„Að lífið sé skjálfandi lítið gras má lesa í kvæði eftir Matthías.“
Gefum okkur sem svo um stund að svo sé. Að við horfum yfir grasbalann sem líf okkar er og sjá. Grösin eru mögulega dálítið ámátleg að sjá eftir dimman og þungan vetur og teygja sig þyrst móti sólarljósinu. Rétt eins og við mannfólkið sem þyrpumst nú út á alla hugsanlega stíga og slóða og fögnum hækkandi sól og bjartari og vonandi veiru-lausri tíð fram undan. Ekki er ólíklegt að allmargar grasflatir þarfnist áburðar til að taka við sér og spretta upp sem besta útgáfan af því skjálfandi, litla grasi sem þau eiga að sér að vera.
Rétt eins og við getum nú nært sálartetrið á ný með auknum, mannlegum samskiptum og félagslegum athöfnum. Áburði lífsins sem nærir okkur og bætir sprettu andans svo um munar. Grasið má ekki heldur spretta úr sér og því er nauðsynlegt að sinna reglulega sláttustörfum. Losa sig við mesta kúfinn og raka saman því sem er óþarft og þvælist fyrir vegfarendum. Fram undan er vor og sumar og nú er spurning hvort veðurguðirnir muni blessa okkur að mestu með veðursæld. Að sama skapi er svolítil væta nauðsynleg fyrir blessuð grösin.
Þá er vert að reyna að taka skúrunum ekki of persónulega og reyna að láta sálina ekki verða eins og rennblautt forarsvað. Frekar að láta þá birtuna næra fítonskraftinn sem okkur hefur einkennt sem þjóð síðastliðnar vikur. Demba okkur í pollagallann og hoppa í pollunum. Njóta þess að fara í sund þegar sundlaugarnar opna og finna nokkra hressandi dropa falla á sig. Fagna því að geta farið út að hreyfa okkur að vild og þakka fyrir smæð þjóðar og alla þá ferkílómetra sem hún getur deilt með sér. Nokkuð sem auðveldar umgengi okkar á nýjum og breyttum tímum til muna.
Grasið er nefnilega ekkert alltaf grænna hinum megin. Það getur bara tekið dálítinn tíma og þolinmæði að ná ákjósanlegri sprettu og gróðursæld í grasbalann. Að því sögðu þá vona ég þó innilega að sólin skíni sem mest á landann á komandi sumri svo að lífsgrösin fái að orna sér svolítið og drekka í sig nauðsynleg vítamín og kraft.
Athugasemdir