Í vikunni fékk ég símtal frá vini mínum sem hafði spurningar um hvernig kreppan sem við erum skyndilega stödd í myndi spila sig út. Fram að því hafði ég lítið velt því fyrir mér. Það er bara svo stutt frá hruninu að ég er bara ekki alveg tilbúinn til að feisa nýja kreppu (ekki frekar en flestir aðrir, ímynda ég mér). En COVID er í rénun, kreppan komin af fullum þunga, stjórnvöld búin að skipta um gír í mótvægisaðgerðum. Það er sennilega ekki hægt að humma fram af sér mikið lengur að spá í kreppuna sem við erum að fara að ganga í gegnum. Þessi pistill er þannig tilraun til að reyna að ná utan um hana að því marki sem er hægt á þessum tímapunkti.
Hrunið og COVID-kreppan
Það fyrsta sem blasir við er að þessi kreppa er annars eðlis en hrunið. Hrunið átti uppruna sinn í fjármálakerfinu, COVID-kreppan í ytri aðstæðum. Ein afleiðing af því er að það er mun meiri óvissa um horfur til bæði lengri og skemmri tíma núna en var haustið 2008. Lykilspurningin er hvenær það verður hægt að opna landið aftur fyrir ferðamönnum sem ræðst að stóru leyti af aðstæðum sem við höfum enga stjórn yfir. Það er líka óljóst hvort COVID muni hafa langvarandi áhrif á túrisma í heiminum, svo sem draga úr honum eða breyta ferðamynstrum. Efnahagslegar afleiðingar faraldursins gætu til dæmis dregið úr túrisma.
Í kjölfar hrunsins dró verulega úr ójöfnuði á Íslandi. Það skýrist að stærstu leyti af því að tekjur alls þorra fólks drógust saman, því meira því hærri tekjur sem fólk hafði. Áherslur stjórnvalda höfðu einnig áhrif en mestu áhrifin voru þó af hruninu sjálfu. Það er ekki augljóst að það verði eins í þetta sinn. Sennilega ræðst það að nokkru leyti af því hvar í tekjustiganum fólk sem missir vinnuna stóð sem og hve lengi það verður atvinnulaust. Á þessum tímapunkti er hins vegar mjög erfitt að spá fyrir um hvaða áhrif þessi kreppa kemur til með að hafa á ójöfnuð.
Annað sem verður öðruvísi í þessari kreppu er að atvinnuleysi verður líklega mun meira í kjölfar hrunsins. Atvinnuleysið verður ekki aðeins meira en í kjölfar hrunsins heldur lendir það á öðrum atvinnugreinum en þá, auk þess sem það mun dreifast mjög ójafnt yfir landið. Í nýlegri Hagsjá Landsbankans er reiknað með því að atvinnuleysi nái allt að 40% á smærri stöðum sem eru mjög háðir túrisma. Atvinnuleysi hefur margs konar slæmar afleiðingar fyrir fólk, efnahagslegar, félagslegar sem og á andlega og líkamlega heilsu. Fjöldaatvinnuleysi er hins vegar ekki bara spurning um magn heldur breytir það eðli vandans þegar mjög hátt hlutfall fólks á tilteknu svæði er atvinnulaust þar sem ýmiss konar félagsleg vandamál geta byrjað að grassera til viðbótar við önnur áhrif sem atvinnuleysi hefur á einstaklinga. Fjöldaatvinnuleysi verður að taka föstum tökum.
Það er hins vegar erfitt að átta sig á því hve stórt vandamál atvinnuleysi verður til lengri tíma enda veltur það að miklu leyti á því hvenær og hve mikið verður hægt að opna landið fyrir ferðamönnum. Í bestu hugsanlegu sviðsmynd gerist það hratt og örugglega og atvinnuleysi og fjöldaatvinnuleysi verður skammlíft vandamál. Ef það sækist hægt að létta ferðamannahöftunum eða ef túrisminn tekur hægt við sér af öðrum ástæðum er staðan önnur og verri.
Sjálfleyst vandamál?
Óvissan veldur því að það verður erfiðara að átta sig á því hvernig sé best að bregðast við aðstæðum. Ef við vonum það besta getur besta leiðin verið að harka af sér tímabundið ástand og vonast til að vandamálin leysist af sjálfu sér með auknu flæði ferðamanna. Stundum leysast vandamál af sjálfu sér. Það má til dæmis segja að við höfum beinlínis lent í ferðamannastraumnum í kjölfar hrunsins. Það var gott að því leyti að það skapaði störf og tekjur en ekki endilega frábært þegar við horfum til þess að fókusinn í atvinnustefnu þjóðarinnar færðist að mestu leyti á ferðamennsku á kostnað annarrar uppbyggingar. Fyrir vikið urðum við mjög háð atvinnugrein sem er viðkvæm, ekki bara fyrir heimsfaröldrum heldur einnig fyrir efnahagsástandi í heiminum.
Spurningin sem stjórnvöld standa frammi fyrir er hversu lengi efnahagsleg áhrif COVID munu vara og hversu lengi við höfum efni á því að halda í vonina um að vandamálið leysist svo gott sem af sjálfu sér. Það er ekkert að því að halda í vonina en það getur farið illa ef maður byggir stefnumótun á slíkri von.
Ef efnahagsleg áhrif COVID vara of lengi er mikilvægt að stuðla að atvinnuuppbyggingu á öðrum forsendum en við höfum gert hingað til.
Ef efnahagsleg áhrif COVID vara of lengi er mikilvægt að stuðla að atvinnuuppbyggingu á öðrum forsendum en við höfum gert hingað til. Eftirspurn innanlands mun þurfa að leika stærra hlutverk í atvinnuuppbyggingu. Þar skiptir kaupmáttur fólks miklu máli. Atvinnuleysi er hins vegar ekki bara afleiðing af minni eftirspurn heldur einnig orsök hennar. Ein af þeim hugmyndum sem hafa verið viðraðar er að fjölga störfum hjá ríkinu. Þessi hugmynd hefur vakið blendin viðbrögð og sumir gengið svo langt að líkja henni við einhvers konar atvinnubótavinnu þar sem fólk grefur skurði til þess eins að fylla þá aftur.
Það hvort hugmyndin sé góð eða ekki ræðst af því hvort ríkið hafi þörf fyrir fleira starfsfólk eða ekki. Ég ætla að hætta mér út á ísinn og halda því fram að það hafi það. Víða í opinberum rekstri hefur verið viðvarandi aðhald frá hruni. Það birtist meðal annars í vaxandi kulnun og mikilli starfsmannaveltu í ýmsum störfum. Það boðar ekki gott fyrir fólk í slíkum störfum að horfa fram á nýjan niðurskurð og áframhaldandi aðhald næstu árin. Það boðar heldur ekki gott fyrir gæði opinberrar þjónustu. Ég held að það sé ekki versta hugmyndin að fjölga lögregluþjónum, starfsfólki í heilbrigðiskerfinu, í umönnunarstörfum, við kennslu og hvers kyns velferðarþjónustu, svo dæmi séu nefnd.
Virk atvinnustefna
Ég kemst ekki mikið lengra í þessum vangaveltum að svo stöddu. Það liggja einfaldlega ekki fyrir nægjanlegar upplýsingar auk þess sem óvissan er of mikil. Það er þó einn punktur til viðbótar sem er vert að minnast á sem varðar atvinnustefnu. Þegar maður skoðar atvinnuþróun á Íslandi það sem af er þessari öld virðist vera að við „lendum“ í hlutum. Við lentum í útrásinni, lentum í túrismanum og áherslur í atvinnuuppbyggingu aðlaga sig hratt að slíkum aðstæðum. Íslensk atvinnustefna virðist ekkert sérstaklega forvirk, snýst meira um að bregðast við aðstæðum, skella öllum eggjunum í eina körfu og hugsa „þetta reddast“. Þetta hefur virkað furðu vel fram til þessa. Það þýðir ekki endilega að það muni halda áfram að gera það.
Athugasemdir