Tíu fyrirspurnum Brynjars Níelssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokks, var dreift á Alþingi í dag. Beinir hann fyrirspurnum sínum til allra ráðherra ríkisstjórnarinnar og vill vita hver kostnaður ráðuneytanna hafi verið af því að svara fyrirspurnum frá þingmönnum Pírata.
Brynjar hefur verið gagnrýninn á stjórnmál Pírata og segir þá kæfa þingið í fyrirspurnum. Fyrirspurn hans nú til ráðherranna tíu er í þremur liðum. „Hversu margir starfsmenn ráðuneytisins koma að því að undirbúa skrifleg svör við fyrirspurnum þingmanna og hver er áætlaður heildarfjöldi vinnustunda sem í það hefur farið árlega síðastliðin fimm ár?“ spyr hann í fyrsta lagi.
Þá spyr Brynjar um heildarkostnað ráðuneytanna við skrifleg svör við fyrirspurnum frá þingflokki Pírata á yfirstandandi þingi og hversu margar vinnustundir starfsmanna hafi farið í að svara þeim. „Hvað eru fyrirspurnir til skriflegs svars frá hverjum þingmanni í þingflokki Pírata hátt hlutfall slíkra fyrirspurna til ráðherra?“ spyr hann að lokum.
Athugasemdir