COVID-19 faraldurinn og viðbrögðin við honum opna nýja möguleika. Þeir eru ekki allir góðir.
1. Kvíðinn
Á dögunum sendi kona inn grein á Vísi, sem var reiðilestur yfir fólki sem hafði haldið partí og fólk hafði verið of nálægt hvað öðru í ísbúð. Greinin naut mikilla vinsælda. „Kannski er ég svona hvöss af því ég hef hangið heima hjá mér í að verða mánuð. Þetta er ekkert flókið. Inn í hellinn með ykkur.“
Lögreglan áréttaði hins vegar opinberlega að heimaboðin teldust ekki brot á samkomubanni.
Fólk hringdi inn í útvarpið og kvartaði undan því að verkamenn væru saman á bíl, og ekki með tvo metra á milli sín, en Víðir Reynisson frá Ríkislögreglustjóra áréttaði að matið ylti á aðstæðum, ef menn væru að vinna náið saman skipti ekki sköpum hvort þeir sætu í sama bíl.
Sumir hafa reiðst „másandi“ hlaupurum, af ótta við að þeir andi að þeim veirunni, eða fólki sem hefur gengið of nálægt öðrum.
Á tímabili var fólk gagnrýnt fyrir að fara út að hlaupa, fyrir að taka til á heimilinu og fara í Sorpu, og senda börn í skólann.
Tölfræðilega er mögulegt að smitast af ókunnugum sem fer framhjá manni á gangstéttinni, þótt það sé afar ólíklegt og smit berist almennt milli nákominna.
Kvíði veldur því að hugurinn gerir lítinn greinarmun á tölfræðilegum líkum, svo lengi sem um er að ræða möguleika. Kvíðnir ofmeta líkurnar á því að smitast, lenda á sjúkrahúsi, eða jafnvel deyja, hvort sem líkurnar eru mjög litlar eða miklar. Kvíðinn leiðir af sér þörf fyrir fólk til að stjórna aðstæðum, sem felst gjarnan í því að stjórna öðrum og krefja þá um skýlausa hlýðni við regluramma. Kvíði fólks þýðir þó auðvitað ekki að ekki eigi að fylgja reglum. Hins vegar getur kvíðinn haft mótandi áhrif á samfélagið, og rétt eins og kvíði einstaklings getur kvíði í samfélaginu haft skaðlegri áhrif en ógnin sjálf.
Búist er við því að álag á geðheilbrigðiskerfið aukist vegna kvíða tengdum faraldrinum.
Rannsóknir hafa sýnt að við óttumst frekar það sem er okkur óþekkt. Áhrifin aukast eftir því sem streitan okkar er meiri. Þetta leiðir af sér að ekki einungis óttumst við COVID-19 smitsjúkdóminn óhóflega samanborið við aðrar ógnir, heldur brýst þessi ótti út gagnvart fólki sem við metum öðruvísi.
Brasilískur maður var fluttur með lögregluvaldi úr verslun Hagkaups í Garðabæ fyrir nokkrum dögum eftir að hafa hóstað, vegna þess að öryggisvörður taldi hann smitandi. Kona af asískum uppruna varð fyrir því að ungur strákur tók myndband af henni, kallaði hana kórónavírus og birti á Tik Tok.
2. Hatrið
Þingmaðurinn fyrrverandi, Pawel Bartoszek, skrifaði varnargrein fyrir frelsi, þar sem hann hvatti til afléttingar á hömlum um leið og ástandið væri liðið hjá, en viðbrögðin birtust í því að ein vinsælustu ummælin undir frétt af greininni voru tilmæli til Pawels: „Viðraðu þetta við pólsk stjórnvöld.“
Önnur vinsæl ummæli vísuðu til þess að hann væri sjálfselskur, því hann langaði bara í heimsókn til vina og ættingja í Póllandi.
„Hvað er þessi Pólverji að bulla?“ skrifaði annar.
„KOMDU ÞÉR BARA HEIM TIL ÞÍN FÍFLIÐ ÞITT,“ skrifaði kona í Reykjavík, sem annars stundar að senda knús á Facebook.
„Er orðið of seint að senda hann heim,“ sagði önnur kona.
„Ég vil hann heim til sín að opna allt þar,“ sagði þriðja konan með merkið „Ég hlýði Víði“ á prófílmynd.
Allt þetta fólk birtist undir nafni og fékk mikinn stuðning með því að útskúfa samborgara sínum á grundvelli uppruna.
Pawel Baroszek er stærðfræðingur sem hefur um árabil skrifað greiningar um íslenskt efnahags- og þjóðlíf, ásamt því að hafa setið á Alþingi og í borgarstjórn. Hann hefur búið á Íslandi frá barnæsku.
Einn þekktasti sagnfræðingur heims, Ísraelsmaðurinn Noah Yuval Harari, sem skrifaði bókina Sapiens, varaði við því í vikunni að veiran væri ekki það hættulegasta við ástandið núna.
„Ég er hræddur um að fólk bregðist við vírusnum ... með hatri“
„Mesta hættan er ekki vírusinn sjálfur. Mannkynið hefur yfir að búa allri þeirri vísindaþekkingu og tækjum til að yfirstíga vírusinn. Stóra vandamálið eru okkar eigin innri djöflar, hatur okkar, græðgi og vanþekking. Ég er hræddur um að fólk bregðist við vírusnum, ekki með alþjóðlegri samstöðu, heldur með hatri, að kenna öðrum löndum um, eða þjóðernis- og trúarlegum minnihutahópum.“
3. Hættan
COVID-19 er hættulegur smitsjúkdómur, sérstaklega fyrir elstu aldurshópana. Í byrjun mars gerði Alþjóðaheilbrigðisstofnunin ráð fyrir 3,4% dánartíðni. Þá var dánartíðnin áætluð 5,8% í Wuhan, upprunasvæði faraldursins. Hins vegar hefur síðar komið í ljós að mun fleiri hafa smitast og því er dánartíðnin verulega ofmetin í þeim tölum.
Um 0,6 prósent þeirra sem hafa greinst með COVID-19 á Íslandi hafa látist. Mun fleiri hafa smitast en þeir sem hafa greinst og því er raunveruleg dánartíðni án vafa vel innan við helmingur opinberu tölunnar.
Augljóst er að dánartíðni hefur verið lækkuð með aðgerðum og að án viðbragða hefði veiran gengið hraðar yfir og valdið örara tjóni.
Breytingar á hegðun fólks hefur minnkað verulega hættuna á smitum. Óljóst er hvaða hegðun hefur mest áhrif, handþvottur, félagsforðun þeirra sem hafa einkenni, hanskanotkun, tveggja metra reglan eða annað. Smitrakning, sóttkví og einangrun smitaðra hefur án vafa haft lykiláhrif. Sérstök vernd aldraðra er annað sem skiptir sköpum, vegna þess að langflestir sem látast eru í þeim hópi. Almannavarnir vilja lágmarka alla þættina og fóru því meðal annars fram á að fólk sleppti ferðalögum um páskana vegna óbeinnar, tölfræðilegrar hættu á því að lenda í bílslysi og valda álagi sem leggst ofan á álag á heilbrigðisstofnunum vegna COVID-19.
4. Nýjar skyldur og forgangsröðun
Til samanburðar létust árin 2000 til 2006 á bilinu 19 til 32 á ári í umferðarslysum og 115 til 222 slösuðust alvarlega. Þetta er á heilu ári og því ekki sambærilegt við ógnina af COVID-19, sem getur horfið við að bóluefni finnist.
Á Íslandi hafa yfirleitt látist færri en 10 á hverju ári vegna inflúensu, eða mun færri en mætti búast við vegna COVID-19 án aðgerða. Árið 2017 var versta árið undanfarið, en þá létust 18 vegna flensunnar. Munum við meta þessa ógn og getu okkar til að bregðast við öðruvísi í kjölfar COVID-19?
Nú er varað við því að efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins leiði til þess að 130 milljónir manna til viðbótar lendi í hungursneyð, eða tvöfalt á við núverandi fjölda í hungursneyð. Skammvinna kreppan sem spáð var vegna aflokunarinnar gæti orðið langvinn, en dauðsföll vegna hennar verða fyrst og fremst í þróunarríkjum.
En hvers vegna sættum við okkur frekar við sumt en annað?
Ein þekktasta dæmisaga siðfræðinnar er vagnavandamálið svokallaða, eða „trolley problem“. Ef stjórnlaus lestarvagn stefnir að fimm manneskjum, en þú gætir beint honum yfir á aðra teina þannig að hann myndi bara hæfa eina manneskju, ættirðu þá að breyta stefnunni og láta vagninn keyra yfir þá manneskju, til að hlífa fimm?
Í raunveruleikanum er yfirleitt meiri óvissa í ákvörðunum. Þar koma líka fleiri atriði til. Ef við lítum svo á að okkur beri að setja hagsmuni Íslendinga í forgang í krísuástandi, ættum við þá að beina lestarvagninum frá Íslendingi yfir á útlendinga?
Efnahagslega tjónið vegna COVID-19 rýmkar umfang mögulegra viðbragða okkar til að bjarga fólki. Þegar við vitum að við getum slökkt á heilu atvinnugreinunum til þess að minnka tölfræðilega líklegt manntjón vaknar spurningin: Hvernig getum við réttlætt að fórna ekki hagsmunum þegar við sjáum skaðann sem aðrir verða fyrir dag eftir dag?
5. Fjögur módel út frá valdi
Skipta má ríkjum upp í fjögur mismunandi módel með tilliti til viðbragða við COVID-19.
1. Lýðræðisríki sem beita valdi til að bæla faraldurinn, til dæmis með útgöngubanni. Dæmi eru Spánn, Ítalía og Bretland.
2. Lýðræðisríki sem beita lágmarksvaldi og stefna beint eða óbeint að hjarðónæmi, til dæmis Svíþjóð og á tímabili Ísland.
3. Popúlísk lýðræðisríki þar sem aðgerðir stjórnvalda miðast gjarnan við pólitíska hagsmuni æðstu ráðamanna, eins og Bandaríkin með Trump og Brasilía með Bolsonaro. Undir þetta fellur líka Ungverjaland, þar sem forsetinn, Victor Orbán, hefur fengið vald til að stjórna með tilskipunum og kæfa niður fjölmiðla.
4. Einræðisríki sem beita borgara hörðum aðgerðum í nafni öryggis, þar sem upplýsingum er leynt, gagnrýni er bæld með valdi og réttindi almennra borgara skör neðar. Besta dæmið um þetta er Kína, með Xi Jinping forseta í forystu. Fyrir tveimur árum var tveggja ára kjörtímabila hámark á forsetastóli í Kína afnumið úr stjórnarskrá til að tryggja áframhaldandi völd Xi Jinping.
Í mars tóku margir upp á því að hrósa Kínverjum fyrir aðgerðir sínar, sem fólu meðal annars í sér að logsjóða aftur dyrnar að heimilum fólks til að tryggja einangrun eins og síðar kom í ljós.
Þótt faraldurinn hafi borist frá Kína virðist faraldurinn styrkja stöðu Kína. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir ráð fyrir 1,2% hagvexti í Kína á þessu ári og 9,2% hagvexti á næsta ári. Á sama tíma fellur landsframleiðsla á þessu ári um 6% í Bandaríkjunum og 7,5% á evrusvæðinu, en nær sér að hluta aftur á næsta ári.
Þótt faraldurinn hafi haft neikvæð áhrif á mjúkt vald Kína gagnvart vestrænum ríkjum, heldur efnahagslegt vald fyrirsjáanlega áfram að vaxa.
6. Staða Íslands
Þegar farin er bælingarleið gagnvart faraldrinum, eins og Íslendingar gera, má búast við endurteknum bylgjum, nema landinu verði lokað áfram. Bælingarleiðin felur því í sér efnahagslegan óstöðugleika eða óvissu til lengri tíma, þar til bóluefni finnst. Óháð okkar aðgerðum er hrun í ferðaþjónustu óumflýjanlegt, sem kemur mun verr niður á íslensku atvinnulífi en víðast annars staðar vegna hlutfallslega fyrirferðar ferðaþjónustu.
En Ísland er fimmta dreifbýlasta land í heimi, með tæplega 4 íbúa á ferkílómetra. Þegar fólk fer að ferðast en forðast engu að síður mannþröng, verður líklega hlutfallslega aukin aðsókn í ferðir þangað sem ekki er mannþröng.
Fá lönd þurfa meira á tengslum við umheiminn að halda en Ísland. Á tímum aflokunar leiðir COVID-faraldurinn til raf- og stafrænnar byltingar. Meiri geta til fjarvinnu hagræðir fyrir atvinnurekendur og einstaklinga, og veitir ákveðna opnun fyrir Ísland. Þannig opnast betri tækifæri til þess að starfa utan mestu þéttbýlissvæða, með möguleika á minni búsetukostnaði. Tilfærsla þjónustu yfir í stafrænt form minnkar vinnuálag og sóun vegna ferðalaga.
Sem betur fer eru Íslendingar ekki með her og viðbrögð Íslendinga hafa fyrst og fremst byggst á samfélagslegu átaki, frekar en formlegri valdbeitingu að ofan. Þannig náum við að vernda frelsi og samstöðu á sama tíma og við færum fórnir fyrir viðkvæmustu hópana, en við getum líka gert það án þess að kvíði og ótti gegnsýri gildismat okkar.
Athugasemdir