Margrét Sigríður Guðmundsdóttir er 57 ára hárgreiðslukona, tveggja barna móðir, eiginkona, systir og verðandi amma. Árið 2005 fór Margrét að finna fyrir veikindum og síðan þá hefur hún lamast hægt og bítandi en hún er greind með taugahrörnunarsjúkdóminn MS.
Í dag er hún búin að missa allan mátt í bæði höndum og fótum og þarf að reiða sig alfarið á umönnun annarra. Það er eitt að þurfa að syrgja líkamann sinn og lífið sem var kippt í burtu en það er annar hlutur sem henni datt ekki í hug að þurfa að glíma við en það er að þurfa að standa í stöðugri baráttu við kerfið. Margrét hefur ávallt búið á heimili sínu ásamt eiginmanni og syni. Síðastliðin ár hefur hún notast við heimaþjónustu frá bæjarfélaginu sem hún býr í, en í kjölfar spítalavistar í byrjun þessa árs hafnaði bæjarfélagið því að þjónusta hana frekar því kona í hennar stöðu krefst of mikillar umönnunar. Í tvö skipti frá áramótum hefur henni einnig verið hafnað plássi á hjúkrunarheimili. Hún situr í biðstöðu á stofu á Landspítalanum í Fossvogi, vegna úrræðaleysis, í plássi sem myndi nýtast veikum sjúklingum. Það hefur ekki farið fram hjá neinum síðustu ár að öll pláss spítalanna eru yfirfull.
Fljótlega eftir að Margrét var lögð inn á spítala þann 6. janúar síðastliðinn fékk hún þær fréttir að bæjarfélagið sem hún býr í gæti ekki veitt henni áframhaldandi heimaþjónustu og að hún gæti ekki flutt aftur á heimilli sitt og mannsins síns. Margréti var einnig tjáð að hún þyrfti að flytja inn á hjúkrunarheimili þar sem hún sé orðin of mikið viðfangsefni og í raun of erfitt verkefni fyrir heimaþjónustu og ekki væri hægt að bjóða starfsfólki upp á að þjónusta Margréti allan sólarhringinn. Það má líta svo á að bæjarfélagið sem Margrét býr í hafi nýtt sér tækifærið til að hafna henni um leið og hún lagðist inn á spítala. Þetta voru erfiðar fréttir fyrir Margréti og aðstandendur hennar. Við tók erfitt tímabil til að sættast við breyttar aðstæður og hvernig þeim yrði hagað. Næstu mánuðir í lífi hennar voru einir erfiðustu og mest krefjandi sem hún hefur upplifað og enn sér ekki fyrir endann á því sem hefur gengið á. Engan hefði órað fyrir erfiðleikunum sem hún hefur þurft að glíma við en Margrét, eins og margir í hennar stöðu, situr enn þá föst inni á stofu á Landspítalanum vegna takmarkaðra úrræða, þrátt fyrir að hafa ekki þurft að liggja inni eftir þessa fyrstu daga og vikur í janúar.
„Eins og margir í hennar stöðu, situr hún enn þá föst inni á stofu á Landspítalanum vegna takmarkaðra úrræða“
Næsta skref var að sækja um aðstöðu á hjúkrunarheimili og var fyrsta umsókn send á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Boðaþingi í Kópavogi. Þar var henni hafnað með þeim svörum að á Boðaþingi séu engir hjúkrunarfræðingar á nóttunni til að sinna Margréti. Þess má geta að hún hefur aldrei þurft á hjúkrunarfræðingi að halda á nóttunni eða yfirhöfuð við daglega umönnun. Þegar krafist var svara og rökstuðnings á þessari höfnun var komið að tómum kofunum; enginn kannaðist við svarið sem fylgdi höfnuninni. Þau bentu henni á að sækja um á öðrum stofnunum. Þetta tók á Margréti en hún ákvað að gefast ekki upp og halda áfram leitinni að hjúkrunarheimili sem gæti tekið við henni.
Í byrjun maí komu loksins góðar fréttir. Margrét fékk samþykkt pláss í nýrri 99 herbergja byggingu Hrafnistu á Sléttuvegi. Samkvæmt útskriftarteymi Margrétar á Landspítalanum er ein deild í þessu nýja húsnæði hannað fyrir fólk yngra en 67 ára og í svipaðri stöðu og hún.
Í kjölfarið þurfti hún að skrifa undir skjal, eins og reglur gera ráð fyrir, um hvort hún vilji endurlífgun ef til kæmi að hún færi í hjartastopp. Fyrir alla er þetta erfið ákvörðun, sérstaklega fyrir fólk á besta aldri. Daginn eftir að hún skilaði inn skilgreindum pappírum var komið inn til hennar og henni tjáð að allt sé frágengið og hún muni fara fyrir helgi eða rétt eftir helgi. Margrét var ánægð og spennt með að vera loksins komin með samþykki fyrir aðstöðu á hjúkrunarheimili.
Það leið þó ekki á löngu þar til allt breyttist skyndilega. Sama dag var henni tjáð að Sléttuvegurinn væri búinn að hafna henni á þeim forsendum að það sé ekki nægilega mikið af starfsfólki á heimilinu til að sinna henni. Enn ein höfnunin sem hún fær og veröldin hrundi yfir hana í enn eitt skiptið. Hún sat ein með tárin í augunum innan fjögurra hvítra veggja stofunnar sem hún hefur setið föst í síðan 6. janúar. Enginn aðstandandi mátti heimsækja hana á spítalann til að taka utan um hana, hughreysta og styðja hana í þessari endalausu baráttu við kerfið vegna heimsóknarbanns á tímum COVID-19.
Þegar farið var aftur af stað að krefjast svara, kom í ljós að umsókn hennar hafði aldrei verið samþykkt og var einungis í skoðun hjá Sléttuveginum. Það að Margrét hafi fengið þær upplýsingar að þetta hafi verið samþykkt er mjög ónærgætið við einstakling í svo viðkvæmri stöðu.
Ástæðan fyrir höfnuninni var skortur á starfsfólki. Það er ekki nægilegt fjármagn frá ríkinu til að ráða starfsfólk þrátt fyrir fjölda umsókna, bæði fag- og ófaglærðra.
Þann 6. mars var spítalanum lokað almenningi vegna COVID-19. Margrét sat nánast föst inni á herbergi sínu og hitti ekki neinn fjölskyldumeðlim þar til opnað var aftur fyrir heimsóknir þann 18. maí, að undanskilinni jarðarför tengdamóður hennar sem lést í lok apríl. Þá fékk Margrét sérstakt leyfi til að fara út af spítalanum í nokkra klukkutíma.
Hún hafði því nánast ekki hitt neinn nema starfsfólkið á spítalanum sem sinnir henni og ekki farið út af herbergi sínu í meira en 60 daga. Þetta var eflaust raunin fyrir fleira fólk í sömu eða svipaðri stöðu og Margrét.
Hvenær er komið nóg? Hvernig eru þetta boðleg vinnubrögð? Er Margrét ekki manneskja eins og allir aðrir ? Eru þau að bíða eftir því að hún hreinlega deyi því þá hverfur vandamálið? Hvenær kemur sá tími að fólk í hennar stöðu fái þá virðingu og aðstoð sem það á skilið?
Margrét er manneskja, alveg eins og ég og þú, en í kerfinu er hún eins og pestin sjálf sem enginn vill fá. Hún kemur alls staðar að lokuðum dyrum og enginn vill vita af henni.
Það er ekki nóg að opna stórt og glæsilegt hjúkrunarheimili sem lítur vel út á pappír en geta svo ekki tekið við skjólstæðingum vegna skorts á starfsfólki og í staðinn standa rýmin á hjúkrunarheimilum tóm og stofurnar á spítölunum fullar af fólki að bíða eftir úrræði.
Það þarf að gera eitthvað í málinu, það er ekki hægt að bjóða fólki upp á svona framkomu!
Við krefjumst aðgerða strax!
Athugasemdir