Katrín Eydís Hjörleifsdóttir
Fyrir mér er hamingjan ákvörðun og hún verður til innra með manni sjálfum. Það er ekki hægt að ætlast til þess að aðrir beri ábyrgð á manns eigin hamingju. Það er líka þannig að það sem veldur hamingjutilfinningunni er mismunandi milli einstaklinga í tíma og rúmi. Ég sjálf horfi á litlu hlutina í lífinu, það sem er í kringum mig á hverjum tíma, fólkið og náttúruna. Fyrir mér er það að vera hamingjusamur að vera sátt við gærdaginn, líta á daginn í dag sem gjöf og hlakka til morgundagsins. Þetta er eiginlega spurning um lífsskoðun.
Raul Andre Mar Nacaytuna
Hamingjan getur verið huglæg, persónuleg og einstök fyrir hvern og einn. Hamingja mín hefur verið afleiðing lífsreynslu minnar frá því á æskuárum til dagsins í dag. Lífsreynsla skiptir meira máli heldur en efnislegir hlutir og það að ferðast hefur veitt mér mikla gleði. Sem hjúkrunarfræðingur upplifi ég árangur og hamingju þegar ég sýni samúð, færni og ábyrgð. Ég hef í gegnum lífið gert mér grein fyrir mikilvægi þess að velta hlutunum fyrir mér sem hefur komið mér í skilning um að það sé alltaf ástæða til að vera hamingjusamur og njóta lífsins.
Jóna Ósk Konráðsdóttir
Hamingja verður til af hugarástandi eða tilfinningu sem veitir jákvætt og notalegt viðhorf. Hamingja held ég að sé að vera sáttur við sjálfan sig og þá sem standa manni næst.
Ívar Ólafsson
Hamingja er að vera sáttur við sjálfan sig og aðstæður sínar, hverjar sem þær kunna að vera. Undirstaða hamingju er að finna tilgang í lífinu, jafnvel hafa markmið að stefna að. Bíbí Ólafsdóttir miðill sagði að tilgangur lífsins væri að rækta kærleikann. Það er góður tilgangur. Svo er mikilvægt að eiga einhvern að, vera ekki aleinn, hvort sem um fjölskyldu eða vini er að ræða. Góð heilsa, andleg og líkamleg, er líkleg til þess að veita hamingju. Umburðarlyndi og fyrirgefning eflir hamingjuna en hatrið skemmir hana. Ekki er heppilegt að gera kröfu um að vera stöðugt að springa af hamingju því að í venjulegu lífi skiptast á skin og skúrir.
Tinna Hrafnsdóttir
Fyrir mér er hamingjan fólgin í því að finna fegurðina í hversdagsleikanum, litlu hlutunum í lífinu sem eru kannski ekki merkilegir en þó svo langt frá því að vera sjálfsagðir. Ég er kannski að brjóta saman þvott af börnunum mínum og þá getur ómerkilegur sokkur minnt mig á hvað ég er heppin að fá að elska, elska þetta barn sem á þennan sokk, og þá hellist yfir mig sterk hamingjutilfinning. Að geta hvílt í núinu með bros á vör, notið ferðalagsins í stað þess að einblína á áfangastaðinn, fundið fyrir þakklæti og sátt í sálinni er hamingjan fyrir mér.
Athugasemdir