Undanfarnar vikur hefur verið talað um hættuna á því að geðheilsa mannkyns fari versnandi í kjölfar kórónaveirunnar. Í þessari umræðu virðist áherslan vera sú að það sé að einhverju leyti sjúklegt að ganga í gegnum erfiðar tilfinningar. Ég hef miklar áhyggjur af því að afleiðingin geti orðið aukin sjúkdómsvæðing á eðlilegum viðbrögðum við óeðlilegu ástandi.
Ótti og sorg ættu ekki að vera stimpluð sem „geðsjúkdómar“. Það er skiljanlegt að hafa alls kyns tilfinningar í heimsfaraldri. Það er hluti af því að vera manneskja.
Það er því miður hætta á því að einstaklingar fái geðsjúkdómsstimpil að óþörfu. Í kjölfarið er hætta á að fleiri einstaklingum verði vísað inn í hefðbundið geðheilbrigðiskerfi sem byggir fyrst og fremst á sjúkdómsgreiningum og lyfjagjöf. Í stað þess að sjúkdómsvæða tilfinningar leynist lykillinn í því að ræða þær, opna á fjölbreytta líðan, veita stuðning, viðurkenna vanlíðan og finna okkar eigin bjargráð.
Ef við föllum í þá gryfju að sjúkdómsgreina eðlilegar tilfinningar þá getum við aukið hættuna á lærðu hjálparleysi og langvarandi afleiðingum eins og aukinni örorku.
Undanfarna mánuði höfum við öll gengið í gegnum áhyggjur, ótta og jafnvel sorg, sem hefur gert það að verkum að það er stundum erfitt að komast í gegnum daginn. Það er fyllilega eðlilegt að ganga í gegnum þessar tilfinningar og í raun eru þær áttavitinn okkar til að við finnum hvernig okkur líður og hvað við getum til bragðs tekið. Þar getur skipt sköpum hvaða reynslu við höfum og hvað erum við vön að gera þegar við göngum í gegnum alvarlega erfiðleika. Tilfinningarnar eru hluti af því að vera manneskja og ættu aldrei að vera skilgreindar sem „geðsjúkdómur“.
Þegar við göngum í gegnum erfiða tíma eða áföll, læðist gjarnan að okkur vonleysi sem getur tímabundið tekið frá okkur eldmóðinn og getuna til að höndla daglegt líf. Við getum upplifað depurð og kvíða. Þessi eðlilegu viðbrögð eru hins vegar tímabundin og mikilvægt að líta ekki á þau sem veikindi. Við mannfólkið höfum svo mikla möguleika á að komast í gegnum erfiðar tilfinningar, jafnvel þó þær nánast geti borið okkur ofurliði. Það er svo mikilvægt að við fáum að uppgötva styrkleika líkama og sálar til að takast á við þær tilfinningar og þjáningar sem mæta okkur. Við verðum að hafa tíma og umhverfi sem er verndandi sem getur stutt okkur þegar vanlíðan ber að garði.
Ef rokið er til sjúkdómsgreininga og lyfjagjafar erum við hins vegar tekin frá þeirri mikilvægu innri skoðun sem við þurfum að ganga í gegnum til að finna okkar eigin leiðir, bjargráð hjá okkur sjálfum og umhverfi okkar. Við erum sett inn í passívt hlutverk þar sem við bíðum þess að passa inn í sjúkdómsgreininguna og bíðum þess jafnvel að lyfin taki frá okkur þjáninguna. Það er hætta á að lyfin verði hér ofnotuð og hafa ber í huga að þau henta alls ekki öllum og geta verið skaðleg. Jafnvel gæti áherslan orðið sú að geðheilbrigðskerfið verði að bjarga okkur með tilheyrandi meðferðum sem eru ekki endilega á okkar forsendum eða hjálplegar.
Dr. John Read, sálfræðingur og prófessor við Clinical Psychology at the University of East London, bendir á að það sé hætta á að þunglyndislyf verði notuð í auknum mæli að óþörfu og að eftir fimm ár séum við með stækkandi hóp einstaklinga á lyfjum sem berst við að hætta á þeim aftur, sem getur reynst mjög erfitt.
Þetta sameiginlega áfall sem kórónaveiran er varpar ljósi á þá möguleika sem við höfum til að komast í gegnum svona alvarlega tíma og hversu vel okkur tekst að taka utan um okkur sjálf, fjölskylduna okkar og að halda áfram að lifa í breyttu landslagi. Erfiðleikarnir eru ekki alveg komnir í ljós og viðbrögð okkar ekki heldur.
Í nýjum heimi felast einnig tækifæri sem við eigum eftir að finna og nýta okkur í framtíðinni.
Við höfum nú tækifæri til að stokka upp geðheilbrigðiskerfið okkar og gera það mannlegra. Við getum hleypt inn nýrri hugmyndafræði og nýjum leiðum. Það er ástæða til að minnka einingar innan geðheilbrigðiskerfisins, gera það sveigjanlegra og aðgengilegra notendum. Þjónustan á að passa notandanum, ekki öfugt, og því væri ráð að færa hana út úr kerfinu og inn í samfélagið. Geðheilbrigðiskerfið okkar á fyrst og fremst að styðja einstaklinga og fjölskyldur í að finna eigin leiðir.
Við getum notað tímann fram undan til að breyta viðbrögðum okkar í áttina að því að meðtaka tilfinningar sem eðlilegan áttavita sem við ættum að varðveita og nýta þegar við þurfum styrk til að takast á við erfiða tíma. Grípum tækifærið til breytinga á stöðnuðu kerfi sem tekur ekki mið af lífssögunni en býr til sjúkdómssögu.
Athugasemdir