla skilning á vandamálinu. Og þar duga ekki alltaf útskýringar eða að veita upplýsingar og tryggja að þær komist til skila. Loftslagsbaráttan er ekki síður við lygar, klúður og slúður í samfélagsumræðunni.
Hver veit nema hér séum við komin að algjöru lykilatriði í sambandi við hlutverk háskóla andspænis þeim skrefum sem við þurfum að taka í sambandi við loftslagsbreytingarnar. Það virðist nefnilega vera svo að það sé sama hversu vel við höldum á spilunum varðandi tæknilegu úrlausnaratriðin. Hugmyndaauðgi og úrvinnsla má sín að lokum lítils ef ekki er mögulegt að undirbyggja hana með pólitískum vilja. Loftslagsáskorunum verður ekki mætt ef ekki er til staðar skilningur í samfélaginu á því hvað verkefnið fram undan felur í sér. Ólíkt mörgum vandamálum sem steðja að mannkyninu er nokkurn veginn vitað hvað þarf til svo okkur takist að bægja loftslagsvánni frá. Alþjóðasamningar og skattar eru tækin sem við höfum til að tryggja að velferð mannkyns sé ekki stefnt í voða eftir að gripið hefur verið til aðgerða.
Til hvers eru háskólar?
En hvers vegna ættum við að festa okkur í umræðum um markmið og tilgang háskóla til að gera okkur grein fyrir hver viðbrögð þeirra ættu að vera? Er slík umræða ekki einhver konar heimspekileg æfing sem skiptir engu máli? Nei, viðbrögðin þurfa að spretta úr afstöðu til þess hvers vegna háskólar eiga að láta sig þetta varða. Er það vegna þess að þeir eru fjármagnaðir að hluta til af almannafé? Er það vegna þess að einhvers staðar í stofnsamþykktum eða reglugerðum er kveðið á um að stofnanirnar sinni samfélagslegri ábyrgð? Kemur skyldan kannski til vegna þess að háskólar eiga sér siðferðilegar rætur? Páll Skúlason heitinn, fyrrverandi háskólarektor, var óþreytandi við að minna á, draga fram og færa rök fyrir siðferðilegu hlutverki háskóla og þær skyldur sem þeir bera burtséð frá því hvað fest er á blað með formlegum hætti um hlutverk þeirra. Stundum talaði hann því miður fyrir nokkuð daufum eyrum, en hver veit nema hann hafi verið of mikið á undan sinni samtíð, fremur en gamaldags í hugsun. Það er erfitt að sjá að hann hafi ekki einmitt hitt naglann á höfuðið með þessar vangaveltur sínar, sem til dæmis má lesa um í bók hans Háskólapælingum.
„Stundum felst siðferðileg skylda manns einfaldlega í að sinna hlutverki sínu“
Ef við spyrjum okkur til dæmis hvað það er sem háskólar fást við sjáum við strax að þar glittir í þrjú ólík svið. Í fyrsta lagi er það hlutverk háskóla að vera rannsóknarstofnanir. Akademískum starfsmönnum er ætlað að sinna fræðastörfum og öðlast nýja þekkingu. Þeir eru ráðnir og reknir eftir því hvernig þeim gengur að finna sig í því hlutverki. Háskólar eru einnig í síauknum mæli að verða þjónustustofnanir. Það er treyst á að fræðimenn innan háskóla deili þekkingu sinni með öðrum í samfélaginu. Þeir eiga að vera til reiðu sem sérfræðingar um þau málefni sem efst eru á baugi hverju sinni. Að lokum eru háskólar auðvitað einnig menntastofnanir. Þeir sinna kennslu á ólíkum fögum sem, að minnsta kosti á yfirborðinu, hafa mismikið gildi í samfélaginu. Háskólakennsla hefur sem betur fer farið í gegnum nokkra endurreisn á undanförnum árum þar sem stöðugt er brugðist betur við þörfum nemenda, en þó eru mörg skref sem á eftir að taka. Næstu ár munu skera úr um hvort takist að sinna því hlutverki háskóla sem nefnt var hér að framan um að þeir sinni hlutverki sínu best ef þeir efla skilning nemenda sinna á mikilvægasta verkefni mannkyns sem fram undan er.
En þótt við sammælumst um að menntun sé meginviðfangsefni háskóla í ljósi þess viðfangsefnis sem við stöndum frammi fyrir, þá liggur ekki alveg ljóst fyrir hvaða sjónarhorn á menntun mun skila mestum árangri. Þó að ýmislegt hafi verið gert til að styrkja kennslufræði við háskóla og gæði kennslu á undanförnum árum er enn þá margt sem á eftir að ræða í þaula um hvers konar kennsla það er sem í raun mætir þeim skyldum sem háskólar telja sig þurfa að sinna. Í raun koma að minnsta kosti þrjár leiðir til greina: hefðbundin staðreynda- og aðferðafræðikennsla sem tryggir faglega þekkingu, róttæk umbreytingarkennsla sem lætur nemendur sjá veruleikann í nýju ljósi og hæfnimiðað nám sem reynir á sama tíma að efla þekkingu og leikni nemenda og fá þá til að takast á við viðmið sín og gildi. Háskólum ber að ígrunda þessa ólíku möguleika og taka meðvitaða ákvörðun um hvaða leið það er sem best fellur að siðferðilegum skyldum þeirra.
Gera hvað?
Oft þegar við stöndum andspænis viðfangsefni sem krefst mikils af okkur reynum við að bregðast við á eins beinskeyttan máta og mögulegt er. Líklega er það bara mannlegur eiginleiki. Þegar vandamálið felst í því að eitthvað hefur farið úrskeiðis finnst okkur mikilvægast að leiðrétta það eins fljótt og mögulegt er. Ef vandamálið er skilningsskortur reynum við að leysa það með upplýsingum. Í tilfelli loftslagsmála eru upplýsingarnar tölur og gröf – ásamt tæknilegum fullyrðingum fræðimanna. En eru það upplýsingar sem yfirleitt fá okkur til að bregðast við þegar þörf er á? Þær eru vissulega nytsamlegar með, og jafnvel nauðsynlegur upphafspunktur, en er ekki verkefnið það að fólk geti brugðist við og tekið þátt í flóknum umræðum þar sem rangar og misvísandi upplýsingar eru áberandi? Er það skylda háskóla að efla umhverfisfræðslu þvert yfir fræðasvið eða ættu þeir að halda sig við það sem þeir gera best: að efla gagnrýna hugsun í gegnum allt nám? Stundum felst siðferðileg skylda manns einfaldlega í að sinna hlutverki sínu og einblína ekki á það hvað aðrir kunna að ætlast til af manni.
„Öll möguleg viðbrögð munu byggja á því að fólk þurfi að taka á sig einhverjar byrðar, eða að minnsta kosti breyta lifnaðarháttum sínum“
Lykillinn að því að við getum brugðist við þeirri vá sem er fyrir dyrum er að sem flestir öðlist skilning á því hvað er í vændum. Öll möguleg viðbrögð munu byggja á því að fólk þurfi að taka á sig einhverjar byrðar eða að minnsta kosti breyta lifnaðarháttum sínum. Vonin er sú að umskiptin verði ákjósanleg í augum sem flestra – að fjármunir sem fást við margföldun á verði jarðefnaeldsneytis muni til dæmis nýtast sem flestum á sanngjarnan máta. Ef okkur á að takast að bregðast við áður en það verður of seint verðum við að efla þá hugsun sem vinnur gegn tilhneigingum okkar til að láta afvegaleiðast, sætta okkur við orðinn hlut, velja það sem hentar okkar nærtækustu hagsmunum og vera þeir hræsnarar sem við erum innst inni. Fólk getur barist gegn slíkri bjögun hugarfarsins ef það fær menntun í því að sjá í gegnum þann moðreyk sem bæði eigin hugsun og utanaðkomandi hagsmunir skapa.
Háskólar munu að sjálfsögðu mæta skyldum sínum með nýsköpun og þjónustu við bæði einkaaðila og hið opinbera. Og hver veit nema að litlu skipti að þeir finni raunverulega til siðferðilegrar ábyrgðar og trúi því að sú ábyrgð eigi sér rætur í því hvers eðlis þeir eru sem menntastofnanir. En við bregðumst ekki eingöngu við áskorunum sem eru siðferðilegar í eðli sínu með fræðslu og boðskap um málefnið. Þótt það sé freistandi þá má ekki eingöngu nota tækifærið til að benda á að hitt og þetta sé vont, siðlaust og skaðlegt. Fólk gerir sér yfirleitt mætavel grein fyrir því og fælist oft fremur en hitt af siðaboðskap og loforðum um siðbót. Við siðferðilegum áskorunum eins og þeim hvers vegna við ættum að fórna einhverju í þágu annarra (til dæmis með hagsmuni komandi kynslóða í huga) eigum við að bregðast við með því að efla hæfni ungs fólks til að ígrunda málefnið á eigin forsendum. Það er hin raunverulega skylda háskóla í samtímanum.
Athugasemdir