Listir hafa löngum verið drifkraftur samfélagsbreytinga en þó flokkast ekki allar listir undir hugtakið samfélagslistir. Í vetur hefur allstór hópur undirbúið daglangt málþing um samfélagslistir sem halda átti í Iðnó í sumar undir heitinu ÖLLUM TIL HEILLA. Þar sem þinginu hefur verið frestað um óákveðinn tíma ákvað ég að skrifa nokkur orð um eðli samfélagslista í því skyni að undirstrika samfélagslegt gildi lista á viðsjárverðum tímum. Að sjálfsögðu er skynsamlegra þegar að kreppir að styrkja fólk til uppbyggilegra samfélagsverkefna í stað þess að geyma það á bótum. Margir njóta afraksturs samfélagslista; þau fá atvinnu sem kunna að valdefla aðra með aðferðum listanna, þau sem taka þátt í verkefnunum öðlast lífsfyllingu og jafnvel störf og allur almenningur nýtur góðs af sköpuninni.
Að undanförnu hef ég átt í bréfaskiptum við breska samfélagslistamanninn og fræðimanninn François Matarasso. Sem aðalfyrirlesari á þinginu vill hann sannreyna að við leggjum sama skilning í ofangreint hugtak og hann. Þegar hann kom til Íslands um árið hreifst hann nefnilega af blómlegu listalífi okkar á Menningarnótt en samt skilgreinir hann Menningarnótt ekki sem samfélagslistir heldur sem „everyday culture.“ Grundvöllur alls menningarlífs er að almenningur skapi, dreifi og njóti lista.
En samfélagslistir eru annað.
Kvik list fólksins
Í bók sinni A Restless Art (2019) lýsir Matarasso því hvernig listformið Community Art fæddist í enskumælandi hlutum heimsins í menningarbyltingu sjöunda áratugar síðustu aldar og breiddist þaðan einkum um norðurhluta Evrópu. Hann notar þó sjálfur nýrra orð yfir skapandi og valdeflandi vinnu sína með jaðarsettum hópum: Participatory art eða þátttökulist. Um þessar mundir blómstar listformið einkum í suður- og austurhluta álfunnar en eðli samfélagslista er að eflast í þrengingum. Samfélagslistir eru aðferð fólksins til að horfast í augu við aðsteðjandi vanda og leið ólíkra þjóðfélagshópa til að skapa gagnkvæman skilning í samtali með tjáningarformum listanna. Þannig tengjast listir sjálfsvinnu, velferðarþjónustu, lýðheilsu, mannréttindum og pólitík. Í upphafi bókar sinnar segir Matarasso að listformið sem lengi fór leynt sé nú orðið vel þekkt og viðurkennt víða um heim.
Almenningi til heilla
Málþingið ÖLLUM TIL HEILLA verður haldið í samstarfi fjögurra aðila undir merkjum Klúbbs Listahátíðar Reykjavíkur. Nafnið er innblásið af annarri grein skipulagsskrár Listahátíðar Reykjavíkur sem segir að hlutverk hátíðarinnar sé að efla menningar- og listalíf, almenningi til heilla. Að undirbúningi koma þrjú ráð og svið Reykjavíkurborgar, þau sem fara með velferð, mannréttindi og menningu, Mannréttindaskrifstofa Íslands vegna áherslu þingsins á menningarleg mannréttindi og ReykjavíkurAkademían sem hafði frumkvæði að samvinnunni vegna þeirrar þekkingar á viðfangsefninu sem félagar hennar hafa skapað þau rúmu tuttugu ár sem Akademían hefur starfað.
Reyndar fer hópur samstarfsaðila stækkandi þar sem margir sýna því áhuga að skoða hvernig listir má nota til að auka nýsköpun í velferðarþjónustu og mannréttindi jaðarsettra hópa. Listmenntastofnanir beina augum sínum í auknum mæli að samfélagslistum og menntaáætlanir Evrópusambandins hafa með styrkjum sínum gætt lífi fjölmörg fjölþjóðleg samvinnuverkefni á sviðinu. Á málþinginu munu þátttakendur fá að kynnast erlendum fyrirmyndum og frumkvöðlastarfi Íslendinga í öðrum löndum en kastljósinu verður þó fyrst og fremst beint að vaxandi grósku á sviði samfélagslista hérlendis.
Það virkar betur með listum
Sjálf tengdist ég samfélagslistum fyrst fyrir tæpum fjörutíu árum þegar ég sem nýútskrifaður myndlistarkennari fékk vinnu við stórt verkefni á vegum sænskra yfirvalda. Heilum her listamanna var stefnt saman til að auka lífsgæði íbúa brothættra byggða og viðhalda þannig lífi í öllu þessu aflanga landi. Í strjálum byggðum Samalands komst ég fyrst í kynni við ritlistarkennslu sem ég lagði síðar fyrir mig vegna þess að ég sá hvað frásagnarlistin, það magnaða verkfæri, hjálpar fólki að tengjast sjálfu sér og samfélagi sínu.
Seinna kynntist ég því víða um Austur-Evrópu hvernig margar stofnanir og félagasamtök sinna samfélagsþjónustu og listum jöfnum höndum. Má þar nefna Heimilislausa leikhúsið (Divadlo bez domova) sem í fimmtán ár hefur sett upp sýningar með götunnar fólki í Bratislava. Þótt sumir leikaranna eigi hvergi höfði sínu að halla vekja sýningarnar athygli fyrir agaðan leik. Zuzana Pokorná, einn leikaranna, hefur skrifað um umbreytinguna sem varð á lífi hennar í leikhúsvinnunni. Um félaga sína segir hún: „Þótt þú legðir þig fram um að leita myndirðu ekki finna sársauka og sorg í andlitum þeirra. Lífsgleðin og löngunin til að skapa eru sterkari.“
Þar gerast undur
Heimilislausa leikhúsið í Bratislava er tilnefnt til evrópsku SozialMarie verðlaunanna í ár fyrir samfélagslega nýsköpun. Leikhúsið stendur líka fyrir ERROR, árlegri, alþjóðlegri hátíð heimilislausra leikhúsa, en orðið heimilislaus nær hér til allra berskjaldaðra hópa. Haustið 2016 átti íslenski leikhópurinn Húmor frá Hlutverkasetri opnunaratriði hátíðarinnar. Í útvarpsviðtali sagði einn íslensku leikaranna að hann hafi aldrei upplifað annað eins frelsi og í fjölbreytilegri mannlífsflóru hátíðarinnar. Ég tek undir það. Því fylgir djúpstæð gleði að anda að sér andrúmslofti sem skapast þegar ólíkir samfélagshópar nota leiðir listanna til að tjá sig um líf sitt, líðan og aðstæður. Þar gerast þau undur sem Zuzana lýsir þannig: ,,Það gerist ekki strax, það gerist hægt, það er ekki auðvelt en það er mikilvægt. Það gerist hvort sem þú hefur leikhúsið eða það ekki en það virkar bara svo miklu betur í leikhúsinu.“
Listir stuðla að innri breytingum einstaklinga og ytri breytingum samfélaga. Það er gaman að nefna að nú þegar Heimilislausa leikhúsið í Brataslava er lokað af smitvarnarástæðum hafa stjórnvöld fengið leikarana í lið með sér við að byggja sóttkví fyrir heimilislausa í borginni. Málþingið ÖLLUM TIL HEILLA verður haldið þegar heimurinn hefur jafnað sig og því er ætlað að vekja athygli á valdeflandi umbreytingaráhrifum listanna. Nú er lag að nýta kraft listanna.
Björg Árnadóttir er rithöfundur og ritlistarkennari, félagi í ReykjavíkurAkademíunni, Rithöfundasambandinu og eigandi Stílvopnsins.
Athugasemdir